Færeyskt-íslenskt stefnumót í Menningarvikunni
- Opnun myndlistarsýningar.
Sýning á verkum tveggja myndlistarmanna, þeirra Birgit Kirke frá Færeyjum og Sossu Björnsdóttur frá Íslandi í húsnæði verður opnuð í tilefni af menningarviku í Grindavík. Sýningin verður í húsnæði Veiðafæraþjónustunnar að Ægisgötu 3 laugardaginn 15. og sunnuaginn 16. mars.
Við opnun mun hinn góðkunni tónlistarmaður Gunnar Þórðarson ásamt Stanley Samuelsen frá Færeyjum leika íslenska og færeyska tónlist fyrir sýningargesti. Viðburðurinn er liður í samstarfi listamannanna sem hófst í Þósrhöfn í Færeyjum vorið 2013 og síðar á ljósanótt í Reykjanesbæ sama ár og nú lýkur þessu samstarfi í Grindavík í Menningarvikunni.
Sossa er fædd í Keflavík og hefur unnið sem myndlistamaður frá 1984. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sem grafiker frá Skolen for Brugskunst í Kaupmannahöfn 1984 og MFA í málaralist frá Tufts University og School of the Museum of Fine Arts í Boston 1993. Auk sýninga á Íslandi hefur Sossa sýnt til fjölda ára bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, en lengst af og árlega í Kaupmannahöfn frá 1994 þar sem hún er einnig með vinnustofu. Haustið 2013 var Sossa Fulbright sendikennari í Seattle.
Birit Kirke er Færeyskur málari, fædd á Grænlandi þar sem foreldrar hennar voru við störf, en býr og er með vinnustofu í Herning á Jótlandi. Hún stundaði nám við Tekno Herning og Aarhus kunstakademi á árunum 2001 - 2010. Hún hefur haldi fjölda einkasýninga í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi auk þess að sýna með Sossu í Duus húsum á ljósanótt á síðasta ári.
Stanley Samuelsen er Færeyskur tónlistamaður fæddur í Fuglafirði, en búsettur síðustu árin í Danmörku. Hann hefur starfað lengi sem tónlistamaður. Gefið út fjölda hljómdiska og haldið tónleika víða um heim, en einkum í Danmörku og Færeyjum. Gunnar Þórðarson þarf vart að kynna. Það skal tekið fram að þeir Gunnar og Stanley munu einnig taka nokkur lög við setningu hátíðarinnar í Grindavíkurkirkju.
Viðburðurinn er styrktur af Vaxtarsamingi fyrir Suðurnes og Grindavíkurbæ.