Færðu púttklúbbnum mynd í minningu Lórýar
Hjónin Ólafur Björnsson og Hrefna Ólafsdóttir komu færandi hendi á púttæfingu á dögunum og færðu Púttklúbbi Suðurnesja málverk af Lórý Erlingsdóttur, fyrrum formanns púttklúbbsins, en hún lést í vetur.
„Okkur fannst verðugt að halda uppi minningu hennar í þessum klúbbi sem hún nánast var sálin og driffjöðrin í í 20 ár,“ sagði Ólafur í samtali við Víkurfréttir. Ólafur bætti því við að fyrir utan störf sín með púttklúbbnum hafi hún verið afar öflug í öllu félagstarfi fyrir eldri borgara. Hefur myndinni, sem var máluð af listamanni á Kanaríeyjum, verið fundinn staður í Selinu, félagsmiðstöð eldri borgara, í Reykjanesbæ.
Ólafur og Hrefna afhenda Hafsteini Guðnasyni, formanni Púttklúbbs Suðurnesja, myndina af Lórý. VF-mynd/Þorgils