Færði HSS gjafir
- Safnaði framlögum í sextugsafmælinu
Hjónin Ásmundur Friðriksson og Sigríður Margnúsdóttir komu færandi hendi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í vikunni og afhentu stofnuninni góðar gjafir. Frá þessu er greint á vef HSS. Meðal gjafanna voru spil og annars konar afþreying og minni raftæki sem vöntun var á, bæði fyrir sjúklinga á legudeildinni og vistfólk á Víðihlíð.
Ásmundur fagnaði sextugsafmæli fyrr á árinu og stóð við það tilefni fyrir söfnun til góðra málefna og er þetta fjórða gjöfin sem þau hjónin gefa úr þeim sjóði.
Við afhendinguna sagði Ásmundur að hann og Sigríður, sem hefur unnið á HSS í tíu ár, vonuðu að gjöfin kæmi sér vel og myndu stytta sjúklingum og vistfólki stundir.
Halldór Jónsson forstjóri þakkaði kærlega fyrir þessar höfðinglegu gjafir og lagði áherslu á verðmætið sem felist í því að stofnunin hafi gott bakland í samfélaginu og marga jákvæða talsmenn.