Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fær sér popp og kók yfir Scandal
Elva Björk Sigurðardóttir og sonurinn Daníel Aron.
Laugardagur 12. júlí 2014 kl. 10:58

Fær sér popp og kók yfir Scandal

Afþreying Suðurnesjamanna

Hin 22 ára gamla Keflavíkurmær Elva Björk Sigurðardóttir gerir ýmislegt sér til dundurs. Hún er þessa dagana í fæðingarorlofi en hún á fjögurra mánaða gamlan son, Daníel Aron, ásamt kærasta sínum Róberti Þór. Við fengum Elvu til þess að segja okkur hvað hún gerir sér til afþreyingar þegar hún á tíma aflögu en þar kennir ýmissa grasa.

Bókin

Ég er að lesa bókina Divergent um þessar mundir. Ég fjárfesti í bókinni þegar ég var stödd erlendis nú fyrir skömmu. Ég hafði ekki mjög miklar væntingar til bókarinnar en hún hefur komið mér skemmtilega á óvart. Það er rosalega erfitt að segja frá henni í stuttu máli en svona í grófum dráttum er hún um stelpu sem þarf að velja á milli flokka, hvort hún vilji halda áfram að lifa sínu lífi með sínum flokki, eða velja annan flokk og þar af leiðandi byrja nýtt líf á eigin fótum. Ég er allavegana mjög spennt að sjá bíómyndina, en hún kom út núna í mars. Bókin Grimmd eftir Stefán Mána er svo næst á dagskrá hjá mér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tónlistin

Ég er þessi dæmigerða alæta þegar kemur að tónlist. Ég er mikið fyrir svona „feel good“ tónlist og fær platan Wait for Fate með Jóni Jónssyni oft að rúlla á mínu heimili. Eyjalagið með honum er einmitt algjört heilalím. Íslensk tónlist er í miklu uppáhaldi hjá mér og hlusta ég rosalega mikið á hana ásamt því að hlusta mikið á Beyonce, John Legend og Kanye West. Svo á ég líka einn fjögurra mánaða strák og er ég með lög eins og Hafið bláa hafið, Maístjarnan og Úmbarassa stanslaust á heilanum, enda eru þau sungin oft á dag með tilheyrandi fagnaðarlátum.

Sjónvarpsþátturinn

Undanfarið hef ég verið að horfa á Scandal þættina en ég er alveg að elska þá. Þeir fjalla um spillinguna í stjórnmálum og lögfræðinga sem vinna að allskyns málum. Ég er mikið fyrir þætti af þessu tagi, sem sagt með mikilli spennu og drama. Grínþættirnir How  I met your mother og Friends eru líka ofarlega á listanum, en þeir eru reyndar meira svona þættir fyrir svefninn, heldur en þættir sem maður fær sér popp og kók yfir. Þegar á heildina er litið eru samt alltaf vinkonur mínar í Desperate Housewives og vinur minn Gabriel Macht í Suits í uppáhaldi hjá mér.