Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fær reglulega bónorð á götum úti
Sunnudagur 12. janúar 2014 kl. 12:03

Fær reglulega bónorð á götum úti

- Keflavíkurmærin Ásta Rós Árnadóttir er sjálfboðaliði í Indónesíu en þar býr hún í smábæ undir eldfjalli. Hún er ofurhugi og ævintýramanneskja fram í fingurgóma og hefur farið í sjötíu fallhlífarstökk.

Að halda því fram að Ásta Rós Árnadóttir sé ævintýramanneskja er vægt til orða tekið. Þessi 24 ára Keflvíkingur er nú búsett í Indónesíu en áður hefur hún búið í Kenýa en á báðum stöðum hefur hún unnið við sjálfboðastörf. Á milli þess sem hún ferðast og dvelur í framandi löndum stundar hún fallhlífarstökk. Blaðamaður Víkurfrétta hafði samband við Ástu Rós sem dvelur um þessar mundir í litlum indónesískum bæ í hlíðum eldfjalls þar sem hún vinnur á elliheimili fyrir munaðarlausar konur.

Ásta Rós er nú í annað skipti starfandi sem sjálfboðaliði á framandi slóðum en að hennar mati er þetta eitt það lærdómsríkasta og skemmtilegasta sem hægt er að gera í lífinu. „Þessi reynsla að starfa sem sjálfboðaliði hefur verið frábær og finnst mér að allir ættu að prófa að eitthvað svona allavega einu sinni á ævinni. Þetta hefur gefið mér mjög mikið. Ég hef fengið tækifæri á því að ferðast út um allt og upplifa hluti sem ég hefði annars aldrei fengið tækifæri á að upplifa. Einnig hef ég kynnst fullt af skemmtilegu og áhugaverðu fólki alls staðar að úr heiminum,“ segir Ásta. Fyrir þremur árum fór Ásta fyrst í sjálfboðaliðastarf en þá vann hún á munaðarleysingjaheimili í úthverfi Naíróbí sem er höfuðborg Kenýa. Þar dvaldi hún hjá góðri fjölskyldu í þrjá mánuði og hugsaði um börn á aldrinum 0-2 ára. Eftir þá einstöku reynslu var ekki aftur snúið og þegar Ásta rakst á auglýsingu frá evrópsku sjálfboðaliðasamtökunum EVS í byrjun ársins 2013 ákvað hún að sækja um að halda til Indónesíu. Þar verður hún alls í níu mánuði en Ásta er hæstánægð með dvölina í landinu hingað til.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fólkið vinalegt og brosmilt

Ásta býr í bænum Ungaran sem stendur við eldfjallið Mt. Ungaran. Umhverfið litast af fagurgrænum hrísgrjónaökrum og frumskógum. Bærinn sjálfur er vinalegur þar sem alls staðar má sjá fólk hlæjandi og brosandi. Indónesar hafa virkilega hlýlegt viðmót og að sögn Ástu eru þau yndislegasta fólk sem hún hefur kynnst. „Fólkið hér er svo ótrúlega vinalegt og brosmilt og allir eru tilbúnir að hjálpa hver öðrum við hvað sem er, hvenær sem er. Það eru auðvitað svartir sauðir inn á milli eins og alls staðar í heiminum, en upp til hópa er þetta ótrúlega jákvætt og skemmtilegt fólk.“ Konurnar á elliheimilinu eru þar engin undantekning. „Þær eru 30 talsins sem búa á heimilinu, frá 65-99 ára og hver önnur skemmtilegri. Það er ótrúlega gaman að hlusta á sögurnar þeirra og fræðast um allt sem þær hafa upplifað á lífsleiðinni. Aðeins ein kona á heimilinu talar ensku en sem betur fer er indónesíska frekar auðvelt tungumál. Ég get núorðið haldið upp einföldum samræðum og skil mjög mikið, sem er heppilegt þar sem gömlu konurnar hafa ansi gaman af því að segja frá,“ segir Ásta.

Um 15 evrópskir sjálfboðaliðar vinna með Ástu og er starfið á elliheimilinu fjölbreytt en helsta hlutverk sjálfboðaliðana er að aðstoða konurnar við daglegar athafnir, en þær þurfa mismikla hjálp. Sumar eru algjörlega rúmliggjandi á meðan aðrar geta gert flest allt sjálfar. Hin nhefðbundni vinnudagur felst í því að bera fram matinn, skipta um á rúmum, brjóta saman þvott, skúra gólf og fleira í þeim dúr. Að auki hjálpa sjálfboðaliðarnir til við að mæla blóðþrýsting, hjálpa til við morgunleikfimina, nudda fætur og bak og ýmislegt tilfallandi.

Vinsælt að fá mynd af sér með hvítingjunum

Ástu og hinum sjálfboðaliðunum hefur verið vel tekið í samfélaginu í litla bænum. Mjög lítið er um túrista á svæðinu og því er mjög sjaldgæft að Indónesar rekist á hvítt fólk. Margir hafa aldrei séð hvíta manneskju áður og hefur Ásta upplifað ansi mörg skondin atvik. Endrum og eins er hún beðin um eiginhandaráritun, flestir vilja fá símanúmerið hennar og sumir vilja helst giftast henni strax á staðnum. „Það er misjafnt hvernig fólk bregst við þegar það sér mig. Sumir bara stara á mig og þora ekki að segja neitt á meðan aðrir eru ekkert feimnir við að koma upp að mér og biðja um mynd. Það er ósköp venjulegt að ókunnugt fólk sem ég mæti úti á götu byrji að spalla við mig og spyrji mig hvert ég sé að fara, hvað ég sé að fara gera og hvern ég sé að fara hitta. Þetta fær þó ekkert á mig, þetta er yfirleitt bara saklaust og skemmtilegt,“ segir Ásta við forvitni heimamanna.

Á ferð og flugi

Ferðalög eru stór partur af lífi Ástu þegar hún er stödd á framandi slóðum. Hefur hún ákveðið að halda upp á afmælið sitt á Karimunjawa eyjunum í febrúar, en í mars mánuði mun hún einnig taka sér frí til þess að ferðast um nærliggjandi lönd. Thaíland, Malasía og Singapore eru á dagskránni og eins fleiri staðir í Indónesíu. Um helgar reynir Ásta að skoða sem mest og hefur hún nú þegar skoðað fjölda mustera m.a. Einnig hefur hún heimsótt nærliggjandi borgir eins og Magelang þar sem eitt virkasta eldfjall heims er staðsett.

„Þetta er eins og að fljúga“

Ásta Rós á sér ýmis önnur áhugamál en ferðalög og sjálfboðaliðastörf. Um sumarið 2012 ákvað Ásta að láta gamlan draum rætast og prófa fallhlífarstökk. Síðan þá hefur hún stokkið um 70 sinnum og er hvergi nærri hætt. Um leið og hún lenti á jörðinni eftir fyrsta stökkið skráði hún sig umsvifalaust á byrjendanámskeið hjá Fallhlífarstökkfélaginu Frjálsu Falli (FFF) sem hún útskrifaðist af í lok júlí. Helsti stökkstaðurinn á Íslandi er á Hellu en einnig fór Ásta í hópferð með öðrum íslenskum fallhlífarstökkvurum til Flórída um síðustu páska.

„Fallhlífarstökk hafði lengið verið á „bucket“ listanum mínum sem einn af þeim hlutum sem ég yrði að prófa einhvern tímann á lífsleiðinni. Vinkona mín hringdi svo í mig einn sólríkan frídag í fyrrasumar og spurði hvort ég væri til. Við ákváðum að láta loksins verða af þessu og bókuðum stökk daginn eftir. Ég verð henni ævinlega þakklát fyrir að hafa hringt í mig, annars væri ég örugglega ekki ennþá búin að fara.“ Helsta stressið segist Ásta hafa upplifað rétt fyrir stökkið en að það hafi horfið um leið og hún settist upp í flugvélina. Hana langaði ekkert meira en að hætta við þegar hún var komin í gallann og þegar verið var að festa græjurnar á hana. En þegar flugvélin tók á loft hvarf stressið og adrenalínið fór að streyma.

Ásta segist eiga erfitt með að lýsa tilfinningunni fyrir einhverjum sem hefur ekki prófað að stökkva. „Það sem ég get sagt er að tilfinningin er einhvernvegin ekki eins og maður sé að falla til jarðar heldur eins og maður sé að fljúga. Fólk heldur oft að þetta snúist bara um að hoppa út og láta sig falla, en þetta snýst um svo miklu meira en það. Það er hægt að fara áfram og aftur á bak og beygja, það er hægt að hægja á sér og láta sig falla hraðar. Það er hægt að liggja á maganum, liggja á bakinu, sitja, standa o.s.frv. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og maður keppist um að verða betri og betri með hverju stökkinu. Það er keppt í hinum ýmsu greinum um allan heim þannig að þetta er í rauninni bara eins og hver önnur íþrótt,“ segir ævintýramanneskjan Ásta að lokum.