Fær Happasæls-golfsnillingurinn nýjan hamborgara á sjávarréttakvöldi GS?
Það má búast við miklu fjöri að venju á árlegu herrakvöldi Golfklúbbs Suðurnesja í golfskálanum í Leiru nk. föstudagskvöld, 11. nóv. Á herrakvöldinu er að venju boðið upp á sjávarréttaveislu en kóngurinn í GS eldhúsinu í ár eins og í fyrra, er Keflvíkingurinn og Vínbars eigandinn Gunnar Páll Rúnarsson. Faðir hans, Rúnar Marvinsson, var kokkur á fyrstu herrakvöldum GS en í mörg ár elduðu þeir saman á Veitingahúsinu Við Tjörnina í Reykjavík.
Herrakvöldið er stærsta einstaka fjáröflunarverkefni Golfklúbbs Suðurnesja og hefur verið haldið árlega í nær aldarfjórðung. Að venju er sérstakur ræðumaður á kvöldinu en iðulega hefur hann komið af Alþingi Íslendinga, eins og nú. Kristján Möller, alþingismaður verður sérstakur gestur kvöldsins og ætlar að mæta með skemmtisögur úr þinginu. Kristján hefur verið áberandi vegna málefna atvinnulífsins á Suðurnesjum þó hann búi ekki í kjördæminu.
Þrátt fyrir ljúffenga sjávarrétti þá hefur Guðmundur Rúnar Hallgrímsson sem er úr hinni vel þekktu Happasæls fiskifjölskyldu í Keflavík og er einn fremsti kylfingur GS, sótt um undanþágu frá fiskiveislunni vegna sérstakra aðstæðna. Í fyrra fékk hann hamborgara og franskar kartöflur en undanþága Guðmundar er nú í vinnslu hjá stjórn kvöldsins sem liggur nú undir feldi hvað verði á diski meistarakylfingsins að þessu sinni. Fjölskylda hans vonast þó til að drengurinn fari að borða fisk eins og aðrir Íslendingar.
Auk ljúffengra sjávarrétta sem alltaf hafa slegið í gegn á herrakvöldum GS verður að venju veglegt happdrætti með yfir 50 veglegum viningum, m.a. Icelandair ferðavinningar, árskort í Bláa lónið fyrir alla fjölskylduna og fleiri glæsilegir vinningar. Þá verður uppboð á eðal rauðvínum og hugsanlega fleiru.
Sala miða á kvöldið hefur gengið vel en GS vonast til að fylla húsið. Allir eru velkomnir og miðaverði er stillt í hóf. Miðasala er í síma 846-0666 (Gunnar).
VF-mynd: Guðmundur Rúnar fékk hamborgara og franskar frá sjávarréttaguði golfklúbbsins, Loga Þormóðssyni á herrakvöldinu í fyrra.