Fær alltaf sömu bókina í jólagjöf
Jólaspjall: Benedikt Karl Gröndal
Leikarinn Benedikt Karl Gröndal frá Grindavík hefur átt annasamt ár. Hann flutti til Akureyrar þar sem hann starfar hjá Leikfélagi Akureyrar. Nú síðast tók hann þátt í uppsetningu „Þetta er grín, án djóks,“ ásamt Sögu Garðars og Dóra DNA. „Fáránlega fyndin og góð sýning sem við sýndum fyrir fullu húsi í Hofi á Akureyri og kvöddum síðan með því að fara með hana í Hörpu við mjög góðar undirtektir. Ég á eftir að sakna þess að sýna hana. Það er bara svo virkilega gaman að vinna við það að búa til grín með vinum sínum. Saga Garðars, Dóri DNA og Jón Páll leikstjóri eru fyndnasta fólk sem ég þekki. En núna vorum við að byrja æfa Pílu Pínu sem er næsta verkefni Leikfélags Akureyrar. Það á eftir að verða ótrúlega flott og falleg sýning! Frumsýnum það í byrjun febrúar. Komið norður. Getið farið á skíði, séð svo frábært leikhús og svo kannski geggjaða tónleika á Græna Hattinum.“
Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið?
Sko, það eru nokkrar myndir sem ég verð að horfa á yfir jólin. Die Hard 1 og 2 eru skylduáhorf. Svo mikið í gangi, mikil spenna í loftinu og vondir karlar að reyna eyðileggja allt en svo vinnur góði karlinn að lokum og allt verður gott. Alveg eins og í aðdraganda jólanna. Svo mikið í gangi, allir spenntir fyrir jólunum og svo kemur vondi kapítalistinn og reynir að eyðileggja allt með því selja jólin en svo kemur góði jólasveinninn minnir okkur á hvað jólin snúast um í raun og veru. John McClane er ekki jólasveinninn sem við eigum skilið heldur er hann jólasveinninn sem við þurfum á að halda. Svo eru Harry Potter myndirnar líka mjög góðar yfir jólin. Frábærar ævintýramyndir sem maður getur horft á með allri fjölskyldunni eða bara einn, það er allt í lagi horfa á þær einn. Mundu bara, þú ert ekki tabú. En uppáhalds jólamyndin mín er Grinch. Ég tengi ekki við neina aðra mynd eins mikið og hana. Falleg og bara ótrúlega góð jólamynd sem fangar það sem jólin eiga að snúast um, náungakærleik og fólk með skritíð nef að vera gott við hvert annað.
Sendir þú jólakort eða hefur facebook tekið yfir?
Nei því miður! Ég ætla alltaf að gera það svo gleymi ég því og þegar ég man þá er svo stutt í áramótin að það tekur því ekki. En svo hugsa ég stundum að ég ætti bara að senda nýárskort. Það er gert í sumum löndum. Mér finnst það reyndar ótrúlega sniðugt og skemmtilegt! En ég gleymi því alltaf líka. Ég reyni bara hugsa rosalega vel til allra sem hefðu átt að fá kort, og knúsa þau öll sérstaklega vel ef ég hitti þau.
Ertu vanafastur/föst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Já ég myndi segja það. Það er gaman að halda í þær hefðir sem manni þykir vænt. Þá getur maður hlakkað til einhvers og svona. Undanfarin ár hef ég til dæmis hitt hann Odd vin minn á Þórláksmessu. Þetta er hefð sem varð bara óvart til. Við rákumst alltaf á hvorn annan á Laugarveginum og þessi hefð varð til. Við röltum í gegnum miðbæ Reykjavíkur og kaupum síðustu gjafirnar, ef við þurfum, en annars bara njótum við stemningunnar og hittum vini og hofum gaman. Fáum okkur jafnvel viskí dreitil í Kormáki og Skildi.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Það er bók. Lítil bók með frægum setningum og tilvitnunum eftir fræga einstaklinga. Skemmtileg bók og sérstaklega eftirminnileg fyrir þær sakir að undanfarin þrjú jól hefur systir mín gefið mér þessa bók. NÁKVÆMLEGA SÖMU BÓKINA, þrjú ár í röð. Þegar hún hefur verið að leita að gjöf handa mér þá hefur hún rekist á þessa bók í einhverri bókabúð og hugsað: “Jii þetta er sko sniðugt fyrir hann Benna minn. Hefur hefur svo gaman að svona bókum. Best að kaupa þessa handa honum sem svona sæta litla aukagjöf.” Svo man hún aldrei eftir því að hafa keypt þessa bók árinu áður. Ef þið þekkið hana ekki segja henni frá þessu viðtali. Við ætlum öll að taka þátt í þessari félagsfræðilegu tilraun og sjá hvort ég fái ekki þessa bók frá henni í ár. Aftur. Getum við öll verið saman í þessu? Takk.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Við fjölskyldan höldum fast í hefðirnar þegar kemur að jólamatnum og erum ekki mikið fyrir að breyta til. Í forrétt er t.d. þýskt síldarsalat og fois gras. Í aðalrétt erum við síðan með andabringur og rjúpur ef við erum heppin að fá slíkar. Hér með auglýsi ég eftir rjúpum fyrir mömmu mína. HJÁLP!! Þið getið fundið mig á facebook eða í símaskránni. Með fyrirfram þökk.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Ég verð að viðurkenna að ég er svolítill Grinch í mér. Ég fer yfirleitt í gegnum alla aðventuna fussandi og sveiandi. Ég hef líka verið að vinna svo mikið að ég hef reynt að hugsa sem minnst um þetta allt saman. En svo gerist það þegar nær dregur að Aðfangadegi kemst ég í meira og meira jólaskap og svo yfirleitt á Þorlákskmessu er það alveg komið. Þá hugsar maður vel um náungan og til þeirra sem minna mega sín og er þakklátur fyrir allt sem maður hefur.
Hefur þú verið eða gætir þú verið hugsað þér að vera erlendis um jólin?
Nei ég aldrei verið erlendis um jólin og lengi vel fannst mér það fáránleg hugmynd. Mér fannst ég þurfa að vera heima hjá fjölskyldunni yfir hátíðirnar. En í dag er ég alveg opin fyrir því. Svo lengi sem ég er í kringum gott fólk sem mér þykir vænt um er ég opinn fyrir öllu.
Hvernig brástu við þegar þú komst að leyndarmálinu um jólasveininn?
Ég varð gjörsamlega niðurbrotinn og virkilega fúll út í foreldra mína fyrir leyna þessu fyrir mér. Ég talaði ekki við foreldra mína í mörg ár. Ég byrjaði bara að tala við þau í fyrra ef ég á að vera hreinskilinn. DJÓK!! En ég varð mjög leiður og heimsmynd mín skekktist all verulega við þetta en eins og með allt annað þá læknar tíminn öll sár og í dag trúi ég staðfastlega á jólasveininn, skilyrðislaust.
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Nei ég get ekki sagt það. Mér þykir voðalega vænt um jólaskrautið sem hefur verið til í fjölskyldunni frá því ég var lítill og kannski sérstaklega það sem amma og afi áttu. Þau ferðuðust mikið og áttu heima í útlöndum og áttu því mikið af framandi jólaskrauti sem ég hafði ekki séð áður. Ég get ekki nefnt eitthvað eitt en það eru bara allir þessir litlu hlutir sem skipta máli og gleðja mann.
Hvernig verð þú jóladegi?
Yfirleitt í náttfötunum, fyrir framan sjónvarpið eða með einhverja bók sem ég hef fengið í jólagjöf. Svo er jólaboð hjá frænda mínum um kvöldið þar sem ég sprengi mig af hangikjötsáti. Hverjum datt þetta í hug, eins gott og hangikjöt er, að reykja, salta kjöt og láta það hanga. Við erum ekki mörg hérna á Íslandi, svo við hljótum að geta fundið hann eða hana! Ég vil fara íslensku leiðina og benda á þann seka, gera svo ekkert í því og svo bara halda áfram með lífið og borða hangikjöt vitandi að þessi óprúttni aðili viti að við vitum hvar hann eigi heima og að hann viti upp á sig sökina!
Verum góð við hvert annað um jólin og ekki henda öllum vondu konfektmolunum frá Nóa Siríus eða Quality Street. Ég veit um fólk sem þykir þessir molar góðir. Gefum þeim þessa mola. Gleðileg jól.