Fæðingar og fullt tungl

Margrét Knútsdóttir gegnir því göfuga hlutverki að vera ljósmóðir

Margrét Knútsdóttir gegnir því göfuga hlutverki að vera ljósmóðir, fyrsta manneskjan sem barnið yfirleitt sér þegar það kemur inn á jörðina. Til gamans er skemmtilegt að bera saman þýðingu þessara orða á mismunandi tungumálum, móðir ljóssins á íslensku, jarðarmóðir á dönsku og miðjufrú á ensku. Á meðgöngu skiptir þessi starfsmaður heilbrigðisþjónustunnar miklu máli fyrir hverja verðandi móður og foreldra. Ljósmóðirin er sú sem fylgist vel með barninu frá upphafi til fæðingar og rúmlega það.

Við hittum Möggu Knúts á fæðingardeildinni einn rólegan föstudagsmorgun en það var ekkert létt að ná henni á deildinni vegna anna. Okkur langaði að ná tali af henni á fæðingardeildinni og biðum því eftir að tunglið minnkaði aftur, já því tunglið hefur víst áhrif á fjölda fæðinga segir sagan.
 

Náttúran hefur áhrif
„Mig langar að sýna þér svolítið, komdu,“ segir Magga við blaðakonu eftir að hafa boðið hana velkomna á fæðingardeildina í Reykjanesbæ. „Sjáðu hérna er tafla þar sem við skoðum hvernig tunglið er staðsett og fjöldi fæðinga. Þegar þú varst að reyna að ná af mér tali hérna fyrr í vikunni og ekkert gekk, þá var tunglið að fyllast og fæðingum fjölgaði. Það er gaman að sjá samhengið og af því að við höldum að við séum ekki tengd náttúrunni en erum það svo sannarlega. Djúpar lægðir hafa einnig áhrif.“ segir Magga upprifin.

Fæðingardeildin á Suðurnesjum þykir einstaklega heimilisleg og þar er hlýlega tekið á móti allri fjölskyldunni. Makar sængurkvenna mega gista yfir nótt en herbergin eru fá og mjög vistleg. Í dag hefur fæðingum fækkað verulega á deildinni í Keflavík en það er vegna þess að deildin er eingöngu rekin af ljósmæðrum. Þær konur sem eru í áhættuhópi á meðgöngu fara inn eftir til Reykjavíkur en þær konur sem vilja og geta fætt á náttúrulegan hátt fæða í Keflavík.Stundum eru konur hræddar

„Já við græjum þetta bara sjálfar þegar um eðlilegar fæðingar er að ræða en ef eitthvað kemur upp á þá erum við í góðu sambandi við Landspítalann. Þær konur sem fæða hér suður frá eru ekki í áhættuhópi og vilja fæða á náttúrulegan hátt. Þegar skurðstofunni var lokað þá var þessari einingu breytt í ljósmæðraeiningu. Við myndum persónulegt samband við konurnar á meðgöngu og fylgjumst vel með þeim bæði fyrir og eftir.“ segir Magga og svarar farsímanum sem hringir mitt í samtalinu okkar. Eftir nokkrar mínútur er hún mætt aftur í viðtal og segir að stundum hringi verðandi mæður vegna þess að þær eru óöruggar eða eru að ímynda sér eitthvað eftir að hafa lesið á netinu einhverja lesningu sem hræðir þær. Þá er þeim boðið að koma á deildina og spjalla við ljósmóður sem getur útskýrt betur fyrir þeim hvað sé að gerast á meðgöngunni þeirra.

„Ég segi stundum við verðandi mæður að hætta að „Googla“ og leggja frá sér tölvuna. Það getur stundum ruglað þær og valdið þeim kvíða þegar þær eru að leita sér upplýsinga á vefnum. Það eru breyttir tímar en áður fékkstu kannski þessar sömu upplýsingar beint frá mömmu þinni eða tengdamömmu. Stundum er aðalstarfið mitt að róa verðandi mæður,“ segir hún.„Ég segi stundum við verðandi mæður að hætta að „Googla“ og leggja frá sér tölvuna.

Jóga hjálpar verðandi mæðrum
Magga kennir meðgöngujóga einu sinni í viku í OM setrinu Njarðvík en þar segist hún flétta saman hlutverki sínu sem ljósmóður við jógaæfingarnar. „Ég varð svo heilluð þegar ég sá hvað konur fóru létt í gegnum fæðingu sem höfðu æft jóga á meðgöngu. Þeim gekk betur. Þess vegna ákvað ég að læra jógakennarann. Ég tala um fæðinguna í jógatímanum og kenni þeim öndun. Þær þurfa ekki að vera hræddar við fæðinguna, heldur æfi ég þær í að ná stjórn í gegnum öndun og takast þannig á við verkina seinna. Tækla þá á náttúrulegan hátt,“ segir Magga.

Kjarabaráttan erfið
Margir landsmenn tóku stöðu með ljósmæðrum í kjarabaráttunni þeirra í sumar. Margrét Knútsdóttir var ein þeirra sem sagði upp störfum en dróg uppsögnina tilbaka þegar stéttinni tókst að semja. „Mér fannst ömurlegt að finna viðhorf stjórnvalda til okkar ljósmæðra í þessari kjarabaráttu og mjög vont fyrir verðandi foreldra öll þessi spenna og óöryggi. Ég elska starfið mitt en ákvað samt að segja upp og sýna samstöðu ef það yrði til þess að bæta kjör þessarar kvennastéttar. Mér varð hugsað til dóttur minnar sem langar að starfa við þetta seinna. Ljósmæður fara í gegnum sex ára háskólanám og mikil ábyrgð fylgir starfinu. Launakjörin mættu endurspegla það. Ég er sáttari í dag eftir að samningar tókust og mér finnst við einnig hafa náð fram viðhorfsbreytingu. Það var gott að finna stuðninginn frá öllu fólkinu,“ segir Magga sem tekur aftur gleði sína þegar við vendum kvæði okkar í kross og hún er spurð hvort hún hafi hjálpað konu að vera ófrísk. „Já ég starfaði meira við það áður í gegnum nálarstungur en nú einbeiti ég mér meira að verkjastillingu og fleiru með nálunum. Streita getur haft mikil áhrif á að kona verði ólétt. Flæðið er ekki til staðar en þegar fólk slappar af þá opnast allt. Við sjáum þetta einnig í fæðingu þegar konan er hrædd þá lokast allt. Streitan er alltaf versti óvinur okkar,“ segir Magga og við kveðjum með innilegri þökk fyrir hlýjar móttökur á fallegri fæðingardeild Suðurnesja.

Streita getur haft mikil áhrif á að kona verði ólétt. Flæðið er ekki til staðar en þegar fólk slappar af þá opnast allt.