Mannlíf

Fæddi dóttur sína daginn eftir verkefnaskil
Hönnun Ólafar Eddu Eðvarðsdóttur sýnd í Landsbankanum.
Mánudagur 8. janúar 2018 kl. 05:00

Fæddi dóttur sína daginn eftir verkefnaskil

Nemendur sem unnu lokaverkefni í textíl í Fjölbrautaskóla Suðurnesja síðastliðna önn sýndu verk sín í útibúi Landsbankans í Reykjanesbæ á dögunum. Þessi háttur hefur verið hafður á undanfarin ár og hefur textíldeild skólans verið í góðu samstarfi við starfsfólk Landsbankans sem sýnt hefur þessu verkefni mikinn áhuga og stuðning.

Að þessu sinni voru það þær Karen Dögg Vilhjálmsdóttir og Ólöf Edda Eðvarðsdóttir sem sýndu verk sín.
Á heimasíðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja kemur það fram að lærdómsríkt sé fyrir nemendur að sýna verk sín opinberlega á þennan hátt. Þá séu svona verkefni einnig liður í því að styrkja samband og samskipti atvinnulífs og skóla.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ólöf Edda Eðvarðsdóttir segist upprunalega hafa ákveðið að færa sig yfir á fatahönnunarbraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja til að breyta til. Hana langaði að sleppa við það að læra meiri stærðfræði og þótti fatahönnunin spennandi. Um leið og hún svo byrjaði í náminu þótti henni það skemmtilegt og spennandi.

„Ég fékk hugmyndina að línunni minni aðallega í gegnum smáforritið Pinterest, en þar fékk ég helling af hugmyndum og vann svo út frá þeim,“ segir hún í samtali við Víkurfréttir. Vinnan á bakvið fatalínuna tók heila önn, en fyrst byrjaði Ólöf á því að útbúa hugmyndamöppu, hannaði svo fötin og endaði á því að sauma þau og búa til lokamöppu. Þegar lokaverkefninu hafði verið skilað var einungis sólarhringur þar til Ólöf, sem þá var komin níu mánuði á leið, eignaðist dóttur sína. „Þetta var ótrúlega erfitt en með yndislegan kennara og brjálaða þrjósku náði ég að klára þetta. Ef maður vill eitthvað nógu mikið þá gerir maður allt til að ná því, það er bara svoleiðis.“ Aðspurð hvort Ólöf vilji starfa við fatahönnun í framtíðinni svarar hún því játandi. „Það er draumurinn.“