Fæ mikið út úr því að gera gagn
Drífandi ættmóðir og félagsmanneskja.
Birna Óladóttir er flestum Grindvíkingum vel kunn, enda hefur hún verið afar sýnileg í félagsmálum í bænum um áratuga skeið. Birna var á síðastliðnu ári gerð að heiðursfélaga Kvenfélags Grindavíkur. Hún er gift Dagbjarti Einarssyni, sem um tíma rak stórútgerðina Fiskanes.
Þefuðu hvort af öðru
Birna er fædd og uppalin í Grímsey. Á 6. áratug síðustu aldar fór hún á vertíð til Grindavíkur til að ná sér í pening. „Ég náði bara í Dagbjart í staðinn. Þá átti ég systur hérna, gifta tveggja barna móður. Ég bjó hjá henni og starfaði hérna í frystihúsinu. Þá var Dagbjartur í Sjómannaskólanum. Ég ætlaði upphaflega að verða íþróttakennari.“ Birna segir að þau hafi reyndar kynnst fyrst í Grímsey, þegar hún starfaði í Kaupfélaginu og hann var á síldarbát. „Þá fengum við að þefa aðeins hvort af öðru. Svo gekk þetta allt upp hjá okkur, höfum átt góð 54 ár saman. Teljumst mjög heppin.“ Saman eiga þau hjón fimm börn, barnabörnin eru orðin 18 og langömmubörnin fjögur. „Svo er góður slatti af skábörnum, þau eru ömmubörnin mín líka.“
Birna og Dagbjartur á 40 ára afmæli Grindavíkur.
Börnin stofnuðu Backstabbing Beatles
Heimasíminn og farsími Birnu hringja til skiptis öðru hverju á meðan á viðtali stendur og þar eru börnin og barnabörnin að heyra í henni. Birna segir fólkið sitt mjög duglegt að kíkja til sín og sambandið við þau sé gott. „Æ skelfing er ég fegin að síminn hringir oft. Það er svo gott að heyra í fólkinu mínu. Öll börnin mín búa hér í Grindavík. Við erum afskaplega heppin með börn, þetta er allt strangheiðarlegt fólk. Svo eru þau líka hæfileikarík. Bræðurnir fjórir og systirin stofnuðu band sem heitir Backstabbing Beatles. Þau spila bara Bítlalög og æfingar fara gjarnan fram í bílskúr Einars, elsta sonar míns.“
Spilin góður félagsskapur
Á borðinu sem blaðamaður og Birna sitja við eru spil. „Spilin eru góður félagsskapur. Við hjónin leggjum oft kapal. Því fylgir svo mikil slökun. „Ég kann marga kapla en legg dollarakapalinn oftast,“ segir Birna. Þau hjón eru afar samrýnd og Birna segir að til að mynda oft sé hlegið að þeim fyrir hversu nýtin þau séu. „Ég held og vona að margir séu farnir að hugsa öðruvísi eftir hrun. Manni hryllir við því hversu miklu er hent af mat. Ég geri alltaf tvöfaldan eða þrefaldan skammt af kartöflumús og set í frysti. Allir matarafgangar fara í frysti eða eru borðaðir daginn eftir.“
„Hvernig í andskotanum...“
Í uppeldinu segist Birna einnig ætíð hafa brýnt fyrir börnum sínum að vera góð við aðra og hjálpa þeim sem eru minni máttar. „Þau hafa oft hlegið að okkur með að við séum með aðeins of stórt hjarta. Við höfum hjálpað svo mörgum,“ segir Birna og brosir. Einnig segir hún enn hlegið að því þegar yngsti sonur hennar var fimm ára og nýbúinn að missa afa sinn. Þá hafi sá stutti tekið upp á því að bölva í tíma og ótíma. „Ég var alltaf að segja við hann hversu ljótt það væri að bölva, að afi myndi heyra í honum og svona. Þá svaraði hann bara: Hvernig í andskotanum fara þeir að því að heyra svona langt?“
Birna ásamt vöskum vinkonum sínum hjá Rauða krossinum í Grindavík.
Gott að gefa
Birna byrjaði í kvenfélagi fyrir norðan 14 ára og þegar hún flutti til Grindavíkur 18 ára árið 1959 gerðist hún meðlimur í Kvenfélagi Grindavíkur. „Ég hef alltaf verið mikil félagsmanneskja. Ég mæti á alla fundi og var í stjórn í 17 ár, þar af í níu ár sem formaður.“ Hún segir það besta við slík störf sé að hitta konurnar og vita að hún sé að gera góða hluti. „Okkur er ekkert óviðkomandi að styrkja. Hvort sem það er kirkjan, skólinn, heilsugæslan og þeir sem minna mega sín. Það eru alltaf einhverjir sem þurfa aðstoð.“ Hún segir fólk afskaplega þakklátt fyrir það sem það fær og tilfinningin að gefa sé góð. Kvenfélagið hefur aðallega fjármagnað styrkina með sjómannadagskaffi, en heldur einnig tvö bingó á ári og seldu lengi vel jólakort. „Við höfum verið svolítið í því að gera eitthvað fyrir okkur líka. Til að mynda stofnuðum við ferðanefnd. Við höfum verið heppnar með hversu margar ungar konur hafa bæst í hópinn. Tengdadóttir mín er nýtekin við, Sólveig Ólafsdóttir, mjög kraftmikil kona,“ segir Birna stolt.
Ekki henda neinu!
Auk þess að vera í Kvenfélaginu hittir Birna á hverjum mánudegi hressar konur hjá Rauða krossinum í þrjá tíma. Þar flokka þær fatnað sem skilar sér frá bæjarbúum í gám við hús Rauða krossins. „Þrjár til fjórar konur taka upp úr pokunum sem koma í gáminn og flokka. Restin sér um að laga það sem laga þarf og setja svo saman í pakkningar og gera tilbúið til afhendingar. Mest af þessu er sent til Hvíta Rússlands.“ Birna segir það gefa sér mjög mikið að koma að gagni og vita að hægt er að hjálpa til. Hún hvetur bæjarbúa, sem og aðra landsmenn, að henda engum fatnaði, heldur gefa hann til Rauða krossins. „Það nýtist allt. Líka það sem er götótt og illa farið. Það fer í svokallaðan tæting og er endurnýtt. Einng tökum við glaðar á móti hnyklum, efnisbútum, tvinnum og alls kyns fataafgöngum. Ekki henda neinu!“
Útsýni heiman frá Birnu er íþróttasvæðið og út á haf. Hún er sérstaklega ánægð með að sjá hafið.
Keyptu Svefneyjar í Breiðafirði
Birna segir Dagbjart hafa áður fyrr verið mikið í hestamennsku en hann slasaðist mikið fyrir sjö árum síðan og hefur ekki farið á hestbak síðan. „Við fórum alltaf í hestaferðir þar sem ég var trússarinn með fellihýsið í eftirdragi. Ein til tvær ferðir á hverju sumri. Við vorum með hestana í svokölluðu Víkursamfélagi.“ Árið 1994 keyptu þau hjón Svefneyjar í Breiðafirði og hafa oft dvalið þar, aðallega yfir sumartímann. Árið 2004 keypti Birna svo æskuheimili sitt í Grímsey og búið er að gera það ansi vel upp síðan. „Fyrst var það 90 fermetrar á einni hæð. Síðan byggðum við alltaf meira við það. Í dag eru herbergin eru orðin tíu og baðherbergin tvö. Húsið er fjölskyldunni mikill sælureitur og mikið notað. „Ég ber enn miklar taugar til Grímseyjar. Þar verður ættarmót í sumar og ég hlakka mikið til. Ætli það komi ekki vel á annað hundrað manns,“ segir Birna.
Bjó til forvarnaleið gegn reykingum
Samband Birnu við barnabörnin er afar sterkt og gott. Gagnkvæmt traust ríkir og heiðarleiki. Birnu er illa við reykingar, sérstaklega vegna þess hversu heilsuspillandi þær eru og dýrar. Fjögur af fimm börnum hennar reyktu en eru hætt því. Birna segist ósköp fegin því en ákvað að finna eigin forvarnaleið fyrir barnabörnin. „Þegar elsta barnabarnið fermdist lagði ég 150 þúsund inn á reikning og sagði að það fengi þann pening með vöxtum ef það léti reykingar eiga sig fram að 17 ára aldri. En þó með því skilyrði að ef það byrjar að reykja yrði að endurgreiða mér aftur. Síðan hef ég gert þetta fyrir þau öll.“ Hún segir eitt barnabarnið hafa verið svo heiðarlegt að það kom til hennar og endurgreiddi fjárhæðina þegar það byrjaði að reykja. Hún segir tímana ansi breytta síðan börnin hennar ólust upp. „Þá byrjuðu þau að vinna fyrir sér 11 eða 12 ára í Fiskanesi á sumrin. Í dag má það ekki. Yngsti sonur okkar vildi byrja að vinna fyrr en við neituðum honum því. Þá réði hann sig bara sjálfur í vinnu og þegar hann kom heim með fyrsta 5000 króna seðilinn sagði hann: Hvort á ég að setja þetta í ramma eða upp á vegg?“
VF/Olga Björt