Eyþór Árni úr The Biggest Loser Ísland tekur þátt í Mottumars
Eyþór Árni Úlfarsson, keppandi í sjónvarpsþáttunum The Biggest Loser Ísland, hefur ákveðið að láta skeggið fjúka og taka þátt í Mottumars. Sjónvarpsáhorfendur kynntust Eyþóri með myndarlegt alskegg sem hann hefur nú ákveðið að fórna fyrir átakið.
Eyþór var sendur heim frá Ásbrú í síðasta þætti en á þeim sex vikum sem Eyþór var við keppni á Ásbrú missti hann rúmlega 33 kg. Af nýju myndinni að dæma er ljóst að hann hefur lagt töluvert af frá því að þættirnir byrjuðu og í þættinum sem sýndur verður á SkjáEinum á fimmtudagskvöld verður Eyþór heimsóttur til að fylgjast með því hvernig honum gengur að æfa einn síns liðs. Það verður áhugavert að sjá hvernig þessum næstþyngsta keppanda í sögu The Biggest Loser þáttanna reiðir af en Eyþór vó 249 kíló þegar þættirnir hófust á Ásbrú. Þyngsti keppandinn í sögu þáttanna er Kevin Moore en hann vó 254 kg við upphaf áttundu þáttaraðar Biggest Loser í Ástralíu.
Þeir sem vilja hjálpa Eyþóri við að leggja baráttunni gegn krabbameini lið geta sent honum áheit á vefsíðu Mottumars.
http://www.mottumars.is/keppnin/keppandi?cid=8935