Eyþór Árni hefur misst rúmlega 20 kg
– í The Biggest Loser Ísland
Nú þegar þrjár vikur eru liðnar af raunveruleikaþáttunum The Biggest Loser Ísland sem sýndur er á SkjáEinum hefur Reykjanesbúinn Eyþór Árni Úlfarsson misst rúmlega 20 kg af þyngd sinni, alls 8,3% af upphaflegri líkamsþyngd. Eyþór hefur staðið sig vel í þyngdarlosun og hefur mest losað sig við 7,9 kg á einni viku en hann keppir í rauða liðinu undir handleiðslu Everts Víglundssonar.
Samtals 137,5 kg farin
Alls hafa keppendurnir tólf misst 137,5 kg eða að meðaltali 13,1 kg á hvern keppanda. Þrír keppendur eru fallnir úr leik, þau Óðinn Rafnsson, Inga Lára Guðlaugsdóttir og Aðalheiður Þóra Bragadóttir sem féll úr leik í þættinum í síðustu viku. Öll þrjú voru í bláa liðinu þannig að rauða lið Eyþórs hefur enn ekki misst neinn keppanda heim á fyrstu þremur vikunum. Mest missti Arnfinnur Daníelsson í fyrsta þættinum þegar hann losaði sig við 12,1 kg á aðeins einni viku sem er ótrúlegur árangur.
Lífstílsbreyting keppenda
The Biggest Loser Ísland gengur út á meira en að fækka kílóum og ekki síður mikilvægt er að keppendur hafa misst að meðaltali 7,6% af líkamsþyngd sinni með breyttum lífstíl og nýju hugarfari gagnvart hollustu, hreyfingu og heilsu. Þjálfarar þáttana leggja mikið upp úr að keppendur hefji breyttan lífstíl sem þau viðhalda eftir að þáttunum lýkur. Keppendur hafa fangað hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar með einlægni og baráttuhug en keppninni er ekki lokið fyrir þá keppendur sem sendir eru heim þar sem þau halda áfram að hreyfa sig af krafti og borða hollt eftir að heim er komið. Lokaþátturinn verður í beinni útsendingu í apríl en þá kemur í ljós hvaða keppandi hefur náð mestum árangri.
70% áhorf á fyrsta þátt
Meira en 5.000 heimili fengu sér áskrift að SkjáEinum vikurnar í aðdraganda þáttanna og áskrifendur hafa aldrei verið fleiri. Viðbrögð almennings hafa aldrei verið eins mikil við nokkrum sjónvarpsþætti síðan að SkjárEinn varð að áskriftarsjónvarpi árið 2009. Alls horfði 70% áskrifenda Skjásins á fyrsta þáttinn í frumsýningu, hliðruðu áhorfi eða endursýningu og er þetta mesta áhorf á stakan sjónvarpsviðburð í sögu SkjásEins.
The Biggest Loser Ísland eru byggðir á erlendri fyrirmynd sem gerðir hafa verið í meira en 25 löndum við miklar vinsældir þar sem þúsundir þátttakenda hvaðanæva að úr heiminum hafa gjörbreytt lifnaðarháttum sínum með undraverðum árangri. Íslensku þættirnir eru framleiddir af SkjáEinum og Saga Film og stýrir Inga Lind Karlsdóttir þáttunum sem sýndir eru á fimmtudagskvöldum á SkjáEinum.
Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá brot frá þátttöku Eyþórs í þáttunum.