Eyrún Ösp þurfti að kljást við krabba
„Það sem ekki drepur mann, styrkir mann,“ segir Eyrún Ösp Ottósdóttir úr Grindavík en hún fékk erfitt verkefni í hendurnar á síðasta ári, stuttu eftir að hún eignaðist þriðja barn þeirra hjóna en hún er gift Óskari Péturssyni. Þessi þriðja fæðing gekk illa og upp vöknuðu grunsemdir og Eyrún fékk verstu hugsanlegu fréttir, hún var komin með krabbamein í legháls og var meinið komið á þriðja stig en alls eru stigin fjögur. Eyrún setti undir sig hausinn, fór í gegnum meðferðina og fékk svo út úr skoðun 7. desember, meðferðin hafði skilað tilætluðum árangri og eins og sakir standa er Eyrún laus við meinið.
Eyrún veit samt að hún þarf reglulega að mæta í skoðun og er meðvituð um að meinið gæti tekið sig upp aftur, þess vegna ætlar hún að bíða með að opna kampavínsflöskuna en hún verður í kæli.
Eyrún og Óskar áttu tvö börn fyrir, Ágústa sem er níu ára og Hafliða sem er fimm ára. Una kom í heiminn í júní en Eyrún skynjaði að það væri hugsanlega maðkur í mysunni. „Fæðingin gekk mjög brösuglega sem er frekar óvenjulegt miðað við þriðju fæðingu. Hún var löng, leghálsinn vildi ekki mýkjast og opnast almennilega en þetta hafðist á endanum. Fæðingarlæknirinn sá eitthvað óeðlilegt, hann sá að það var einhver fyrirstaða en sagði að þetta væri vonandi bara einhver örvefur, pantaði fyrir mig í rannsókn eftir fimm vikur svo ég reyndi að pæla ekkert í því. Viku áður en ég átti að fá út úr rannsókninni sótti á mig einhver ónotatilfinning, ég hugsaði með mér „hvað ef þetta er eitthvað.“ Svo fórum við upp á Landspítala á föstudeginum um verslunarmannahelgina, áður en við vorum að fara í fyrstu útilegu sumarsins. Ég hafði farið í skoðun deginum áður og vissi að ég væri að fá út úr rannsókninni, ég hafði slæma tilfinningu fyrir niðurstöðunum, ég vissi að það væri eitthvað að. Við Óskar mættum á fund læknisins og fengum þær verstu fréttir sem við höfum á ævinni fengið, ég var komin með leghálskrabbamein á þriðja stigi.“
Virk í Krafti
Eyrún hefur verið virk í starfi Krafts sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Til stóð að hún myndi segja sögu sína í átaki sem var að hefjast en Eyrún baðst undan því þegar náttúruhamfarir geysuðu á bæinn hennar, Grindavík. Hún var hins vegar tilbúin að segja sögu sína núna.
Yfirskrift þessa fjáröflunarátaks og vitundarvakningar Krafts í ár er Vertu perla - Berðu Lífið er núna armbandið og vísar það til þess að með því að bera armbandið sé fólk að sýna stuðning með ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum en félagsmenn Krafts taka alltaf eftir því þegar þau sjá fólk bera armbandið úti í samfélaginu. Eins og einn sem segir sögu sína í vitunarvakningunni segir „…að sjá einhvern með armbandið sýnir mikinn stuðning, skilning og samhug.“ Nokkrir félagsmenn Krafts segja sögu sína í átakinu sem hægt er að sjá á https://lifidernuna.is/sogur/. Markmið átaksins er að selja ný Lífið er núna armbönd og leyfa almenningi að öðlast innsýn inn í reynsluheima félagsmanna Krafts með því að deila sögum þeirra.
Sjötíu greinast árlega
Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á ári hverju og hefur það bæði áhrif á þau greindu sem og fjölskyldu og ástvini þeirra. Kraftur heldur úti jafningjastuðningi, hagsmunagæslu, öflugri fræðslu, samveru á jafningjagrunni, veitir hagnýtar upplýsingar og stuðlar að samvinnu félagasamtaka, heilbrigðisstarfsmanna og annarra sem koma að málefnum þeirra sem tengjast sjúkdómnum. Einnig heldur Kraftur úti fjárhagslegum stuðningi með lyfjastyrk í samvinnu við Apótekarann, Styrktarsjóð og Minningarsjóð fyrir aðstandendur ef að félagsmaður fellur frá vegna veikinda sinna.
Tæklaði meðferðina
Eyrún setti strax undir sig hausinn og tæklaði meðferðina af fullum krafti. „Auðvitað brá mér að vita að krabbameinið væri komið á þriðja stig en krabbamein eru mjög ólík læknisfræðilega. Mér var strax sagt að ég væri að fara í læknandi meðferð, það var ekki bara verið að reyna halda meininu niðri, það var ákveðinn léttir. Af því að krabbameinið var komið á þriðja stig var ekki hægt að gera aðgerð því meinið var aðeins búið að dreifa sér, t.d. í eitla. Ég hóf því bæði geisla- og lyfjameðferð, mætti alla virka daga í geislameðferð og flesta föstudaga í lyfjameðferð, alls sex sinnum. Þetta tók ofboðslega mikið á, ég þurfti að hætta með Unu á brjósti og gat í raun ekkert sinnt henni. Fyrirfram sá ég alveg fyrir mér að ég myndi missa hárið en lyfin voru ekki þess eðlis en það skipti mig engu máli, ég var alveg búin að sætta mig við að missa hárið. Svo kláraði ég meðferðina, fékk hvíld í nokkrar vikur og svo kom bara að dómsdegi 7. desember og þvílík sælutilfinning þegar við fengum þær fréttir að meðferðin hefði skilað tilætluðum árangri. Ég mun fara reglulega í skoðun næstu árin, á þriggja mánaða fresti og það er bara frábært,“ segir Eyrún.
Móðir Eyrúnar, Hrafnhildur Björgvinsdóttir eða Abba eins og hún er betur þekkt, fékk krabbamein í brjóst þegar Eyrún var sex ára og Eyrún man vel eftir því. Hún ákvað að láta tékka á sér varðandi BRCA-genið og fékk þá niðurstöðu að hún væri með það og þess vegna voru Eyrún og Óskar búin að ákveða að drífa barneignir af og svo ætlaði hún í brjóstnám sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn brjóstakrabbameini.
„Ég eignaðist elstu dóttur mína, Ágústu, þegar ég var 21 árs og svo eftir að ég eignaðist Hafliða fékk ég að vita að ég væri með þetta BRCA-gen. Við vildum eignast þrjú börn og því kom yndislega Una í heiminn og svo var planið að fara í brjóstnám. Leghálskrabbamein tengist þessu BRCA-geni ekki neitt og því kom þetta ömurlega á óvart, ég gat alveg búist við því að fá brjóstakrabbamein en ekki krabbamein í leghálsinn. Út af BRCA-geninu fór ég í öll eftirlit og stuttu áður en ég varð ólétt fór ég í skoðun og ekkert kom í ljós. Eins og ég segi, þegar ég fékk úrskurðinn um að vera komin með leghálskrabbamein var ég í raun svekkt, ég hafði sinnt öllu eftirliti eins vel og hugsast gat og meira gat ég ekki gert.“
Ömurleg staða í Grindavík
Eyrún er ein fárra Grindvíkinga sem upplifði rýminguna og þær hamfarir sem hafa átt sér stað í Grindavík ekkert svo illa fyrst um sinn, hugur hennar var á allt öðrum stað. Á skalanum einn til tíu í gleði yfir að fá þær fregnir að vera laus við meinið, þá skoraði hún tuttugu. Gleðin var ekki síst svona mikil því móðureðlið er ríkt í henni. „Þegar fyrri rýmingin átti sér stað var ég nýbúin að klára meðferðina og hugur minn var bara hjá sjálfri mér. Ég fékk gleðifréttirnar svo tæpum mánuði seinna og þá var ég auðvitað í skýjunum svo það er skrýtið hvernig ég hef upplifað þær hörmungar sem hafa dunið á okkur Grindvíkingum. Hins vegar er ég algerlega á sama báti og aðrir Grindvíkingar í dag, þetta er ömurleg staða sem við erum í. Þegar ég fékk fregnirnar 7. desember fann ég hvað gleði mín var mikil yfir því að elsku börnin mín voru ekki að lenda í því að verða móðurlaus, ég gat ekki hugsað þá hugsun til enda. Auðvitað er mér sjálfri annt um mitt líf en að vera orðin móðir setti hlutina í allt annað samhengi. Þess vegna var gleðin alveg hreint ólýsanleg en aftur, ég ætla ekki að fagna sigri í stríðinu, miklu frekar lít ég á þetta sem sigur í bardaga en er meðvituð um að meinið gæti tekið sig upp.“
Lít lífið öðrum augum
„Við Óskar erum ekki alveg búin að ákveða hvar við setjumst að, ég vil helst vera á Suðurnesjum, þeim svipar til Grindavíkur. Ég vil að börnin mín alist upp við það frelsi sem við Óskar ólumst upp við í Grindavík, ég vil vera á stað þar sem er eins gott íþróttastarf og í Grindavík en við eigum eftir að finna út úr þessu. Sem betur fer áttum við íbúð í miðbæ Reykjavíkur og það fer mjög vel um okkur en hvort ég vilji alfarið setjast þar að er annað mál en þetta hefur gengið mjög vel. Ágústa labbar í Austurbæjarskólann og Hafliði er á leikskóla sem er nánast við hliðina á íbúðinni okkar. Ég lít framtíðina mjög björtum augum, lít þannig á þessa erfiðu stöðu sem ég lenti í að það sem ekki drepur mann, styrkir mann. Ég lít lífið allt öðrum augum eftir þessa reynslu og ætla að njóta hverrar sekúndu með fjölskyldunni minni,“ sagði Eyrún að lokum.