Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eyrún Jónsdóttir missti 43 kíló
Mánudagur 17. ágúst 2015 kl. 09:58

Eyrún Jónsdóttir missti 43 kíló

– Brosi mun meira í dag en nokkurn tímann áður

Eyrún Jónsdóttir er 33 ára gömul Grindavíkurmær og vörumerkjastjóri hjá Íslensk Ameríska. Hún hafði aldrei verið grönn sem barn og unglingur en svo fór að síga á ógæfuhliðina og kílóunum fjölgaði jafnt og þétt. Sumarið 2012 var hún komin í andlegt og líkamlegt þrot og farin að einangra sig sem gerði það að verkum að hún tók af skarið og skráði sig í einkaþjálfun. Við tók lífsstílsbreyting og Eyrún er í dag 43 kílóum léttari – og brosir að eigin sögn mun meira en nokkurn tímann áður.

„Ég hafði farið reglulega í átak og megrun og verið voða dugleg í einhvern ákveðinn tíma en aldrei haldið það út til lengdar, svo áður en ég vissi af þá voru öll kílóin komin til baka og miklu meira til. Mér tókst aldrei að gera þetta að lífsstíl“, segir Eyrún sem tókst að halda sér í ágætis formi sem barn og fram á unglingsaldur þar sem hún stundaði íþróttir. „Ég hef aldrei verið grönn og á mjög auðvelt með að bæta á mig en þegar ég flutti erlendis 14 ára gömul var ekki eins mikill aðgangur að öllum þeim íþróttum sem boðið er upp á hér heima og þá byrjaði ég að bæta á mig alveg svakalega“.

Þráði að eignast maka og fjölskyldu

Sumarið 2012 var Eyrún komin með nóg bæði andlega og líkamlega. „Ég var farin að einangra mig töluvert og hafði ekki neina ánægju af því að hitta vini og gera eitthvað skemmtilegt. Ég þráði heitt að eignast maka og  fjölskyldu eins og allir vinir mínir en ég var ekki tilbúin að gefa af mér andlega því sjálfstraustið var í molum. Þarna um sumarið hafði ég samband við hana Telmu Matthíasdóttur hjá Fitubrennslu.is og skráði mig í hópeinkaþjálfun.

Eyrún byrjaði í einkaþjálfun hjá Telmu strax í september og kílóin hrundu strax af.
„Ég þurfti að taka rosalega til í mataræðinu og borða mun minna og reglulegra en ég hafði nokkurn tímann gert en ég valdi þá leið að setja mér markmið í kaloríum og taldi þær ofan í mig yfir daginn. Ég fann að það truflaði mig rosalega mikið að fá mér sykur á nammidögum því ég var að fá langanir í sykur aðeins fram í vikuna þannig að ég tók alveg út viðbættan sykur í mataræðinu í 12 mánuði.

Þetta gekk alveg svakalega vel og tilfinningin var það frábær að ég fylltist eldmóði, mig langaði að halda þessu áfram.  Ég missti aldrei móðinn þótt þetta hafi reynt töluvert á. Telma er gríðalega hvetjandi og hélt ótrúlega vel utan um mig á þessum tíma. Hvatningin og hrósið frá fjölskyldu minni og vinum og bara fólki almennt hjálpaði mér líka mikið.

Lífið breyttist strax mjög mikið hjá Eyrúnu og hún fór að upplifa mikla gleði og jákvæðni og sjálfstraustið fór að koma til baka. Það gaf henni aukinn kraft til að halda áfram. Þá bankaði ástin upp á dyrnar en Eyrún kynntist nýlega Árna Má Andréssyni sem hefur verið henni mikil hvatning. „Ég kynntist Árna núna á árinu en hann var líka búinn að breyta um lífsstíl áður en við kynntumst og hefur staðið sig hrikalega vel. Núna getum við bara stutt hvort annað og haldið áfram í jákvæðum lífsstíl saman sem er æðisleg tilfinning.“

Eyrún fær mun jákvæðara viðhorf frá fólki en áður en hún tengir það mest við sitt eigið viðmót. „Ég er orðin mun jákvæðari og brosi mun meira í dag en nokkurn tímann áður og það er það sem er að skila mér þeirri breytingu á viðmóti sem ég finn fyrir. Ég fékk æðislegan stuðning alls staðar frá. Ég talaði reglulega um það á samfélagsmiðlum hvernig mér gekk og þaðan fékk ég roslalega mikla hvatningu. Það gerir alveg svakalega mikið fyrir mann í svona stríði við sjálfan sig og aukakílóin að fá hvatningu frá samfélaginu.“

Markmið Eyrúnar eru nú að líða vel á hverjum degi. „Ári eftir að ég byrjaði að taka mig í gegn, þegar ég var orðin 35 kíóum léttari og full af orku, byrjaði ég skokka aðeins sjálf. Ég fann hvað það var skemmtilegt og skráði mig í skokkhóp hjá Haukunum í kjölfarið. Í dag er ég alveg forfallin og hleyp allan ársins hring, sama hvernig viðrar. Ég borða rétt og hreyfi mig reglulega og eins set ég mér reglulega markmið í hlaupunum, það gerir þetta miklu skemmtilegra að keppa að einhverju.“

Hvað vilt þú segja við þá sem standa ef til vill í sömu sporum og þú gerðir í upphafi?
„Aldrei gefast upp á sjálfum þér og aldrei hika við að leita til þeirra sem geta ráðlagt eða gefið stuðning. Settu þér lítil markmið og fagnaðu því þegar þau nást. Ekki gleyma þér í því að horfa bara á vigtina heldur muna að þetta snýst fyrst og fremst um velíðan og að vera besta útgáfan af sjálfum þér.“





Hér má sjá myndir af Eyrúnu fyrir 35 kílóum






Eyrún eftir lífsstílsbreytinguna



Eyrún og Árni Már kærasti hennar sem einnig tók sig í gegn.





Eyrún með hlaupafélögunum


Hér er Eyrún nýbyrjuð að hlaupa og náði undir 60 mín í fyrsta skipti í krabbameinshlaupinu



Eyrún náði 3. sæti í sínum aldursflokki í hlaupaséríu FH og Atlantsolíu 2015

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024