Eyrnavænir tónleikar og ekki bara fyrir tónlistarnörda
Hátíðartónleikar til heiðurs listamanni Reykjanesbæjar í Hljómahöll
Hátíðartónleikar til heiðurs Eiríki Árna Sigtryggssyni tónskáldi verða haldnir í Bergi, Hljómahöll laugardaginn 29. september n.k. kl. 14:00 en hann fagnar 75 ára afmæli um þessar mundir.
Við hittum tónskáldið ásamt velunnara hans Haraldi Árna Haraldssyni skólastjóra Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem ber hitann og þungann af skipulagningu tónleikanna en hugmyndin kviknaði fyrir ári síðan.
„Eiríkur settist inn til mín og sagðist vilja gera eitthvað í tilefni af afmæli sínu, við fórum að spjalla og þá kviknaði þessi hugmynd yfir borðið, hvort ég ætti ekki að skella í tónleika þar sem fluttur yrði skemmtilegur þverskurður af tónlistarstíl Eiríks, en um er að ræða frumflutning allra verkanna á tónleikunum og hæfa þau tónleikasalnum Bergi í Hljómahöll, einstaklega vel,“ segir Haraldur Árni.
Þeir félagar hafa þekkst í langa tíð í gegnum samstarf í tónlistarskólanum þar sem Eiríkur hefur kennt um árabil en einnig störfuðu þeir saman í Tónlistarfélagi Keflavíkur og nágrennis.
„Ég held ég hafi kennt í öllum tónlistarskólum á Suðurnesjum, nema Vogum,“ segir Eiríkur og hlær. En það er alltaf gaman þegar góðir menn gera eitthvað fallegt fyrir mann og ég botna ekkert í Haraldi að leggja þetta á sig, en er mjög þakklátur.“
Á tónleikunum verða eingöngu flutt kammerverk sem henta vel til flutnings í Bergi sem Haraldur segir einstaklega vel heppnaðan tónleikasal. Verkin valdi Eiríkur sem eru nánast öll samleiksverk, að undanskyldu einu einleiksverki.
„Flytjendur eru allir atvinnumenn í músík, einu áhugamennirnir sem koma fram eru í Kvennakór Suðurnesja sem flytja mun hluta af lagabálki sem Eiríkur samdi fyrir kórinn fyrir nokkrum árum síðan en það er skemmtileg röð af smálögum,“ segir Haraldur.
„Fram koma fjórir strengjaleikarar sem allir starfa með Sinfóníuhljómsveit Íslands, söngkonurnar Dagný Jónsdóttir og Bylgja Dís Gunnarsdóttir eru af Suðurnesjum og hafa báðar kennt hér við tónlistarskólann. Þá mun Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari og kennari við skólann sitja við píanóið í flestum af þessum verkum. Flytjendur tengjast því skólanum og mér sterkum böndum.“
Eruð þið á sama stað í tónlist?
„Okkur kemur vel saman í tónlist. Ég hef aldrei komið að flutningi verka eftir Eirík en er alæta á músík. Ég viðurkenni það alveg að sum verka Eiríks þurfa aðra og jafnvel þriðju hlustun. Það er bara þannig með tónlist sem er ekki dægurmúsík. Það þarf að melta þetta, alveg eins og góða máltíð sem þarf að borða hægt. En þarna eru líka mörg falleg smálög sem grípa mann líkt og lögin sem Dagný og kvennakórinn munu flytja.“
Eiríkur tekur undir þetta, „þetta er allt saman lagrænt en í klassískum stíl.“
Eiríkur Árni er afkastamikill listamaður á sviði tónsmíða og hafa mörg tónverka hans verið flutt hérlendis sem erlendis. Haraldur segir hann einn af fáum klassískum tónskáldum sem Suðurnesjamenn eiga.
„Við erum að halda upp á tónsmíðaferil Eiríks Árna og að sama skapi beina kastljósinu að klassískri tónlist á Suðurnesjum sem við erum líka rík af þótt menn þekki betur dægurtónlistina. Að mínu mati á öll tegund tónlistar rétt á sér, þetta er allt saman músík. En við erum minna þekkt fyrir klassísku tónlistina og það er ein ástæðan fyrir því að ég lagði af stað með þetta verkefni, að sýna að við erum líka í þessum geira. Við erum ekki að sýna það nógu mikið.Við eigum fullt af popp- og rokktónlistarmönnum og flottar hljómsveitir en hér eru líka flott klassísk tónskáld sem eru minna áberandi.“
Hverju mega tónlistargestir eiga von á?
„Þetta verða mjög fjölbreyttir tónleikar. Flutt verða sólóverk, sönglög, kvartett strengja, píanókvintett, dúett fyrir selló og píanó í tangóstíl. Þetta er því skemmtilegur þverskurður og gríðarlega fjölbreytt tónlist og tónleikagestir eiga vön á vönduðum flutningi.
Eiríkur tekur undir þetta, „já þetta verða kúltiveraðir tónleikar enda hátíðartónleikar en þeir verða alls ekki stífir.“
Haraldur lofar eyrnavænum tónleikum
„Þetta verða vandaðir en fjölbreyttir tónleikar og þeir verða eyrnavænir, það þarf ekki þrjár hlustanir segir hann og hlær. Við pössuðum okkur á því við verkefnaval.
Þetta er ekki bara fyrir tónlistarnörda heldur einnig hinn almenna hlustanda til að koma og heyra í tónskáldinu okkar sem enn býr hér og ekki má gleyma því að hann var nýverið valinn Listamaður Reykjanesbæjar. Þetta verður skemmtilegur viðburður.“
Ríkisútvarpið mun taka tónleikana upp og verða þeir sendir út síðar sem er mikilvæg viðurkenning á tónlistarstarfinu suður með sjó að sögn Haraldar.
Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Menningarráði Reykjanesbæjar og Tónlistarfélagi Reykjanesbæjar.
Viðtal: Dagný Maggýjar