Eykur kjark og þor að standa á milli Bergþórs og Garðars
-segir söngkonan og Grindvíkingurinn Berta Dröfn Ómarsdóttir sem heldur burtfararprófstónleika í Langholtskirkju í dag laugardag.
Grindavíkurmærin Berta Dröfn Ómarsdóttir mun næstkomandi laugardag halda burtfararprófstónleika frá Söngskólanum í Reykjavík. Berta, sem er 28 ára gömul, hefur sungið frá unga aldri og stundað nám við Söngskólann í Reykjavík með hléum frá árinu 2001. Í millitíðinni hefur hún dvalið á Kosta Ríka sem skiptinemi, einnig um skeið á Ítalíu, auk þess að vera stúdent frá FS og ljúka BA-gráðu í ítölsku frá HÍ. Berta er nú að ljúka grunnnámi með burtfararprófstónleikum á laugardag sem fram fara í Langholtskirkju.
„Ég mun t.d. syngja verk eftir Bach og aríur eftir Mozart í bland við íslensk lög. Þetta verður í raun allur skalinn úr náminu. Þetta tvinnar saman nánast allt sem ég hef lært síðustu ár,“ segir Berta Dröfn. Hún stundar einnig söngkennaranám við Söngskóla Reykjavíkur og mun ljúka því námi á næsta ári. Berta lætur sig dreyma um að fara í áframhaldandi nám á Ítalíu ásamt Bjarna Bragasyni, kærasta sínum.
„Ég er með augun á einum skóla í Bologna og það er draumurinn að flytja út til Ítalíu. Það er miklu meiri ástríða, tilfinningar, flæði og líf í söngnum á Ítalíu en í Þýskalandi sem dæmi. Það væri frábært að fara í framhaldsnám á Ítalíu,“ segir Berta.
Þessi hæfileikaríka söngkona er uppalin í Grindavík og er dóttir sr. Jónu Kristínar Þorvaldsdóttur, fyrrum sóknarprests í Grindavík, og Ómars Ásgeirssonar, forstjóra Martaks. Berta var snemma hvött af foreldrum sínum til að læra meira í söng enda lá það vel fyrir henni að syngja. Hæfileikar hennar á þessu sviði komu snemma í ljós og sem dæmi þá sigraði hún tvívegis í Söngkeppni félagsmiðstöðva á Suðurnesjum, SamSuð, og tók einnig virkan þátt í söngleikjum og söngkeppnum í námi sínu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Síðastliðið sumar söng hún á þrennum tónleikum á Austurlandi ásamt stórsöngvurunum Bergþóri Pálssyni og Garðari Thór Cortes.
„Ég lærði alveg gríðarlega mikið af því að syngja með Bergþóri og Garðari. Það eykur manni kjark og þor að standa á milli svona reynslubolta, heilt tónleikaprógramm. Veturinn hefur verið annasamur. Tók þátt í Nemendaóperu Söngskólans, hélt tvenna einsöngsjólatónleika, söng við ýmis tækifæri og er með þrjá söngnemendur. Í dag er það ekki 100% starf hjá mér að syngja en ég vona að einn daginn verði það að veruleika. Auk þess að syngja þá hef ég alltaf sinnt öðrum störfum með, þannig að það er nóg að gera“ segir Berta Dröfn að lokum. Burtfararprófstónleikar hennar fara fram kl. 16:00 laugardaginn 20. apríl í Langholtskirkju.