Eyjólfur Einarsson sýnir ný málverk í Listasafni Reykjanesbæjar
Laugardaginn 24. janúar kl. 18.00 verður opnuð sýning á nýjum málverkum Eyjólfs Einarssonar í Listasafni Reykjanesbæjar og ber sýningin heitið Söknuður/Wistfulness. Eyjólfur ákvað ungur að helga sig myndlistinni og innan við fermingu var hann farinn að sækja námskeið hjá Ásmundi Sveinssyni. Eftir nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands hélt hann til Danmerkur og útskrifaðist árið 1966 frá Den Kongelige danske Kunstakademi.
Eyjólfur hefur í tæpa hálfa öld sýnt verk sín víða bæði hér á landi og erlendis og er löngu orðinn þekktur fyrir skemmtilega túlkun sína á líkingunni um hringekjuna og Parísarhjólið sem hringrás og fallvaltleika lífsins. Aðalsteinn Ingólfsson segir í sýningarskrá sem gefin er út af þessu tilefni: „Af málverkum Eyjólfs stafa söknuður og tregi: eftirsjá eftir sakleysi bernskunnar þegar hringekjur voru lífsins mesta undur og róluvellir helsta leiðin til stjarnanna, eftirsjá eftir barnatrúnni á „undursamleikans eigin þrotlausa brunn“, eftirsjá eftir þeim gildum sem ekki hafa „drukknað í æði múgsins og glaumsins“.”
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum er opinn virka daga frá kl. 11.00 til kl. 17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00. Sýningin stendur til 8. mars og aðgangur er ókeypis.