Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Evrópusamstarf í Stóru-Vogaskóla
Mánudagur 13. júní 2022 kl. 05:29

Evrópusamstarf í Stóru-Vogaskóla

Stóru-Vogaskóli hefur tekið þátt í Erasmus+ verkefnum (áður Comenius) á vegum Evrópusambandsins í rúman áratug. Síðastliðið haust fékk skólinn viðurkenningu frá Rannís (Rannsóknarmiðstöð Íslands) sem Erasmus+ skóli til næstu sex ára. Mun skólinn því taka á móti og senda nemendur og kennara erlendis, m.a. í samstarfi við skóla í Frakklandi og á Ítalíu.

Skólinn tók fyrst þátt í verkefnum með heimsóknum nemenda árið 2019 í verkefninu „Europeans by the Sea“. Verkefnið er unnið í samstarfi með skólum frá Pornic í Frakklandi og Battipaglia á Ítalíu. Þáverandi 8. bekkur var þátttökubekkur skólans og var mikill ferðahugur í nemendum þegar Covid skall á og ferðir hópsins frestuðust margsinnis vegna ferðatakmarkana. Nú í apríl og maí náðu þátttökuskólarnir loksins að ferðast með nemendur og hittast. Fyrst heimsóttu frönsku krakkarnir í Collége Jean Mounies Stóru-Vogaskóla og síðar heimsóttu íslensku og ítölsku nemendurnir franska skólann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verkefnið „Europeans by the Sea“ fjallar að mestu um hvaða áskoranir eru tengdar því að búa við ströndina og einnig í námunda við eldfjallasvæði (sem á sérstaklega við um Voga og Battipaglia). Skólarnir lásu t.a.m. bók Jules Verne Ferðin að miðju jarðar sem tengir einnig Ísland og Ítalíu en sagan gerist í báðum löndum. Nemendur unnu ýmis verkefni tengd þessum áskorunum og var rýmingaráætlun skólans og sveitarfélagsins skoðuð. Kom í ljós að hún var komin vel til ára sinna og ástæða til að endurnýja hana. Endurnýjunin fékk aukið vægi þegar jarðhræringar og síðar eldgos hófst á Reykjanesinu árið 2020. Nemendur héldu kynningu á verkefninu fyrir bæjarbúa og fengu sérfræðing, Þorstein Sæmundsson, til að koma og halda fyrirlestur um sögu jarðhræringa á svæðinu, þetta var stuttu fyrir gos!

Í heimsóknum, bæði í Vogana og í Pornic, unnu nemendur verkefni og ýmsar þrautir í tengslum við þau. Nemendur fræddust um staðhætti, fóru í ratleiki um nærumhverfið á báðum stöðum og var hvert tækifæri nýtt til að auka reynslu og þekkingu í ensku en það er eitt af markmiðum verkefnisins.

Verkefnum á vegum Erasmus+ er m.a. ætlað að stuðla að aukinni samkennd meðal þátttökuþjóða. Það má með sanni segja að með þessu samstarfi hafi nemendur frá öllum þremur þátttökulöndunum komist að raun um hversu lík þau eru. Aðstæður sem þau búa við eru keimlíkar, því þótt fjarlægð milli þeirra sé talsverð landfræðilega er staðsetning þeirra og nálægð við hafið og eldfjöll eitthvað sem sameinar þau öll í daglegu amstri lífsins.