Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Étnir lifandi í Amasónfrumskóginum
Mánudagur 17. desember 2007 kl. 09:32

Étnir lifandi í Amasónfrumskóginum

Held það sé ekki hægt að kalla þetta neitt nema pramma sem við erum hér á, siglandi niður stórfljót í Amasónskóginum.  Hljómar spennandi ekki satt? Ferðin er kópering, eða öllu heldur innblásin, af ferð annars ferðalangs sem skrifaði bók um ferð sína í Suður-Ameríku fyrir eitthvað mjög mörgum mánuðum síðan.  Leiðin liggur til stærstu borgar í heimi sem engir vegir liggja til, Iquitos, Perú, og að henni verður ekki komist nema siglandi, fljúgandi eða gangandi.  Já, við erum komnir í nýja heimsálfu.  Fjórða heimsálfa ferðarinnar er aðeins fyrir sunnan þá Ameríku sem Kólumbus fyrst heimsótti og ber það frumlega nafn Suður-Ameríka.


Að hluta til vegna Darien-gapsins (sem er eiginlega bara skortur á Pan-American veginum frekar en eitthvað svaka gljúfur) en aðallega vegna tímaskorts flugum við Suður, yfir Kólumbíu, til Quito í Ekvador.  Og við höfðum ekki tekið okkar fyrstu fimm skref í þessari álfu fjarri okkar ástkæru eyju áður en við urðum fórnarlömb ræningja, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar samdægurs:
Eftir myrkur stigum við út á götur borgarinnar til að upplifa þessa merku heimsminjaborg halda upp á 473 ára afmælið sitt.  Frá því að hóteldyrnar lokuðust liðu um það bil tíu sekúndur þegar tveir gaurar komu heilsandi til okkar.  Ekki leið á löngu áður en annar félaginn greip um höndina á öðrum okkar og bað pent um peninga.  Sá okkar sem gripið var um, Rúnar Berg, neitaði að verða að ósk gaursins.  Þá greip hann harðar um höndina og spurði aftur,.  Og aftur neitaði harðorður gringóinn.  Þá tók ræninginn til rótækra aðgerða og greip um myndavél sem hékk á öxl gringóans.  Gringóinn, sem ætlaði ekki að gefa eftir, var ekki lengi að slá á hönd ræningjans eins og foreldri sem slær á hönd óþægs krakka sem teygir sig eftir sleikibrjóstsykri.  Hissa á þessum viðbrögðum létu ræningjarnir tveir sig hverfa eins og skot.


Seinna um kvöldið eftir að hafa dansað á götum úti og drukkið kanilpúns í tilefni af afmæli borgarinnar var aftur reynt að ræna okkur.  „Gefðu mér peninga og það verða engin vandræði,“ sagði hann í sífellu.  Það er algjört rugl að vera að styrkja svona hegðun, og að ekki sé minnst á að peningana sem geta farið í eitthvað miklu merkilegri málefni heldur en örvæntingafulla göturæningja, svo aftur var horft í augun á ræningjunum, brosað og sagt: „Nei!“ Aftur varð það Rúnar Berg sem gripið var í, í þetta sinn hálskragann, og ræninginn fór með línuna sína aftur, harðar og skýrar.  Rúnar gerði slíkt hið sama að undanskildum hálskragagripunum og fór með línuna sína: „Nei!“ Eftir stutta en vandræðalega þögn skildi ræninginn að hann myndi ekki fá neinn pening nema hann beitti ofbeldi fyrir alvöru sem hann hefur víst ekki þorað á vel upplýstri breiðgötunni og lét sig hverfa í myrkrið.


Þeir segja að það sé lína einhversstaðar í Ekvador sem á að markar miðbaug og ef maður gengur yfir hana þá á maður að ganga á milli hvela jarðarinnar.  En svo segja þeir að þeir hafi misreiknað sig eitthvað og línan sé ekkert á miðbaug.  Við létum þessa línu eiga sig og reyndar höfum við ekki hugmynd um hvernig við komumst yfir miðbauginn.  Við vorum þó það lukkulegir að lenda í Quito akkúrat þegar þeir fagna stofnun borgarinnar 6.  des.  1534 með risaskrúðgöngu.  Við horfðum á brúður, stultudansara, ballettdansara, hermenn og hvaðeina dansa við þjólaglagatónlist í um það bil þrjár klukkustundir.  Næsta morgun vöknuðum við þó snemma því förinni var heitið úr Ekvador í Amasónfrumskóginn fræga.


Við tókum rútu í gegnum Baños eins og óðir menn og sáum því risastórt gjósandi eldfjall bara út um gluggann á rútunni.  Eins keyrðum við framhjá risafossum, baðlaugum, hverum og skógi vöxnum fjallshlíðum.  Þegar við komum heim og lesum akkúrat þessa setningu eigum við eflaust eftir að spyrja sjálfa okkur hverslags hálfvitar við vorum.  En við fórnuðum Ekvador fyrir frumskóginn.  Og það er ekki svo víst að við hefðum náð fyrirframbókuðu Inka-treilinu í tíma ef við hefðum spreðað einum degi í Baños.  Planið var að taka rútu frá Quito í gegnum Baños til Macau.  Þaðan taka aðra rútu til Puerto Rio Morona í Amasónskóginum, gista þar eina nótt í kofa og sigla svo á spíttbát með 9 heimamönnum niður ánna að bæ sem nefnist San Lorenzo og vera þar nokkra daga að skoða Amasónskóginn og þessháttar.  Þaðan myndum við svo taka þriggja til fjögurra hæða bát sem flytur fólk til Iquitos.  Og að lokum myndum við taka flugvél úr frumskóginum til Lima og rútu til Cuzco svo við gætum náð Inka-treilinu okkar í tæka tíð.  Vandræðin voru ekki lengi að koma.  Strax á rútustöðinni í Quito var fararstjórinn okkar, Juan, grunaður af lögreglunni að vera að fara að ræna okkur því hann sást fara með okkur á veitingastað.  Hugrakkur löggumaðurinn stökk til að bjarga grunlausum gringóunum frá því að vera féflettir.  Það þurfti fjóra lögreglumenn svo 3 klukkutíma að finna út, þrátt fyrir að hafa allar kvittanir og öll skjöl á borðinu, að Juan væri í raun að fara með okkur í Amasónskóginn en ekki að fara að ræna okkur.  Sökum þessara seinkunar vorum við og níu förunautar okkar komnir til Puerto Rio Marono klukkan 4:30 næsta morgun sem gaf okkur um níutíu mínútna svefn í hengirúmi í einhverskonar kofa við ánna áður en sólin vakti okkur og við sigldum af stað.


Þá var það byrjað.  Umkringdir af sjálfum Amasónskóginum, einnig þekktur sem „Græna vítið“, þar sem dýralífið er eitt af því fjölbreyttasta í heiminum.  Við vorum mjög spenntir að leggja af stað, ef við yrðum einhversstaðar drepnir í ferðinni þá væri það í þessum skógi þar sem minnstu dýr, plöntur, sveppir, bakteríur eða sýklar hafa það að markmiði sínu að verða tveim saklausum gringóum að bana.  Landamærin milli Ekvador og Perú innihélt 4 eftirlitsstöðvar og svalasta alþjóðafótboltavöll í heimi þar sem miðlínan var á landamærunum (spurning hvernig menn taka í það þegar skipt er um vallarhelming í hálfleik), enginn á þessum landamærastöðvum var reiðubúinn að gefa okkur stimpil úr Ekvador, hvað þá inn í Perú.  Þess í stað var okkur bent á að fá hann við komuna í Iquitos.


Við tókum hádegismatarhlé í litlu þorpi við ánna þar sem maturinn var veiddur, týndur, eldaður og étinn, allt frá grunni, meðal annars píranafiskurinn frægi.  Gómsætt það og svo var haldið förinni áfram.  Upp úr eftirmiðdeginu fór svo að síga á ógæfuhliðina.  Mótorinn var okkur ekki alveg hliðhollur og átti það til að slökkva á sér endrum og sinnum sem gerði það að verkum að okkur rak stjórnlaust niður eftir villtu fljóti í miðjum frumskóginum.  Það leit ekki út fyrir að við kæmust að áfangastað í San Lorenzo þann daginn svo við höfðum næturstöðvar í öðru litlu þorpi sem varð á vegi okkar.  Þar var hengirúmum skellt upp í einhverskonar skýli (Guði sé lof fyrir hengirúmið sem ég, Rúnar Berg, keypti í Níkaragva) og sofið þar til sólin vakti okkur næsta morgun.


Mótorinn var ekkert skárri næsta dag en við náðum að reka að bensínstöð (sem, ótrúlegt en satt, er hægt að finna í Amasónskóginum) til að gera við mótorinn.  Frá þessari bensínstöð átti að vera þriggja tíma sigling að San Lorenzo.  Viðgerðin tók þrjá tíma og mótorinn virkaði ágætlega þá þrjá tíma sem það átti að taka að komast til San Lorenzo.  Eitthvað höfðu förunautar okkar logið að okkur því 6 klukkustundum eftir að við lögðum af stað frá bensínstöðinni sögðu förunautar okkur blákalt að nú væru 6 klukkustundir í viðbót.  Svo tók að rökkva og loks skall á svartamyrkur.  Og eftir nokkurn tíma í myrkrinu gaf mótorinn frá sér kæfingarhljóð.  Bensínlaus! Á villtu fljóti í miðjum Amasónskóginum um miðja nótt! Frábært! Þó kyrrðin, sofandi frumskógurinn og stjörnubjartur himininn spegluðu fegurð sinni í ánni var erfitt að vera ekki áhyggjufullir um framhaldið.  Við frændurnir spurðum okkur hvort við kæmumst nokkurn tímann til San Lorenzo, hvað þá Iquitos.


Eftir að hafa rekið fleiri tíma niður ánna enduðum við í enn einu þorpinu sem nefnist Puerto Americo.  Þar var mögulegt að gista á hóteli og taka bensín.  Eftir þriggja tíma siglingu næsta dag vorum við loksins komnir til San Lorenzo.  Bærinn er ekki svona eins og maður hefði ímyndað sér að þrifist í miðjum Amasónskóginum.  Hann er stór og með fáránlega lifandi markað.  Sennilega 4000 mans sem búa þar en ekki náðum við að finna út hvað hélt markaðnum gangandi.  Ekki þreifst hann á túristum,  því þeir eru sjaldséðir um þessar slóðir.  Það getur maður séð á því hvernig fólk starir eins og það hafi aldrei séð hvítan mann áður og það að eini gringóinn sem við sáum allan tíman í Amasónskóginum var sænskur trúboði sem var að fara daginn sem við komum til San Lorenzo.  Sá trúboði, fyrst á hann er minnst, varaði okkur við ættbálkum í grenndinni.  „They don’t think like we do,“ sagði hann eftir að hafa lýst hvernig 2 Ítalir höfðu verið myrtir af einum slíkum ættbálki fyrir nokkrum árum síðan.  Af einhverjum ástæðum hata þeir hvíta menn meira en aðra.


Af lífshættulegum atburðum sem við ástunduðum í frumskóginum þá sökktum við Skúli kanóa í nærliggjandi stöðuvatni sem er að finna hvað mest úrval mannætufiska, krókódíla, snáka, sníkla o.s.frv.  í heiminum.  Auðvitað smitaðist allt sem snerti vatnið af bleytu, þar sem vatn hefur þann eiginleika að bleyta hluti sem það snertir.  Veski, sem Rúnar hafði ekki bara heimskast til að gleyma í vasanum áður en hann lagði af stað heldur líka leyst af beltinu, tekið úr vasanum fyrir sundsprett sem var tekinn áður og skilið eftir ofan á hinum fötunum eins og hann hefði viljað að það myndi tínast, fór útbyrðis.  Það veski hafði þann eiginleika að sökkva þegar það blotnar og svo fór sem fór að um það bil 900 krónur, öll kort, öku- og köfunarskilríki, auðkennislykill og miði sem innihélt öll nöfn og netföng sem safnast hafði upp í ferðinni sukku með því og er nú glatað.  Af þessu mátti læra að maður verður að búa sig eftir Murphy-lögmálinu í svona ferð, „ef eitthvað getur farið úrskeiðis, þá FER það úrskeiðis.“ Svekkjandi það allt saman.


Normið í Amasón er að gera ekki neitt.  Fólk hangir einhversstaðar, í hengirúmum eða hvaðeina.  Enda þarf ekki mikla vinnu til að lifa.  Skógurinn er frjór og tveggja tíma vinna við að safna og elda mat er nóg fyrir sæmilega fjölskyldumáltíð.  Þegar túristi kemur svo í þetta umhverfi er ekki venjan að breyta um lifnaðarhátt.  Ofan á þetta höfðum við frændur asnast til að borga fullt gjald fyrir ferðina fyrirfram sem hvatti leiðsögumenn okkar til ekki neins.  Við, til dæmis, áttum erfitt með að fá þessa leiðsögumenn okkar til að mæta í fyrirframákveðnar ferðir á fyrirframákveðnum stað og á fyrirframákveðnum tíma.  Oft þurftum við að keyra um bæinn og sækja leiðsögumennina svo við myndum fá að skoða eitthvað án þess að eiga í hættu á að rekast á óvinveittan ættbálk.  En eftir að hafa átt orð um þennan hegðunarhátt við konuna sem sá um matinn fyrir okkur skammaði hún leiðsögumennina rækilega og leiðsögumennirnir mættu í allar fyrirframákveðnar ferðir tíu mínútum fyrir fyrirframákveðinn tíma eftir það.  Við reyndum að fara inn í Amasónskóginn að degi til, en komumst ekki langt því við vorum reknir út af óvinveittum moskítóflugum í vígahug eftir einn tíma eða svo.  Við gerðum aðra tilraun að næturlagi vel búnir skordýrafælum og skotvopnuðum fylgdarmanni (ekki vitum við hvers vegna en fannst okkur nokkuð öruggir frá Rússunum).  Þannig tókst okkur að sjá þetta magnaða lífríki með allskyns næturrotum og tarantúlum svo og að sjá hvernig fólkið lifir í þessum lungum heimsins.  Og já fólk brennir skóga hérna, eins og annarsstaðar, til að rækta, búa til kol og annað.


Loks vöknuðum við frændur upp við þann vonda draum að þurfa að fara um morguninn.  Reyndar, eins og svo oft kemur fyrir í tímaleysi bakpokalingsins, misreiknuðum við tímann sem við höfðum og héldum að við ættum einn dag enn í San Lorenzo.  Við pökkuðum og héldum í „La ultima lancha a Iquitos“ síðasta bátinn til Iquitos.  Held maður verður að nota orðið prammi frekar en farþegaskip yfir þetta ferlíki.  Dekkið er 2/3 af lengd skipsins, það er ýmist fyllt með bönunum, nautgripum og/eða þríhjólum.  Undir brúnni er svo millidekkið fyllt með svipuðum varningi og í okkar tilfelli einni geit og hjörð af svínum.  „Accepte pasajeros y carga“ segir skiltið svo fólk má taka hvaða varning sem það vill með sér til Iquitos svo lengi sem það er ekki eldfimt.  Káetan (ef káetu má kalla) er fyrir ofan brúnna.  Hún er meira svona risastórt rými, þó ekki upp á hæð, útfyllt af hengirúmum, farþegum, galandi hænsnum sem við frændur höfum sumum hverjum gefið nafnið Los gallos del diablo (andsetnu hanarnir) þar sem þeir byrja að gala um þrjúleitið með skerandi hávaða og halda vöku fyrir manni þar til um hádegi þegar þeir loksins lækka lítillega í sér.  Já þetta er vægast sagt áhugaverðasta farþegaskip sem við höfum rekist á á ævinni.  Og á þessu sigldum við með Skúla fárveikan í 3 daga og tvær nætur til borgar að nafni Yurimaguas.  Ekki sveik latnesk-ameríska tímaskynið okkur heldur á þessum bát.  Í höfn í Yurimaguas sagði skiltið framan á bátnum „Iquitos hoy, hora: 14:00, accepte pasajeros y carga (Iquitos í dag, klukkan 14:00, tek við farþegum og varningi)“ og þegar myrkrið var að skella á klukka 18:00 förum við að spyrja hvað væri um að vera og viti menn, klukkan 2 í dag þýddi 12 á morgun og 12 tímar til Iquitos, eins og okkur var talin trú um áður þýddi 48 tímar.  Það myndi þýða að við kæmum ekki til Iquitos fyrr en á þriðjudegi, þrem dögum eftir áætlun og Inka-treilið væri þar með í verulegri hættu.
Einhvern veginn var við að búast að stærsta borg heims sem hefur ekki aðgang að vegi væri erfið viðureignar og eins erfitt og það var að komast til San Lorenzo var alltaf vafi á því hvort við kæmumst til Iquitos.  Eftir að hafa fengið upplýsingar um breytta tímasetningu bátsins lögðum við frændur árar í bát, röltum að næstu ferðaskrifsstofu og keyptum flug til Lima.  Skúli, fárveikur, nýtti sér tækifærið og flúði með allt sitt á fimm stjörnu hótel í miðbæ Yurimaguas á meðan Rúnar Berg, nískur með peningana sína, nýtti sér fría gistingu í hengirúminu sínu í prammanum góða.  Svo síðustu nóttina í Amasón eyddi Skúli í loftkældu hótelherbergi með sjónvarpi og einkabaðherbergi á meðan Rúnar varð nær brjálaður í hengirúmi, þurfandi að skríða leiðar sinnar undir milljón önnur hengirúm til að komast í vélarrýmið þar sem hægt væri að baða sig með bala.  Svo ekki sé minnst á öll starandi börnin og los gallos del diablos sem er nóg til að láta hinn almenna meðaljón verða vitlausan.


Þannig endar pistillinn að þessu sinni.  Og líka Amasónferðin.  Með aumingja- og væskilslegri bílferð frá Amasónborginni Yurimaguas út úr skóginum, upp fjöll og firnindi niður til flugvallabæjarins Tarapoto og með flugvél til höfuðborgarinnar Lima.

 

Heimasíða Skúla og Rúnars

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024