ES Sextett & Marína Ósk leika þekktar söngperlur í Bergi
ES Sextett & Marína Ósk hleypa af stokkunum nýju tónleikaári í Tónleikaröð Ellýjar í kvöld, miðvikudagskvöldið 21. ágúst, og hefjast tónleikarnir klukkan 20 í Bergi, Hljómahöll.
Leiknar verða þekktar söngperlur sveifluáranna en einnig áratuganna sem á eftir fylgdu ásamt frumsömdu efni eftir Marínu og aðra hljómsveitarmeðlimi, í nýjum útsetningum eftir meðlimi hljómsveitarinnar.
Enginn aðgangseyrir og öll velkomin á viðburðinn – gengið inn um dyr Tónlistarskólans.
Tónleikaröð Ellýjar hóf göngu sína fyrr á þessu ári og er verkefni sem Tónlistarfélagið Ellý stendur fyrir en það er félagsskapur áhugafólks með það markmið að standa fyrir reglulegum tónlistaruppákomum í Reykjanesbæ með aðaláherslu á innlenda djasstónlist.
Enginn aðgangseyrir er á Tónleikaröð Ellýjar sem er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Menningarsjóði Reykjanesbæjar, Reykjanesapóteki og HS Orku í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Bókasafn Reykjanesbæjar.
Nánari upplýsingar er að finna á jazz.is