Erum tilbúin í gos
Mikið mæðir á Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík
Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast síðustu mánuði. Tíminn frá því um miðjan desember á síðasta ári og til dagsins í dag hefur verið fordæmalaus hjá viðbragðs-aðilum um allt land. Hér á Suðurnesjum hafa menn ekki farið varhluta af ástandinu. Hér hafa óveðurslægðir valdið talsverðum vanda, ófærð hefur sett samgöngur úr skorðum og áfram má telja.
Stórt verkefni sem Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur verið að takast á við síðustu vikur er óvissustig Almannavarna sem lýst var yfir vegna landriss við fjallið Þorbjörn í janúar. Óvissustigið er ennþá í gildi þó svo dregið hafi úr landrisi og skjálftavirkni.
Stórt bakland
„Það eru búnir að fara nokkrir klukkutímar í þetta. Við höfum tekið þátt í þessu verkefni frá fyrsta degi og eigum stóran þátt í þeirri vinnu sem unnin hefur verið í rýmingaráætlun fyrir Grindavík ásamt öðrum viðbragðsaðilum,“ segir Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, í samtali við Víkurfréttir.
Bogi segir að það bakland sem björgunarsveitin hafi sé stórt. „Við erum mjög góðir í að vinna svona mál, skipulag og annað. Við erum að stýra stórum leitaraðgerðum og öðru með okkar fólki. Við erum með verkfærin til að bóka, skrá og setja upp verkefni.“
Otti Rafn Sigmarsson er félagi í Björgunarsveitinni Þorbirni og jafnframt varaformaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hann segir björgunarsveitarfólk í Grindavík hafa tekið ástandinu með ró en á sama tíma setið fjölmarga fundi og átt þátt í skipulagningu, rýmingaráætlunum og alls konar viðbragðáætlunum.
„Við höfum verið að aðstoða sveitarfélagið, mætt á æfingar hjá stofnunum bæjarins og verið innvinklaðir frá fyrsta degi. Það hefur gengið nokkuð vel. Þetta hefur lítið bitnað á hinum almenna björgunarsveitarmanni en mun meira á stjórnendum. Við höfum hins vegar miðlað upplýsingum til okkar fólks. Eins og staðan er í dag fer verkefnum í kringum þetta fækkandi og við virðumst komin fyrir vind í áætlanagerð. Svo er bara vonandi að ekkert fari að gerast,“ segir Otti Rafn í samtali við blaðamann.
Einn hrærigrautur af verkefnum
- Hvernig er þetta ástand sem verið hefur síðustu tvo mánuði að leggjast í mannskapinn? Fjöldi verkefna hjá björgunarsveitum er eiginlega fordæmalaus.
Bogi: „Við höfum verið með jarðskjálfta og ýmiskonar útköll. Við höfum farið í verkefni tengd óveðri og snjó. Þá höfum við tekið að okkur lokanir og það má segja að þetta hafi verið einn hrærigrautur af verkefnum síðustu vikur. Þetta er orðið nokkuð samfleytt frá því um miðjan desember þegar við fórum norður í land að aðstoða eftir illviðrið þar.“
- Hvernig er að fá fólk til að starfa undir þessum kringumstæðum? Er það ekki orðinn þreytt eftir langvarandi verkefni?
Bogi: „Jú, mannskapurinn verður þreyttur en hann lítur líka á þetta sem ákveðna áskorun. Fólk sem tekur þátt í starfi björgunarsveitarinnar vill hjálpa fólki og það er alveg óháð staðsetningu. Ef menn geta þá fara þeir í þessi verkefni með stuðningi vinnuveitanda sem leyfir þeim að fara. Fólkið í sveitinni og atvinnurekendur vinna saman að því að við fáum að fara þegar við þurfum. Þetta ástand síðustu vikna reynir á en við erum í þessu sem okkar áhugamáli og horfum á verkefnin sem áskorun. Við fáum út úr þessu mjög vant og reynslumikið fólk sem hefur verið að vinna í fjölbreyttum aðstæðum.“
Fólk upplifir að þetta sé að fara að gerast
- Hvernig er óvissuástandið í Grindavík að leggjast í mannskapinn ykkar? Eru þið farin að hugsa það að eitthvað alvarlegra geti gerst?
Otti: „Já, það er bara þannig. Þegar þetta kemur upp, að tilkynnt er um óvissuástand vegna landriss og það koma jarðskjálftar í kjölfarið, þá upplifir fólk það þannig að þetta sé að fara að gerast á næstu dögum. Þetta stuðaði marga en við höfum verið dugleg að deila upplýsingum á milli okkar. Við erum búin að taka fund um málið, hvernig fólk ætlar fyrst að sækja börnin sín og koma fjölskyldu sinni í burtu áður en þeir koma og vinna fyrir björgunarsveitina, eða hvort menn telji sig ekki geta starfað með björgunarsveitinni ef upp kæmi eldgos. Við erum búin að gera könnun á því hvaða mannskap við höfum ef til þess kemur. Við erum búin að hugsa þetta bæði djúpt og langt. Vinnan heldur áfram og auðvitað breytast hagir hjá fólki. Við erum tilbúin í verkefnið er til þess kemur en það er langur vegur í að við séum fullkomlega undirbúin að takast á við verkefni eins og eldgos.“
- Síðustu dagar hafa verið sérstaklega annasamir. Við fengum rauða óveðurslægð og þegar hún var nýafstaðin þá voru allar björgunarsveitir á Suðurnesjum kallaðar út vegna sjómanns í vanda á Faxaflóa.
Otti: „Við vorum af einhverju leiti undirbúnir fyrir þessa óveðurslægð en áttum þó ekki von á því að hvellurinn væri svona svakalega mikill á stuttum tíma. Auðvitað hafði þessu verið spáð en maður er ekki alltaf viðbúinn svona veðurham, þó svo maður sé kominn í hús í gallanum. Hér voru þök að fjúka, rúður að brotna og alls konar aðstæður. Við lentum í því í fyrsta skipti núna í veðurhamnum að athafna okkur ekki á ákveðnum stöðum, við treystum okkur ekki til þess og okkur fannst öryggi okkar ógnað. Það var betra að vara fólk í nágrenninu við að það gæti verið eitthvað að fjúka og halda sig frá gluggum og bara að leyfa veðrinu að ganga niður, slíkt var brjálæðið. Ofan á allt þetta bættust svo sjávarflóð og ýmis önnur verkefni.
Við vorum svo rétt búinað ná andanum og ganga frá eftir óveðurslægðina þegar það kom útkall á Faxaflóa þar sem sjómaður var í vanda á bát sínum utan við Voga. Sem betur fer fór það allt saman vel. Okkar menn töldu sig aldrei vera í hættu en voru að bjarga manni í stórhættu.“
Margir vilja starfa með björgunarsveitunum
- Hvernig er með nýliðun í björgunarveitunum við þessar aðstæður? Er aukin ásókn í björgunarsveitarstarfið?
Bogi: „Já, fólk hefur verið að spyrjast fyrir um þetta og koma og skoða, fá að þreyfa á þessu. Þetta er ekki fyrir alla að standa í fremstu víglínu en ég hef alltaf sagt að í björgunarsveitinni eru verkefni fyrir alla. Það eru fjölbreytt verkefni, mikil tölvuvinna. Þá eru margvísleg verkefni við bæði undirbúning og frágang. Stuðningur fyrir félagsmenn þegar þeir koma úr útköllum, að það sé klárt kaffi skiptir ekki minna máli. Það er gríðarlega mikilvægt þegar maður kemur til baka úr útkalli í björgunarsveitarhúsið og það er búið að hugsa aðeins fyrir mann.“
Björgunarveitin Þorbjörn í Grindavík verður 90 ára í nóvember á þessu ári. Tímamótanna verður fagnað allt árið en viðburðir eiga að vera hjá sveitinni allt þetta ár. Það hefur hins vegar farið minna fyrir afmælisviðburðum tvo fyrstu mánuði ársins vegna anna við útköll og önnur verkefni. Þeir Bogi og Otti vonast hins vegar til að það taki að rofa til, enda síðustu mánuðir fordæmalausir.
Verkefnin eru mörg og margvísleg hjá björgunarsveitarfólki.