Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Erum alltaf að æfa fyrir stóra leikinn
    Guðmundur með fjölskyldunni, Kristjönu konu sinni og börnunum Magnúsi Mána, Kötlu Dröfn og Elvar Dreka.
  • Erum alltaf að æfa fyrir stóra leikinn
Mánudagur 28. janúar 2019 kl. 08:39

Erum alltaf að æfa fyrir stóra leikinn

segir Guðmundur Ragnar Magnússon, Maður ársins á Suðurnesjum 2018

Guðmundur er fæddur og uppalinn í Garði en býr nú í Keflavík með fjölskyldu sinni. Hann tók þátt í björgunaraðgerðum við erfiðar aðstæður í Helguvík um nótt í nóvember 2018 þegar sementsflutningaskipið Fjordvik strandaði á leið til hafnar. Um borð voru fjórtán manna áhöfn og hafnsögumaður frá Reykjaneshöfn. Það var hlutverk Guðmundar að síga niður í skipið, stjórna aðgerðum þar og koma öllum fimmtán skipbrotsmönnunum heilum upp í þyrluna. Guðmundur Ragnar slasaðist við björgunaraðgerðina en lét það ekki stoppa sig og lauk krefjandi verkefni í samstarfi við félaga sína í áhöfn björgunarþyrlunnar.

 
Guðmundur var frá vinnu í nokkra daga eftir að hann rifbeinsbrotnaði við björgunarstarfið en var fljótt kominn í dagvinnu hjá Landhelgisgæslunni. Hann var við þau störf fram undir miðjan desember en þá átti hann inni frí sem hann notaði vel með fjölskyldunni og skellti sér m.a. í sólina á Tenerife. Eiginkona Guðmundar er Kristjana Björg Vilhjálmsdóttir og þau eiga börnin Magnús Mána, Kötlu Dröfn og Elvar Dreka.
 
Guðmundur er nýkominn aftur til starfa eftir gott frí. Æfingaflug sem farið var sl. laugardagskvöld var fyrsta flugið eftir björgunarleiðangurinn frækna í Helguvík í byrjun nóvember.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mætti grunlaus til vinnu

 
Guðmundur var grunlaus að mestu þegar hann mætti til vinnu síðdegis síðasta laugardag í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Framundan var þyrluæfing þar sem æfa átti hífingar úr varðskipinu Tý og úr sjó. Varðskipið var statt á Stakksfirði, skammt frá höfninni í Keflavík. Samstarfsfélagar Guðmundar vissu hins vegar hvað var í vændum og tóku á móti fréttamönnum Víkurfrétta sem höfðu meðferðis viðurkenningarskjal og blómvönd. Gengið var beint til verks og Guðmundi komið á óvart með tilkynningu um útnefningu valnefndar Víkurfrétta sem byggði m.a. á fjölmörgum ábendingum lesenda. Guðmundur sagði að þetta kæmi honum á óvart en þó hafi læðst að honum grunur eftir að upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar hafði samband við hann til Tenerife til að komast að því hvenær hann væri væntanlegur aftur til starfa.
 

„Það var ekkert lífshættulegt að mér“

 
Í viðtali við Víkurfréttir í nóvember lýsti Guðmundur verkefninu sem hann og félagar hans á björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar leystu í Helguvík þegar fimmtán mönnum var bjargað úr strönduðu skipi. Núna, þegar aðeins er um liðið, báðum við Guðmund um að horfa aftur yfir verkefnið.
 
„Það voru hnökrar á þessu verkefni en það gekk vel heilt yfir og við björguðum öllum. Ég veit ekki hvort það hefði verið hægt að gera þetta eitthvað öðruvísi, þetta bara gerðist.“
 
- Datt þér í hug í eina sekúndu að bakka út úr verkefninu af því að þú meiddist?
„Alls ekki, aldrei. Við leggjum upp með það að ljúka verkefninu þegar við erum að standa í þessu og ég vissi að það var ekkert lífshættulegt að mér, þannig að það yrði bara að klára þetta.“
 
- Og þetta gekk ótrúlega vel?
„Já, miðað við allt saman og ef við horfum á aðrar bjarganir sem við höfum farið í þá var þetta alveg á pari við þær.“
 
- Og þetta eruð þið að æfa alla daga eins og í dag á þessari æfingu sem við hjá Víkurfréttum fengum að fylgjast með hjá ykkur.
„Algjörlega. Við erum alltaf að æfa fyrir stóra leikinn. Skipahífingar eru hættulegar, sérstaklega ef skip hreyfist mikið og það er vont veður. Við æfum sömu hlutina aftur og aftur. Þetta er allt fast í verkferlum hjá okkur.“

 
- Hefur þú lent í erfiðari aðstæðum en við björgunina í Helguvík?
„Já, já. Meiri veltingur og verra skyggni fyrir flugmennina. Ég hef þurft að hanga í vírnum í fimm mínútur við hliðina á skipi til að sæta færis að komast um borð og það gekk áfallalaust.“
 
- Verður þú einhvern tímann hræddur?
„Aldrei. Aldrei kalt, aldrei hræddur, það er bara mottóið.“
 
- Er það ekki kostur og styrkur?
„Jú, örugglega. Kannski verður maður hræddur einhvers staðar í undirmeðvitundinni en maður lætur það ekki ná tökum á sér, aldrei.“
Þetta var vel gerlegt
 
- Sástu það strax að verkefnið í Helguvík myndi ganga vel?
„Já, já. Þegar við vorum að koma að þessu og horfðum niður á vettvanginn þá leist okkar þannig á þetta að þetta væri vel gerlegt og þess vegna héldum við áfram með þetta. Ef við hefðum talið verkefnið tvísýnt þá hefðu verið skoðaðar aðrar leiðir. Við gerðum þetta hins vegar eins og við æfum þetta og það virkaði.“
 
- Þið lendið í margvíslegum verkefnum og björgunum. Eru einhver verkefni erfiðari en önnur?
„Já, við þurfum að aðstoða við sjúkraflutninga á landi og förum mikið í útköll þar sem hafa orðið slys. Ef börn eiga hlut að máli, þá tekur það meira á. Við fáum góða aðstoð til að takast á við það og þá andlega þáttinn.“

 

Allir þurfa að vita sitt hlutverk

 
- Samvinna er gríðarlega stórt atriði hjá ykkur.
„Við æfum sérstaklega áhafnasamstarf og allt sem því tengist. Við erum fimm í áhöfn í venjulegu útkalli og það þurfa allir að vita sitt hlutverk og inn á hlutverk hinna. Svoleiðis gengur þetta upp.“
 
- Hvernig gerðist það að þú sóttist eftir þessu starfi, sem sigmaður hjá Landhelgisgæslunni? Hvaða menntun þarf í starfið?
„Sú menntun sem þarf í starfið er skipstjórnarmenntun og ég fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík og lærði til skipstjórnar. Þegar ég lauk námi fór ég að sigla hjá Landhelgisgæslunni til að ná mér í siglingatíma til að verða stýrimaður. Síðan varð ég stýrimaður en það er grunnur okkar sigmanna á þyrlunum að vera skipstjórnarmenn á varðskipum. Ég var í sex ár stýrimaður á varðskipi áður en ég kom hingað en nú er ég búinn að vera hérna í sex eða sjö ár.“

Guðmundur með félögum sínum eftir fyrsta flug ársins 2019.

Mikill áhugi á björgunarmálum

 
- Stefndi hugurinn í þetta?
„Já, allan tímann. Ég hef mikinn áhuga á björgunarmálum og öllu sem því tengist. Ég hef sagt frá því áður að ég er kominn af sjómönnum og þau mál standa mér nærri. Ég vil vera til staðar fyrir þá eins og reyndar alla aðra.“
 
- Þú mælir með þessu starfi fyrir aðra?
„Algjörlega. Þetta er skemmtilegt, fjölbreytt og mjög gefandi starf. Það er enginn dagur eins og það er ekkert útkall eins. Svo eru fjölmörg verkefni sem tengjast ekki björgunarstörfum þannig að við förum út um allt land og sjáum landið frá mörgum sjónarhornum. Það er aldrei dauð stund, aldrei nokkurn tímann.“
 
- Er þetta fjölskylduvænt starf?
„Já, eða alla vega finnst fjölskyldunni minni það. Konan mín veit hvað ég geri í vinnunni og um hvað þetta snýst. Hún veit það líka að ég færi mér ekki að voða í þessu starfi. Hún væri sjálfsagt ekki ánægð með þetta ef það væru meiri líkur á því að ég kæmi ekki heim. Ég veit að mamma og pabbi eru ánægð með þetta hlutskipti mitt og hafa gaman að segja frá því hvað strákurinn gerir.“
 

Maður ársins á Suðurnesjum frá 1990 til 2018

 
1990 - Dagbjartur Einarsson
1991 - Hjörtur Magni Jóhannsson
1992 - Guðmundur Rúnar Hallgrímsson
1993 - Guðjón Stefánsson
1994 - Júlíus Jónsson
1995 - Þorsteinn Erlingsson
1996 - Logi Þormóðsson
1997 - Steinþór Jónsson
1998 - Aðalheiður Héðinsdóttir
1999 - Sigfús Ingvason
2000 - Bláa lónið / Rúnar Júlíusson / Íþróttafélagið Nes
2001 - Freyja Sigurðardóttir / Norðuróp / Fræðasetrið í Sandgerði
2002 - Guðmundur Jens Knútsson
2003 - Áhöfnin á Happasæl KE fyrir björgunarafrek
2004 - Tómas J. Knútsson
2005 - Guðmundur Kristinn Jónsson / Kristín Kristjánsdóttir
2006 - Hjörleifur Már Jóhannsson / Bergþóra Ólöf Björnsdóttir
2007 - Erlingur Jónsson
2008 - Sigurður Wíum Árnason
2009 - Jóhann Rúnar Kristjánsson
2010 - Axel Jónsson
2011 - Guðmundur Stefán Gunnarsson
2012 - Nanna Bryndís Hilmarsdóttir / Brynjar Leifsson
2013 - Klemenz Sæmundsson
2014 - Fida Abu Libdeh
2015 - Sigvaldi Lárusson
2016 - Stopp hópurinn - hingað og ekki lengra
2017 - Elenora Rós Georgesdóttir
2018 - Guðmundur Ragnar Magnússon