Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eru frekar ófeimin við að opna sig
Steinunn Snorradóttir.
Laugardagur 25. janúar 2014 kl. 09:00

Eru frekar ófeimin við að opna sig

Nemendur bera mikið traust til Steinunnar í Heiðarskóla.

Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta og tekin verður fyrir næstu vikur.

Námsráðgjöf í Heiðarskóla

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Steinunn Snorradóttir er menntuð náms- og starfsráðgjafi og hefur starfað sem slíkur í Heiðarskóla síðan 2007. Hún segir starfið mjög fjölbreytt og skemmtilegt að fá að kynnast nemendum á öllum aldri, allt frá 6 ára börnum sem eru að hefja sína skólagöngu og upp í unglingana sem eru að velja sér það nám sem hentar framtíðaráformum þeirra best.

Í alls kyns erindagjörðum
Starfið felst í náms- og starfsfræðslu, sjálfsstyrkingarnámskeiðum, aðstoð við markmiðsetningu, námstækni og persónulegum viðtölum. Nemendum er frjálst að nálgast hana og geti t.d. bara bankað upp á. Hún er með dyrnar opnar þegar hún er laus. „Þau koma í alls kyns erindagjörðum. Unglingarnir eru að spá í hvað þeir vilji gera eftir grunnskóla. Aðrir koma til að spjalla. Þau fara oft léttari í anda út ef þeim hefur liðið illa. Þau opna sig stundum mjög mikið og það hefur komið mér á óvart hversu mikið þau treysta mér. Þau vita að það sem þau ræða við mig fer ekki lengra,“ segir Steinunn.

„Hún þarf aðeins að tala við þig“
Steinunn segir brosandi að oft komi félagar með vini sína með sér og segi: „Hún þarf aðeins að tala við þig“ og krakkarnir styðji oft hvert annað. Hún sé í vinnunni til klukkan fjögur síðdegis og nemendur hafi því tækifæri til að lauma sér til hennar eftir skólatíma ef þau vilji ekki að aðrir taki eftir því. „Annars eru þau frekar ófeimin við þetta. Kynjahlutföll eru ekki áberandi og bæði strákar og stelpur mjög dugleg að kíkja við.“

Tekin í einkaviðtöl í 10. bekk
Steinunn fer inn í bekkina með fræðslu um nám sem eru í boði eftir grunnskóla, talar við nemendur um hvað hentar þeim best miðað við hvað þau langar að vinna við að námi loknu. Hún hjálpar þeim við að finna út hvað skiptir þau mestu máli þegar velja á starf og nám við hæfi. Nemendur í 10. bekk eru teknir í einkaviðtöl þar sem hugleiðingar þeirra eru ræddar og þeir aðstoðaðir við að velja það sem hentar hverjum og einum.

Meiri kvíði og andleg vanlíðan
Hún segist hafa fundið mun á líðan barna undanfarin ár. „Meiri kvíði og andleg vanlíðan. Ég hef spurt sjálfa mig hvort um væri að ræða tilviljun því svona komi stundum í bylgjum eða hvort ástandið í þjóðfélaginu hafi sitt að segja. Erfitt sé að greina orsakavaldinn. Slík tilfelli eru unnin í samvinnu við aðra fagaðila eða vísað til skólasálfræðingsins,“ segir Steinunn.

Sigrarnir mest gefandi
Ef nýr nemandi byrjar í skólanum kynnir Steinunn sig fyrir honum svo að hann viti hver hún er. Svo spyr hún hann hvernig gengur, hvort hann sé búinn að eignast vini og hvernig námið leggist í hann. „Það sem er mest gefandi við starfið eru mannlegu samskiptin og sjá sigrana sem krakkarnir ná. Að sjá þau blómstra,“ segir Steinunn að lokum.

VF/Olga Björt