Ertu forsetinn?
Nemendur í Frístundaskóla Reykjanesbæjar tóku vel á móti bæjarstjóranum sínum sem var í skoðunarferð um alla skólana í dag. Þar kynnti hann sér aðstöðu Frístundaskólans í hverjum grunnskóla og það starf sem þar fer fram en alls eru nú um 180 nemendur í skólanum.
Starfsmönnum var nýverið fjölgað um þrjá og starfa því þrír leiðbeinendur í hverjum skóla í 50% starfshlutfalli eða 12 alls auk tveggja umsjónarmanna.
"Ertu forsetinn" spurði einn áhugasamur nemandi bæjarstjórann sem spjallaði við nemendur og skoðaði það sem þau voru að fást við.
Nemendur í Frístundaskólanum eru á aldrinum 6 - 9 ára og taka þau þátt í vísindum og listum sem og öðrum þroskandi verkefnum en á starfstíma skólans sækja þau jafnframt sínar íþróttaæfingar og tómstundir utan skóla.