Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

ERRÓ vígður í flugstöðinni á 30 ára afmælinu
Laugardagur 13. maí 2017 kl. 06:00

ERRÓ vígður í flugstöðinni á 30 ára afmælinu

Þrjátíu ára afmæli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var fagnað nýlega en stöðin var opnuð formlega 14. apríl 1987 að viðstöddum um þrjú þúsund gestum. Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á þessum árum en nú er flugstöðin oft nefnt stóriðja Suðurnesjamanna enda lang stærsti vinnustaður svæðisins og einn sá stærsti á landinu.PDF

Í tilefni tímamótanna var vígt nýtt listaverk eftir hinn heimskunna Erró. Margrét Guðmundsdóttir, varaformaður stjórnar Isavia, afhjúpaði listaverkið og sagði meðal annars við það tækifæri: „Þegar flugstöðin var opnuð fyrir 30 árum síðan voru keypt stór listaverk sem hafa verið hluti af séreinkennum stöðvarinnar. Þar er um að ræða glerverkin „Flugþrá“ og „Íkarus“ eftir Leif Breiðfjörð sem hanga í brottfararsalnum og hafa verið einkennandi fyrir hana alla tíð. Um leið eignaðist flugstöðin bronsafsteypuna „Ég bið að heilsa“ eftir Sigurjón Ólafsson og lágmynd af Leifi Eiríkssyni sem stendur á Skólavörðuholtinu.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tvö verk hlutu fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar stuttu eftir að hún var vígð. Annað verkið var útilistaverkið „Þotuhreiður“ eftir Magnús Tómasson, sem sett var upp árið 1990. Verkið er stórt egg úr stáli sem trjóna þotu er að brjótast

út úr eins og ungi sem er að brjótast úr eggi. Verkið stendur á steinhrúgu úr íslensku grjóti sem rís upp úr tjörn á lóð flugstöðvarinnar, en hún er hluti af verkinu.

Hitt verkið var „Regnboginn“ eftir Rúrí, sem er gert úr ryðfríu stáli og steindu gleri reist árið 1991, en það tók eitt og hálft ár að setja verkið saman. Verkið var á þeim tíma hæsta listaverk á Íslandi, alls 24 metra hátt. Þegar farið var í suðurstækkun flugstöðvarinnar árið 2000 var aftur efnt til listaverkasamkeppni þá voru verkin „Flekaskil“ og „Tilvísunarpunktur“ eftir Kristján Guðmundsson keypt. Um er að ræða gólfverk úr ryðfríu stáli sem eru eitt á hvorri hæð byggingarinnar. Á 20 ára afmæli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var keypt verkið „Áttir“ eftir Steinunni Þórarinsdóttur en það hefur verið í geymslu vegna þrengsla en verður sett upp fyrir utan flugstöðina komumegin í sumar.

Nú hefur verk Errós bæst í hópinn í tilefni 30 ára vígsluafmælis Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Það er mjög ánægjulegt að fá verk eftir þennan ástsæla listamann í stöðina.    

Við afhjúpum á þessum tímamótum veggmyndina Silver Sabler eftir Erró. Verkið, sem var valið af listamanninum og fulltrúum Isavia í sameiningu, er úr handmáluðum keramikflísum.  Það var framleitt af Aleluia cerâmicas í Portúgal undir eftirliti listamannsins, en þetta sama fyrirtæki hefur framleitt aðrar keramíkmyndir listamannsins sem eru á almannafæri í Reykjavík. Verkið er eftirmynd málverks frá árinu 1999 með sama nafni, en hefur hér verið stækkað upp í keramikmynd sem er 4,5m há og 11m breið.

Verkið „Fjallar öðrum þræði um goðsagnir háloftanna, rótleysi nútímamannsins og flugstöðina sem vettvang ævintýranna.“ Það er mjög við hæfi að verk eftir Erró skuli nú prýða flugstöðvarbygginguna, þar sem enginn listamaður íslenskur er eins víðförull og alþjóðlega sinnaður og hann. Listamaðurinn afsalaði sér höfundarlaunum fyrir verkið og kunnum við honum bestu þakkir fyrir þá höfðinglegu gjöf sem hann færir Keflavíkurflugvelli með því fyrir þá ferðalanga sem þar fara í gegn til að njóta,“ sagði Margrét eftir afhjúpunina.

Fleiri myndir úr afmælinu má sjá í myndasafni með fréttinni.


Verktakafyrirtækið Húsagerðin í Reykjanesbæ fékk það vandasama verk að setja upp listaverkið hans Erró. Myndin er samsett með 2500 flísum. Þær voru límdar á platta sem síðan voru settir saman í þessari stóru uppsetningu. Á myndinni eru Birgir Vilhjálmsson og Agnar Áskelsson frá Húsagerðinni fyrir framan verkið.

Á 20 ára afmæli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var keypt verkið „Áttir“ eftir Steinunni Þórarinsdóttur en það hefur verið í geymslu vegna þrengsla en verður sett upp fyrir utan flugstöðina komumegin í sumar.

„Þotuhreiður“ eftir Magnús Tómasson, sem sett var upp árið 1990. Verkið er stórt egg úr stáli sem trjóna þotu er að brjótast út úr eins og ungi sem er að brjótast úr eggi. Verkið stendur á steinhrúgu úr íslensku grjóti sem rís upp úr tjörn á lóð flugstöðvarinnar, en hún er hluti af verkinu.

„Regnboginn“ eftir Rúrí, sem er gert úr ryðfríu stáli og steindu gleri reist árið 1991, en það tók eitt og hálft ár að setja verkið saman. Verkið var á þeim tíma hæsta listaverk á Íslandi, alls 24 metra hátt.

 

Flugstöðin 30 ára