Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Erótíkin í myndum Sossu
Laugardagur 16. desember 2017 kl. 07:00

Erótíkin í myndum Sossu

Það hefur verið þónokkur blossi í myndum listakonunnar Sossu á þessu ári. Sossa Björnsdóttir myndlistarkona og Anton Helgi Jónsson ljóðskáld leiddu saman hesta sína á árinu. Anton Helgi hefur tekið saman fjölmörg ljóð á erótískum nótum sem Sossa hefur svo notað sem áhrifavalda í myndum sínum. Þau héldu svo sýningu á verkum sínum í Bíósal DUUS safnahúsa á Ljósanótt undir nafninu „Blossi“.

 
Sossa er enn undir áhrifum Blossa og mátti sjá verk úr sýningunni á vinnustofu hennar í jólaboði sem hún hélt á dögunum. Anton Helgi var einnig mættur á svæðið og flutti nokkur af ljóðum sínum fyrir sýningargesti.
 
Ljóðið sem fylgir þessari umfjöllun er að einhverju leyti inngangsljóð eða formáli að samsýningu Sossu og Antons Helga í haust. Hugmyndin að ljóðinu kemur úr grísku goðsögninni um Seif og Heru sem deildu á sínum tíma um það hvort nyti kynlífs betur karl eða kona. Anton Helgi flutti ljóðið aftur í jólaboði Sossu.
Eftir Ljósanætursýninguna hefur Sossa haldið áfram í listsköpun sinni og er trú sínum stíl eins og áður hefur komið fram í viðtali við listakonuna hér í Víkurfréttum. Á vinnustofunni er hún með nokkuð af myndum í eldheitum litum og með persónum úr ljóðum Antons Helga, þar sem konur elska karla og konur elska konur alveg eins og karlar sem elska konur og karlar sem elska karla.

 
Sossa er með vinnustofu að Mánagötu 1 í Keflavík. Fyrir lesendur sem vilja kíkja á vinnustofuna og kaupa mynd fyrir jólin er rétt að benda á númerið hjá Sossu en það er 864 6233.
 
 
Svaladyr á efri hæð í gráu húsi standa opnar
inni karpa hjón
eða leikið par
í sjónvarpsmynd sem rifjar upp forna goðsögn.
 
Hvort skyldi njóta kynlífs betur, karl eða kona?
 
Karlinn hrópar konan.
Konan hrópar karlinn.
 
Þú hefur aldrei verið karl og veist ekkert um það.
Þú hefur aldrei verið kona og veist ekkert um það.
 
Hvort nýtur lífsins betur, ég eða þú?
 
Enginn betur svarað nema fugl, nema skáld.
Fugl sem syngur og þykist vera skáld.
Skáld sem syngur og þykist vera fugl.
 
- Anton Helgi Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024