Erlendum gestum fjölgar um 40%
- Þó fækkun á gestum Duushúsa
Starfsemi í Duushúsum árið 2013 var með nokkuð hefðbundnum hætti á þessu 11. starfsári þeirra, með fjölbreyttu sýningarhaldi, móttöku gesta og hópa, tónleikum, fundahöldum og ýmsum menningaruppákomum. Alls heimsóttu tæplega 35 þúsund manns safnið sem þó var örlítil fækkun frá fyrra ári. Almennum innlendum gestum fækkaði lítillega á meðan erlendum gestum fjölgaði um tæp 40%, en alls heimsóttu 2.672 erlendir gestir Duushús árið 2013.
Komum hópa fækkaði hátt í þriðjung. Töluvert fleiri nemendur komu í heimsókn heldur en árið 2012 og svipaður fjöldi sótti opnanir Listasafnsins. Svipaður fjöldi sótti ýmsa sérstaka viðburði og skipar Ljósanótt þar langstærstan sess með um 18.000 gesti og þar á eftir Listahátíð barna með um 2.500 gesti. Gestum Ljósanætur fækkaði um 2.000 og er þar líklegast slæmu veðri um að kenna.