Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Erfitt að geta ekki kíkt í kvöldmat til mömmu og pabba
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 29. maí 2020 kl. 17:41

Erfitt að geta ekki kíkt í kvöldmat til mömmu og pabba

Sigurður Jónsson býr og starfar í Kanada – hló þegar hann fékk ávísanahefti í bankanum.

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

Það er frekar löng saga en stutta útgáfan er sú að ég kynntist flugumferðarstjóra í gegnum Instagram eftir að hafa séð mynd hjá honum af radarskjá. Við byrjuðum að spjalla og komumst að því að við værum jafn gamlir, búnir að vera flugumferðastjórar svipað lengi og það væru allar líkur á því að við höfum talast saman í síma í vinnunni en flugstjórnarsvæði Reykjavíkur og Edmonton deila svæðamörkum svo þar fer mikil samvinna fram. Þessi strákur kom svo til Íslands í mars 2017 og þá hittumst við fyrst. Eftir að við bárum saman bækur okkar ákvað ég að prófa að gamni mínu að sækja um í Edmonton og í ágúst 2017 fór ég svo í heimsókn til Edmonton, fór í viðtal og fékk starfið. Einnig kynntist ég stelpu í sömu ferð svo heimsóknir til Edmonton urðu töluvert fleiri en planað var í fyrstu. Þrettán mánuðum seinna, eða í september 2018, flutti ég til Edmonton til að búa með núverandi kærustu eftir þrettán mánaða fjarsamband og hóf störf þar sem flugumferðarstjóri í október.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?

Allt of mikils. Fyrst og fremst er það fjölskyldan. Að geta ekki tekið rúntinn til að kíkja í kvöldmat til mömmu og pabba var mjög erfitt að sætta sig við það fyrsta árið en mamma er að mínu mati besti kokkur í heimi. Svo auðvitað allir vinirnir. Ég er þó heppinn að margir þeirra eru flugmenn og eru duglegir að kíkja í heimsókn svo það er ekki það versta.

Svo er auðvitað mikið af íslenskum mat og þá sérstaklega SS pulsan með öllu. Eitt að því fyrsta sem ég geri þegar ég kem í heimsókn til Íslands er að bruna á Bæjarins bestu og slátra þar þremur pulsum með öllu og kókómjólk.

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?

Það er fyrst og fremst ódýrt að búa hérna, flest allt er um 35–50% ódýrara hérna. Ég get nefnt sem dæmi að þegar ég skrifa þetta kostar bensínlíterinn 55 krónur íslenskar, sem er auðvitað hlægilegt.

Svo er hægt að stunda útivist á heimsmælikvarða hérna en Edmonton er aðeins þriggja klukkustunda keyrslu frá Klettafjöllunum. Þar eru ein bestu skíðasvæði í Norður-Ameríku og hjólaslóðar ásamt fjallgöngu og margt fleira.

Það er hins vegar hægt að deila um veðrið. Sumrin eru mjög góð hérna, hitinn 30 gráður og flesta daga sól. Veturinn aftur á móti er mjög kaldur. Hitastig fer niður nálægt -50 gráðum en vindur nánast enginn og alltaf sól – en þessi kuldi er sérstakur og ákveðin upplifun.

– Eitthvað komið þér á óvart við að búa erlendis?

Það sem kemur fyrst í hugann er hvað allt sem tengist bönkum, ríkinu og þess háttar starfsemi er mörgum árum á eftir Íslandi hvað varðar tækni og þægindi. Ég fékk ávísunarhefti frá bankanum og ég skellihló og spurði hvort það væri ekki alveg örugglega 2018 hérna í Kanada. Þeim fannst ég ekki fyndinn.

Einnig hvað stór hópur af fólki hérna í Alberta-fylki/héraði er gamaldags þegar kemur að kynþáttafordómum. Þetta er stundum kallað Texas Kanada og þá er helst verið að meina „Redneck“-fylki. Kynþáttafordómar eru alls staðar og hef ég margoft rekist á það þar sem minn besti vinur hérna í Edmonton er samkynheigður. Ég hef oft þurft að taka upp hanskann fyrir hann og láta nokkra rauðhnakka heyra það með góðum íslenskum hreim.

– Við hvað starfarðu í Kanada?

Ég starfa sem flugumferðarstjóri hjá NavCanada og sé ég um aðflug í kringum Edmonton-flugvöll.

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

Hefðbundinn dagur er yfirleitt samsetning af vinnu, fara út að labba með hundinn og ræktin. Ég reyni að spila golf sem mest enda er Alberta fullt af gullfallegum golfvöllum. Svo reynum við að stunda skíðin á veturna og þá tökum við nokkrar helgaferðir í fjöllin.

– Hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?

Ekki spurning. Þetta hefur verið mjög svipað og á Íslandi. Það var ekki mikið um smit hérna miðað við fólksfjölda en austurströndin í Kanada var í algjöru veseni svo við vorum heppin. Núna er farið að opna veitingastaði og búðir aftur eftir að hafa verið lokað í næstum tvo mánuði svo vonandi sjáum við fyrir endann á þessu hérna.

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

Hvað varðar COVID-19 þá hafa ekkert orðið rosalega miklar breytingar. Ég hef þurft að mæta til vinnu þar sem við erum „essential service“ og erum skyldug til að mæta. Vaktaskráin breyttist aðeins við þetta en annars hefur þetta haft lítil áhrif á mig. Fer bara ekkert út að borða eða á barinn svo það er bara jákvætt.

Í vetur lenti ég í ljótu skíðaslysi og var heppinn að ekki fór verr en ég sleit tvö liðbönd í hnénu og reif liðþófa ásamt einhverju minna. Svo núna, 11. maí, fékk ég loks aðgerð og hef ég verið frá vinnu síðan til að jafna mig.


SPURT OG SVARAÐ

– Nafn:

Sigurður Jónsson.

– Fæðingardagur:

14. janúar 1989.

– Fæðingarstaður:

Akureyri en bjó í Garði, Kelduhverfi.

– Fjölskylda:

Kærasta: Ashley Dale.

Faðir: Jón Sigurðsson.

Móðir: Þorbjörg Bragadóttir.

Systir: Brynja Dögg Jónsdóttir.

Bróðir: Bragi Jónsson.

Systir: Sandra Rún Jónsdóttir.

Hundur: Harlem Dale.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Lögga eins og Hrannar frændi.

– Aðaláhugamál:

Golf og fótbolti.

– Uppáhaldsvefsíða:

Google.com

– Uppáhalds-app í símanum:

DAZN (horfi á allar íþróttir í gegnum það).

– Uppáhaldshlaðvarp:

Revisionist History, Malcom Gladwell.

– Uppáhaldsmatur:

Grjónagrautur og kalt hangikjöt.

– Versti matur:

Allt sem inniheldur brokkolí.

– Hvað er best á grillið?

Lambalærisneiðar frá pabba, kryddaðar af mömmu.

– Uppáhaldsdrykkur?

Kaffi og Bailey’s.

– Hvað óttastu:

Að vera ósjálfbjarga

– Mottó í lífinu:

Aim high, you usually hit where you aim.

– Hvaða mann eða konu úr mannkynssögunni myndir þú vilja hitta?

Ragnar Loðbrók.

– Hvaða bók lastu síðast?

Englar alheimsins.

– Ertu að fylgjast með einhverjum þáttum í sjónvarpinu?

Allt of mörgum.

– Uppáhaldssjónvarpsefni?

Game of Thrones.

– Fylgistu með fréttum?

Ekki mikið en aðeins. Reyni að kíkja á íslensku miðlana til að missa ekki af öllu sem gerist á Íslandi en fylgist þá helst með fréttum á internetinu.

– Hvað sástu síðast í bíó?

Bad Boys for Life.

– Uppáhaldsíþróttamaður?

Tiger Woods og Michael Jordan.

– Uppáhaldsíþróttafélag?

Keflavík og Liverpool.

– Ertu hjátrúarfullur?

Alls ekki!

– Hvaða tónlist kemur þér í gott skap?

Góður metall.

– Hvað tónlist fær þig til að skipta um útvarpsstöð?

Leiðinleg tónlist en það getur verið alls konar.

– Hvað hefur þú að atvinnu?

Flugumferðarstjóri hjá NavCanada.

– Hefur þú þurft að gera breytingar á starfi þínu vegna COVID-19?

Það eina sem hefur breyst er vaktaskráin og vinnan hefur verið töluvert rólegri en venjulega þar sem flugsamgöngur hafa verið í lamasessi.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Manni líður eins og árið 2020 sé einhver heimsendir. Það er sama hvað gerist, næsti mánuður nær alltaf að toppa það sem áður var.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Já, við erum frekar bjartsýn. Við stefnum á að njóta sumarsins á pallinum og svo vonandi að taka ferð yfir til Vancouver og Vancouver Island í ágúst ef ástand leyfir. Annars þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn og það á við flestallt að mínu mati.

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Planið var að fara til Búlgaríu og Grikklands í júní og Spánar í september en þökk sé COVID-19 hefur það allt breyst. Núna stefnum við á að skoða Alberta-fylki nánar og vonandi taka ferð til British Columbia og heimsækja Vancouver, Kewlona og Vancouver Island.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Ég myndi keyra þeim rakleiðis í Sandgerði í fjárhúsin hjá pabba. Svo bjóða þeim í mat til mömmu á besta veitingastað landsins.

Viðtalið birtist í 22. tbl. Víkurfrétta 2020 – Smelltu hér til að lesa rafrænar Víkurfréttir og sjá fleiri myndir með viðtalinu.