Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Er til í að læra hvað sem er og leyfa lífinu að koma mér á óvart
Bryndís María Kjartansdóttir, dúx vorannar. Mynd: Oddgeir Karlsson
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 25. maí 2022 kl. 11:00

Er til í að læra hvað sem er og leyfa lífinu að koma mér á óvart

- segir Bryndís María Kjartansdóttir, dúx FS á vorönn 2022.

Bryndís María Kjartansdóttir er 18 ára og kemur frá Keflavík. Bryndís er dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja vorannar 2022. Hún útskrifaðist af fjölgreinabraut með meðaleinkunnina 9,48. Bryndís 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði fyrir hæstu meðaleinkunn við útskrift sem og 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi. Þá fékk hún einnig gjafir frá Landsbankanum og viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan námsárangur í hinum ýmsu greinum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bryndís segir að fjölgreinabraut hafi orðið fyrir valinu vegna þess að hún myndi fá smjörþefinn af öllu og fundið út hvar áhugasvið hennar liggur. Aðspurð hvers vegna FS hafi verið fyrir valinu segir hún: „Ég valdi FS því þetta er frábær skóli með frábærum kennurum og ég sá enga ástæðu til þess að fara í einhvern annan skóla því ég myndi fá alveg jafn góða menntun frá FS.“

Bryndís segist hafa áttað sig á því hvað í henni býr eftir að fjarkennsla hófst vegna heimsfaraldursins. „Covid var ákveðin áskorun en á þeim tíma náði ég að átta mig á því hvernig námsmaður ég væri. Nú þegar ég lít til baka þá er ég mjög stolt af því hvernig mér gekk í skólanum á þeim tíma, sérstaklega þegar að skólinn breyttist í fjarnám á einni nóttu.“ Þá segir hún hópvinnu í skólanum hafa verið áskorun. „Það var líka áskorun að lenda í hópvinnu með fólki sem nennti ekki að gera verkefnið og ég tel að það sé mikilvægt að fólk leggi metnað og vinnu í það að vinna saman í hópum til að álagið sé jafnt á alla.“

Bryndís segir að á árum sínum í FS hafi hún fyrst og fremst einblínt á námið en hún nýtti lærdómspásur sínar í að fara út að hlaupa, lesa og horfa á kvikmyndir. „Ég fer reglulega út að hlaupa og ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu eins og ég hef áður gert. Ég horfi mikið á kvikmyndir, bæði eldri myndir og nýjar. Ég les mikið og er með mikinn áhuga á söngleikjum jafnvel þó ég geti ekki haldið réttri tóntegund. Fjölskyldan ferðast töluvert og þá reyni ég að draga þau með mér á söngleiki.“ 

Bryndís María Kjartansdóttir og Guðlaug Pálsdóttir, skólameistari. Mynd: Oddgeir Karlsson

Aðspurð hvert leyndarmálið sé á bak við góðan námsárangur segir hún:„Vera skipulagður og duglegur, en líka að hafa áhuga á því sem þú ert að gera og að vilja standa þig mjög vel. Ég hafði líka mjög góðan stuðning frá fjölskyldunni. Þegar að ég byrjaði að fá mjög góðar einkunnir þá var það orðið ávanabindandi hjá mér að fá alltaf fleiri og fleiri níur og tíur.“

Bryndís er ánægð og stolt af sér sjálfri en segist enn vera að átta sig á aðstæðum. „Ég er enn ekki búin að átta mig á því að ég hafi orðið dúx því ég hef aldrei fengið svona stóra viðurkenningu fyrir eitthvað sem ég hef gert en ég er mjög ánægð og stolt af sjálfri mér.“ Hún ætlar að vinna í sumar og stefnir að því sálfræðinámi við Háskóla Íslands í haust. Þrátt fyrir það segir hún ekki vita nákvæmlega hvað hún vil gera í framtíðinni. „Ég hef áhuga á mörgu, þannig að ég er til í að læra hvað sem er og leyfa lífinu að koma mér á óvart.“