Er „sökker“ fyrir Love Actually
Jólaspjall VF
Björn á það til að borða yfir sig af humri um jólin en hann passar sérstaklega upp á að mamma sín sé ekki að breyta uppskriftinni að humrinum of mikið. Besta jólagjöfin sem Björn hefur fengið er kassagítar sem hann hefur ekki lært á, hann væri því til í gítarfingur í jólagjöf.
Fyrstu jólaminningarnar?
„Ég beið alltaf spenntur eftir að Skyrgámur kæmi í heimsókn. Hann fékk ekkert skyr samt.“
Jólahefðir hjá þér?
„Ætli jólabjórasmökkunin sé ekki eina hefðin hjá mér.“
Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
„Ég er duglegur að passa upp á að mamma sé ekki að breyta uppskriftinni að humrinum of mikið. Hún á það til að vera stundum of tilraunasöm.“
Jólamyndin?
„Ég kemst í jólafíling við að horfa á Lord Of The Rings og Christmas Vacation. Er líka sökker fyrir Love Actually og er þegar búinn að þjófstarta með að horfa á hana.“
Jólatónlistin?
„Nei.“
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
„Það mega allir búast við að fá eitthvað úr versluninni Brim. Á auðvelt með að finna eitthvað flott þar.“
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
„Ekki nógu mikið. Væri til í að gefa öllum jólagjöf. Það er sælla að gefa en þiggja, en mig vantar bara stærri buddu.“
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
„Við höfum oftast sömu rútínu í fjölskyldunni minni. Við kallarnir spilum.“
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Kassagítarinn sem ég hef ekki ennþá lært að spila á. Samt eru nokkrir slitnir strengir.“
Hvað er í matinn á aðfangadag?
„Humar í forrétt (ég borða mig yfirleitt saddan af honum), hamborgarhryggur og heimatilbúinn ís í eftirrétt. Svo skemmir ekki að fá kaffi og koníak á meðan pakkarnir eru opnaðir.“
Eftirminnilegustu jólin?
„Ég er svo ótrúlega gleyminn að ég man bara síðustu jól. Voru þau ekki í apríl?“
Hvað langar þig í jólagjöf?
„Ég væri alveg til í að vakna á jóladagsmorgun með hár á kollinum og gítarfingur, svo ég geti loksins spilað nokkur lög á gítarinn minn. En ég er sáttur að geta heimsótt fjölskyldu mína og vini.“