„Er rosalega stolt af verkinu“ segir Kristín Lea
Kristín Lea Sigríðardóttir er ung stelpa úr Keflavík sem mun um helgina útskrifast úr Kvikmyndaskóla Ísland. Útskriftarverkefni Kristínar er stuttmyndin Takk fyrir mig sem sýnd verður í kvöld í Bíóparadís við Hverfisgötu. „Við fengum í raun hugmyndina að handritinu þegar við vorum að velta því fyrir okkur að í raun og veru getur allt gerst, maður getur lent í nánast alls kyns aðstæðum, hvar sem er, hvenær sem er. Við veltum fyrir okkur skrítnum aðstæðum en formið þarf að vera einfalt þar sem um stuttmynd er að ræða. Við Anna sem gerir myndina með mér leikum par og er þetta í raun falleg saga um þær.“
Söguþráður myndarinnar er sá að Hrafnhildur fer í matarboð til Lilju kærustu sinnar í fyrsta sinn og hittir þar fyrir föður hennar og bróðir, þar kemur svo á daginn að maður sem hafði beitt Hrafnhildi ofbeldi í æsku er í raun faðir Lilju. Myndin er eins og fyrr segir frumsýnd í Bíóparadís klukkan 20:00 en sýningartími er 16 mínútur.
Stefnan er svo tekin á það að fara með myndina erlendis og kynna hana á ýmsum kvikmyndahátíðum á næsta ári. Kristín skrifar myndina ásamt Önnu Hafþórsdóttur en þær leika einnig aðalhlutverk myndarinnar. Leikstrjóri myndarinnar er Baldvin Z sem leikstýrði m.a unglingamyndinni Óróa en hann skrifar einnig handritið ásamt þeim Kristínu og Önnu.
Kristín segist vera gríðarlega spennt fyrir frumsýningunni á morgun.„ Ég er ekkert stressuð, ég er bara rosalega stolt af verkinu, litla barninu okkar ef svo má segja. Samvinnan var góð hjá okkur og þannig gekk þetta upp, sérstaklega ef maður er með gott fólk í kringum sig.“
Kristín útkrifast núna á laugardaginn eftir tveggja ára nám í Kvikmyndaskólanum sem kvikmyndargerðamaður en hún hefur verið að vinna mikið í framleiðslu og fleiru samhliða námi.
Mynd að ofan: Arnór H.
[email protected]