Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Er orðinn háður netskrafli í samkomubanninu
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 20. apríl 2020 kl. 08:54

Er orðinn háður netskrafli í samkomubanninu

Örn Ævar Hjartarson, umsjónarkennari í Sandgerðisskóla og fyrrverandi Íslandsmeistari í golfi, er svekktur að missa af Masternum og setur spurningarmerki við golfsumarið. Víkurfréttir lögðu fyrir hann nokkrar laufléttar spurningar.

– Hvernig varðir þú páskunum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Páskarnir hjá fjölskyldunni minni hafa alltaf einkennst af rólegheitum og afslöppum. Á því varð engin breyting þetta árið. Við bökuðum bakkelsi úr myndböndum sem heimilisfræðikennarinn í Sandgerði, Rannveig Sigríður, hefur sett saman í samkomubanninu. Einnig horfðum við á allar Batman-myndirnar þessa páska en það hefur verið hefð að henda einhverjum myndaseríum í tækið. Og svo höfum við farið í daglega göngu á milli máltíða.

– Hvernig páskaegg fékkstu og hver var málshátturinn?

Ég fékk mér Djúpuegg frá Freyju og málshátturinn var: „Í upphafi skal endinn skoða,“ sem á mjög vel við starfið mitt í dag.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Ég hef verið að koma mér inn í Microsoft Teams varðandi vinnuna mína en samkomubannið hefur einmitt neytt mann til að koma sér inn í og læra á þetta forrit sem hefur verið á dagskránni hjá mér í allan vetur. Annars eru samskiptin mín við vinahópana í gegnum Snapchat og Messenger en reyndar var FaceTime notað til að heyra í og sjá fjölskylduna í páskamáltíðinni.

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Ég myndi hringja í foreldra mína bara til að spjalla í örskamma stund, en ég verð nú að viðurkenna að ég er mjög lítill símamaður og eru samtölin þar alltaf mjög stutt.

– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?

Það þarf að melta svona hluti en það er ýmislegt sem mun breytast hjá mér og fjölskyldunni varðandi sumarið þá aðallega varðandi ferðalög. Þetta átti að vera ferðasumarið mikla þar sem golfferð, tónleikaferð og tveggja vikna ferð til Rómar sem klappstýra fyrir Danskompaní á Dance World Cup voru á dagskrá. En það verður víst lítið úr þessum ferðalögum. Svo er auðvitað spurning um golfsumarið þar sem áhuginn er allur að koma aftur eftir að eiginkonan byrjaði í sportinu. Það eru auðvitað mjög margir sem hafa meiri áhyggjur af þessu en ég því ég er mjög lánsamur með allt mitt, hvort sem það er fjölskylda, vini, eða atvinnu.

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Ég held að maður læri betur að meta það og þá sem maður hefur í kringum sig. Þegar maður hefur sitt fólk í kringum sig og þá skipta bara aðrir hlutir voðalega litlu máli.

– Ertu liðtæk/ur í eldhúsinu?

Ég hef alltaf haft gaman að elda góðan mat og með æfingunni þá er ég bara orðinn nokkuð liðtækur í eldhúsinu.

– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?

Vel elduð nauta ribeye eða nautalund er alltaf ofarlega á listanum með góðu rauðvíni í góðum félgasskap.

– Hvað var í páskamatinn?

Lambalæri að hætti mömmu með brúnuðum kartöflum, baunum, rauðkáli, salati og þunnri rjómasósu er ómissandi á páskunum.

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Það er alltaf skemmtilegast að elda þegar maður er búinn að liggja yfir uppskriftum og pæla í marga daga hvernig mat eigi að elda fyrir gott matarboð.

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Ég og yngri dóttir mín, Ásta María, hentum í pönnukökur á föstudaginn langa því við áttum heilan lítra af mjólk sem rann út daginn áður.

– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?

Ég myndi kaupa í góða ítalska grænmetissúpu, pasta,grænmetiskraftur, gulrætur, paprika, laukur, hvítlaukur, sellerí, tómatar í dós og paste. Eða gott Jambalaya: Bónuspylsur, laukur, paprika, sellerí, hvítlaukur, hrísgrjón, paste, olía og sterkt krydd.

– Hvað hefur gott gerst í vikunni?

Ég og fjölskyldan mín erum búin að eyða mörgum gæðastundum saman, spjallað, spilað, púslað, horft á sjónvarpið og borðað góðan mat. Einnig hafa nánir fjölskyldumeðlimir losnað við veiruna.

– Hvað hefur vont gerst í vikunni?

Það hefur voðalega fátt vont gerst hjá mér og minni fjölskyldu. Þegar ég hugsa bara um rassgatið á sjálfum mér þá finnst mér ömurlegt að Masterinn sé ekki á dagskrá þessa vikuna því það er skemmtilegasta golfmótið að horfa á í sjónvarpinu.

– Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?

– Hefur þú tekið upp á einhverju nýju í samkomubanninu?

Það nýjasta hjá mér sem ég gerði ekki fyrir samkomubannið er netskrafl.is. Ég er orðinn alveg háður þessu og finnst fátt skemmtilegra en að skora á vini og vandamenn í skrafl á netinu.

MARGT FLEIRA Í FJÖLBREYTTUM 76 BLS. VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR