Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Er orðinn einn af þessum leiðinlegu ættfræðiköllum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 13. maí 2023 kl. 06:07

Er orðinn einn af þessum leiðinlegu ættfræðiköllum

Agnar Guðmundsson er tölvunarfræðingur að mennt og mikill göngugarpur en hann ver miklum af sínum frítíma í að ganga um fjöll og firnindi vítt og breytt um landið. Hann tók nýverið upp á því að grúska í ættfræði – enda tekinn að eldast. Agnar tengir ættfræðina við sína útivist með því að kynna sér sögu þeirra staða sem hann gengur til. Víkurfréttir settust niður með Agga og spurðu hann nánar út í ættfræðigrúskið.

Agnar vinnur nú að því að setja saman gagnagrunn með upplýsingum um alla Íslendinga. Verkefnið er viðamikið og stefnan sett á að gera safnið opið almenningi fyrr en síðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Samstarfsmaður minn í þessu verkefni er Oddur Helgason, sem er titlaður spekingurinn. Hann er orðinn 82 ára gamall og rekur ættfræðiþjónustu í Reykjavík. Það er honum að þakka að þetta safn 900 þúsund Íslendinga sé varðveitt og til á tölvutæku formi en það sem við nokkrir erum að gera er að taka þetta safn, allra Íslendinga, og koma því á þannig form að allir geti notið. Það er að segja, tengst safninu á netinu og bætt við sína sögu. Það eru til heimildir um fólk út um allt, þær eru í bókum, þær eru í gömlum blöðum sem eru aðgengileg á timarit.is, sögum sem Ismus.is [Íslenskur músík- og menningararfur] hefur á hljóðupptökum, viðtöl við eldra fólk. Þetta þarf að fanga í eitt stórt safn og gera aðgengilegt öllum, þannig að allir geti flett upp sínu fólki. Þeir þurfi ekki að leita sjálf hverjir þeirra forfeður voru og geti gengið að þessum upplýsingum vísum.

Þetta eru ekki bara sögur um fólk sem við erum að skrásetja heldur líka ábúendur, þannig er þetta kallað ábúendatöl. Í þínu tilfelli gæti t.a.m. verið áhugavert að vita hverjir hafi verið ábúendur á Valdastöðum í Kjós, hverjir bjuggu þar og hvenær.“

Agnar segir að hann nái að blanda saman útivistinni við ættfræðiáhugann og þegar hann sé á göngu vilji hann vita sögu staðanna sem hann heimsækir.

Agnar er mikill útivistarmaður og gengur reglulega um fjöll og firnindi. Mynd af Facebook-síðu Agnars

Svolítill skáldskapur

Hvað nær þetta langt aftur hjá þér?

„Ég er með 1.491 einstakling á tíundu öld, þ.e.a.s. níu hundruð og eitthvað, og ég er með sex einstaklinga fædda á fyrstu öld. Þetta er orðinn svolítill skáldskapur þegar þú ert kominn langt aftur – en á tuttugustu öld eru 473 þúsund einstaklingar.

Þetta verkefni, sem er ótrúlega spennandi og á eftir að taka einhver ár til viðbótar, ég held að það verði einhvers konar ættsfræðisprengja þegar það fer í loftið.“

Verður þetta eitthvað í líkingu við Wikipedia, þannig að fólk geti sjálfkrafa bætt inn upplýsingum?

„Já, það verður einhver stýring á því en það verður mjög aðgengilegt fyrir fólk að koma með ábendingar og bæta við, skanna inn gögn og tengja sem viðhengi við fólkið sitt – og jafnvel, það sem við þurfum að huga vel að í dag þótt það sé ljótt að segja það, að fanga sögu þeirra sem eru á síðustu metrunum. Við erum með fólk sem er kannski orðið hundrað ára, er ennþá skýrt og veit ótrúlega margt. Þessi vitneskja fer með fólkinu ef hún er ekki skrásett.“

Á skrifstofa Agnars er aragrúi bóka sem tengjast ættfræðiáhuga hans. VF/JPK


Byrjaði rúmlega tvítugur á verkinu

Þótt áhugi Agnars á ættfræði hafi vaknað fyrir skemmra en ári síðan skrifaði hann forritið á árunum 1993 til 1996 þegar hann var að vinna hjá Friðriki Skúlasyni.

„Ég var fyrsti starfsmaðurinn sem Friðrik Skúlason réði í vinnu sem forritari. Þá var ég nemi í tölvunarfræði í háskólanum og á þeim tíma var Friðrik með vírusvarnarforrit sem var það hraðvirkasta og besta í heiminum. Það var selt út um allan heim og flest fyrirtæki á Íslandi voru með þetta forrit í áskrift. Síðan vorum við að gera villuleitarforritið Púka sem leiðrétti í Word Perfect og þessum gömlu forritum, það leiðrétti íslenskt mál. Friðrik er mjög vel gefinn og hafði þessa hugsjón, hann vildi búa til einhvers konar forrit sem væri þannig að allir Íslendingar gætu skoðað sig og sína sögu í forritinu – og það var fyrir daga internetsins sem hann fékk þessa hugmynd. Hann byrjaði að slá inn manntalið frá árinu 1703 sem var fyrsta heildarmanntal sem nokkur þjóð hafði gert. Hann sló þetta allt inn í forrit sem hann bjó til sjálfur og fékk nafnið Espólín, í höfuðið á Jóni Espólín, sýslumanni, sem bjó á Espihóli í Eyjafirði (þess vegna tók hann upp nafnið Espólín). Þetta forrit rokseldist og það urðu víða til svona Espólín-grúskarar, urðu til svona sérfræðingar á hverju landshorni. Síðan bræddum við þessi gagnasöfn saman í eitt stórt og þá hafði Kári Stefánsson samband við Friðrik og vildi fá safnið. Frikki setti þau skilyrði að hann yrði að hafa það opið fyrir alla en Kári sagði það ekki koma til greina. „Þá bara kaupi ég þetta, það skiptir engu málið hvað það kostar!“ Þá hefur Frikki bara sagt blákalt nei, það kæmi ekki til mála. Þetta verður að vera aðgengilegt þjóðinni, það er hans hugsjón. Upp úr því verður Íslendingabók til en Friðrik á algerlega heiðurinn að henni. Hann fékk leyfi til að ráða sagnfræðinga og íslenskufræðinga og fleiri, sem voru staðsettir hjá Íslenskri erfðagreingingu, til að þétta safnið og bæta við upplýsingum. Það má segja að þeir séu nánast búnir að fara í gegnum allar ritaðar heimildir sem til eru; kirkjubækur, sóknarmannatöl og fleira. Þannig fylltu þeir upp í Íslendingabók, þetta er alveg stórkostlegt verkefni og gert af mikilli hugsjón þessara manna, Friðriks Skúlasonar og Kára Stefánssonar.“

Agnar blaðar gjarnan í gegnum gömul stéttartöl og annað til að leita upplýsinga um Íslendinga.

Ættfræðiáhugi eru fyrstu ellimerkin

„Ég hafði engan áhuga á ættfræði þegar ég hætti að vinna við þetta hjá Friðriki Skúlasyni á sínum tíma en það er að koma núna – af því að ég er að verða gamall,“ segir Agnar. „Ég held að það sé hægt að gera ennþá betur en Íslendingabók gerir, miklu betur. Við erum hópur sem vinnum að þessu og þar er Oddur Helgason í broddi fylkingar.

Oddur hefur haft þessa hugsjón frá því að hann var um fertugt og gert þetta að sínu ævistarfi, að safna saman ættfræðiupplýsingum í þetta safn. Það er þetta safn sem ég er með hér,“ segir Aggi og bendir á tölvuna. „Má segja að láni frá honum – af því við erum að gera þetta vænt fyrir þjóðina til að vinna sjálfa í. Oddur talar daglega við svona tíu manns, vítt og breytt um landið, til að bæta safnið. Hann bætir nýjum upplýsingum við á hverjum degi, bætir tengingar og bætir við fólki. Ætli safnið stækki ekki um svona hundrað manns í á hverjum degi. Við erum lukkuleg sem þjóð að hafa þessar upplýsingar, allt þetta ritaða mál frá svona tólftu öld.“

Hvenær tókstu aftur upp þráðinn við þetta ættfræðigrúsk?

„Það eru svona níu mánuðir. Það byrjaði þegar ég heimsótti Odd í Skerjafjörðinn en við kynntumst fyrst árið 1993 þegar ég var að vinna hjá Friðriki Skúlasyni. Þá kom hann til mín með hugmyndir og pælingar. Þá var ég 23 ára gamall, háskólanemi að vinna við forritun, og ég hugsaði bara: „Ég get ekki verið svona. Alltaf að tala við fullorðið fólk um ættfræði. Þetta getur ekki verið lífið mitt.“ Þetta var samt ótrúlega fróðlegt og ég kynntist fullt af fólki – núna er ég orðinn einn af þessum leiðinlegu köllum sem eru á kafi í ættfræði,“ sagði Agnar hlæjandi að lokum.

Aggi var meðal þeirra fyrstu sem gerðu sér ferð upp að gosstöðvunum í Merardal. Mynd af Facebook-síðu Agnars