Er Neyðarkallinn grindvískur?
– fluglínutækin fyrst notuð í Grindavík 1931
Nú um helgina munu sjálfboðaliðar björgunarsveita vera á ferðinni og selja Neyðarkall björgunarsveita. Er þetta níunda árið sem farið er í slíka fjáröflun og er óhætt að segja að almenningur hafi tekið björgunarsveitafólki afar vel og er þessi sala farin að skipta björgunarsveitir verulegu máli í fjármögnun starfsins.
Neyðarkall björgunarsveita í ár er með línubyssu. Í bókinni Mannslíf í húfi, sögu Slysavarnafélags Íslands, segir að á þeim rúmu 85 árum sem Slysavarnafélagið Landsbjörg og forverar þess hafa starfað hefur nálægt 2500 manns verið bjargað með fluglínutækjum þess af erlendum sem innlendum skipum sem strandað hafa hér við land. Fyrsta slíka björgunin var í mars 1931, tæpum fimm mánuðum eftir að slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík var stofnuð og aðeins viku eftir að heimamenn höfðu fengið tilsögn í meðferð fluglínutækja, strandaði franski togarinn Cap Fagnet við bæinn. 38 skipverjum var bjargað í land með fluglínutækjum.
Erlendis hefur notkun fluglínutækja víða verið hætt og þar treysta menn á þyrlur til björgunar þegar skipsströnd verða. Notkunin hefur líka minnkað hér á landi en talið er mikilvægt að tækin, og þekking til að nota þau, séu til staðar. Aðstæður eða veður getur t.d. verið með þeim hætti að þyrlur komist ekki á strandstað eða geti ekki athafnað sig þar. Það gerðist t.d. þegar bátur með fimm manna áhöfn strandaði í Vöðlavík á Austfjörðum árið 1993. Þá brutust björunarsveitamenn á staðinn í vonskuveðri og skutu línu út í bátinn og drógu mennina í land.
Síðast voru fluglínutæki notuð við björgun árið 2001 en þá strandaði línuskipið Núpur BA við Patreksfjörð. Björgunarsveitirnar Blakkur og Tálkni björguðu þá 14 manna áhöfn skipsins með þeim.