Er miklu glaðari persónuleiki
Keppandi í Biggest Loser greindist með aspergen og gallsteina.
Í kvöld verður úrslitakvöldið í Biggest Loser Ísland haldið í Háskólabíói. Suðurnesjamaðurinn Elvar Már Þrastarson er einn þeirra sem á möguleika á því að hreppa vinning fyrir svokallaða Heimakeppni. Hún er fyrir þau sem dottið hafa úr keppninni en haldið áfram að bæta lífsstílinn og fengið leiðsögn.
„Þetta hefur verið yndisleg lífreynsla og skemmtilegur tíminn þegar ég var með hópnum á Ásbrú. Ég hef ekki verið eins duglegur og ég ætlaði að vera vegna gallsteinanna sem kom í ljós að ég var með þegar ég hóf keppnina. Ég reyni að gera eins mikið og ég get, maður verður bara að finna getu sína og farveg,“ segir Elvar Már Þrastarson, sem hefur búið í Sandgerði í eitt ár en á Suðurnesjum í 15 ár. Hann vaknar klukkan fimm á morgnana og fer í ræktina í einn til tvo tíma. Þegar hann æfir í Sandgerði fer hann kl. 9 þegar stöðin þar opnar. „Svo borða ég hollan og góðan mat, grænmeti og ávexti og hef verið að prófa meira af hráfæði líka. Ég verð að huga sérstaklega að því hvað ég borða vegna magans og gallsteinanna, t.d. ekki mjög feitan mat.“
Greindur með aspergen
Í aðdraganda keppninnar fór Elvar Már í mikla lífs- og sjálfsskoðun og hefur tekið líf sitt algjörlega í gegn. „Það var kominn tími á það. Þetta var ekki bara líkamlegt heldur líka sálrænt. Þetta gengur ekkert bara út á það að fara út að hlaupa eða í ræktina, það er hugarfarið og sálrænu hliðarnar. Ég var kominn út í algjöra vitleysu, búinn að loka mig af.“ Hann segist hafa verið einn þeirra sem tók afar þung skref inn í keppnina. „Ég er greindur með aspergen og hef átt mjög erfitt með að tengjast fólki og mjög erfitt með að taka þátt í hópverkefnum. Ég ákvað samt að sækja um þetta og taka mig í gegn. Stórir hlutir hafa gerst eftir það. Ég er farinn að opna mig meira, kynnast ókunnugu fólki og loka mig ekki af. Keppnin hefur hjálpað mér mikið með þetta og reynsla gjörbreytt lífi mínu. Ég tek þetta með mér út í lífið og þetta styður mig áfram með að gera enn betur.“
Ánægður með sína útkomu
Elvar Már segir að mjög vel hafi verið hugsað um hann og keppnin langt í frá verið eins og verið hefur í umræðunni um erlendu útgáfuna af henni. „Hér er svo vel fylgst með og umhverfið verndað, líka eftir að ég datt út. Það er hringt í mann og sendir póstar og ef maður þurfti einhvern auka stuðning þá þarf bara eitt símtal til. Ég er mjög ánægður með þetta allt saman og mína útkomu.“ Í kvöld kemur í ljós hver árangur hans er í tölum en Elvar Már segir persónulegan árangur sinn ganga fyrst og fremst út á það að vera miklu glaðari persónuleiki og að hann taki lífið með trukki. „Ég er einhleypur eins og er en er kominn með sjálfstraustið og sjálfsálitið í að horfa í kringum mig. Ég hvet alla sem vilja huga að heilsunni að láta bara verða af því. Ekki hugsa: á morgun eða hinn heldur ganga strax til verks. Þetta er erfitt - en þannig er líka lífið. Það á bara að taka því opnum örmum og ég hef ekki séð eftir því. Og ef maður lendur í mótlæti eða skakkaföllum þá er bara að vinna með það, eitt í einu,“ segir Elvar Már að lokum.
VF/Olga Björt