Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Er með blæti fyrir ódýru drasli
Mánudagur 27. júní 2016 kl. 10:12

Er með blæti fyrir ódýru drasli

Fimm snjöll - Guðmundur Jóhann Árnason

Keflvíkingurinn Guðmundur Jóhann Árnason fékk hjólabakteríuna síðasta sumar. Hann keppti í WOW cyclothon í síðustu viku með liði Fjallabræðra, en hann hefur verið á fullu að syngja með sveitinni undanfarin ár. Á daginn er Guðmundur svo lögfræðingur hjá Tollstjóra. „Það gekk vonum framar og við komum sjálfum okkur á óvart. Eina markmiðið var að koma í mark með gleði og brosi og það tókst og rúmlega það. Náðum að klára á 43 tímum og erum betri vinir en áður. Klárlega með því skemmtilegra sem ég hef gert og ætla klárlega aftur,“ segir Guðmundur um hjólreiðakeppnina en farið er hringinn í kringum landið. Á næstunni er Guðmundur á leið til London ásamt 150 Fjallabræðrum, Jónasi Sig og Lay Low, þar sem ætlunin er að taka upp plötu. Við fengum að kíkja aðeins í símann hjá Guðmundi og forvitnast um gagnleg öpp sem hann notast mikið við.

Strava
Það er mjög einföld regla í lífinu - ef það er ekki á Strava, þá gerðist það ekki. Nota þetta mikið þegar ég hjóla til að bera mig saman við aðra og monta mig ef ég næ betri hraða en vinirnir. Algjör snilld fyrir hjólin til að halda utan um tölfræðina og keyra sig áfram. Í appinu er búið að skipta leiðum upp í smærri keppnir og getur maður því keppt við vinina um að eiga besta tímann á hverri leið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Music Memos
Eitthvað alflottasta appið fyrir tónlistarmenn í dag. Í appinu geturðu hvar sem er spilað inn, eða sungið laglínu og appið les nótur út úr því og getur svo bætt við bassa og trommum með einum smelli. Ef maður er eitthvað í tónsmíðum þá er þetta lykilatriði til að muna lögin sín og búa til einföld lög án mikillar þekkingar. Hægt er svo að færa þetta yfir í Garage band appið og bæta við hljóðfærum og fullútbúa „hittara.“ Kannski verður appið til þess að plata líti dagsins ljós.

AliExpress
Ég er með blæti fyrir ódýru drasli sem ég vissi ekki að ég þyrfti. Stundum líður mér illa ef það er ekkert á leiðinni til mín frá Kína. Þarna kaupi ég þó líka nytsamlega hluti svo sem hjólaföt og aukabúnað ásamt hljóðfærabúnaði og spara mér marga þúsundkalla. Frönskuskerinn og rauðvín-umloftari eru bestu kaupin. Ég kíki reglulega á tilboð dagsins og fylgist vel með.

Evernote
Ég er afskaplega lélegur að muna hluti og ennþá verri í að halda utan um þá. Evernote er app sem tengir saman skjalabókhaldið mitt bæði í vinnu og heima. Þarna geymi ég uppskriftir sem ég get nálgast hvar sem er, verkefnin í vinnunni, söngblöðin fyrir Fjallabræður og allt annað sem ég þarf að getað nálgast hvar sem er. Frábært app sem hefur oftar en einu sinni bjargað lífi mínu.

GuitarTuna
Að hafa app í símanum til að stilla gítarinn er jafn nauðsynlegt fyrir mig og súrefniskútur er fyrir kafara. Ég hef ekki enn náð tækninni að græja þetta með eyrunum eingöngu og er þetta app mikið notað hjá mér. Mjög einfalt í notkun og tekur bara örskamma stund að fara úr illa stilltum gítar í töfratæki. Algjörlega nauðsynlegt app!