Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Er með æði fyrir verkfærum
Tobba listakona að búa til hring.
Mánudagur 28. desember 2015 kl. 08:00

Er með æði fyrir verkfærum

- Tobba listakona með mörg járn í eldinum

 
Þorbjörg Magnea Óskarsdóttir, eða Tobba listakona, eins og hún er betur þekkt, er með mörg járn í eldinum í skúrnum við húsið sitt. Þar málar hún myndir, smíðar skartgripi, taflborð, styttur af lundum, vitum og krummum, gerir skúlptúra og nú síðast aðventukransa. Þá er aðeins fátt eitt nefnt. Tobba er úr Njarðvík og byrjaði að mála í kringum 16 ára aldurinn en hefur fengist við sköpun alla tíð. „Ég leiraði mikið með mömmu sem krakki og fór svo síðar að mála. Ég er með ADHD og lesblindu og gekk mjög illa í grunnskóla. Ég var alltaf teiknandi í bækurnar í skólanum og það kom fyrir að ég væri rekin úr tíma fyrir það,“ segir hún.
 
Tobba sér sjálf um alla smíðavinnu við listsköpunina og á orðið gott safn verkfæra. ,,Það má eiginlega segja að ég sé með æði fyrir verkfærum því ég nota þau mikið og safna þeim.“ Tobba vinnur í föndurbúð á daginn en sinnir svo listinni á kvöldin og um helgar, fyrir utan að sinna syni sínum sem er 8 ára. Hún hefur líka kennt á námskeiðum hjá Símennt víða um land og segir það vera mjög gefandi.
 
 
 
Hugmyndirnar koma á kvöldin
Hugmyndir að listaverkum koma yfirleitt til Tobbu á kvöldin þegar hún er að fara að sofa. Áður fyrr fór hún því oft að skapa á nóttunni en hætti því eftir að sonurinn fæddist. Nú leggur hún hugmyndirnar á minnið og hefst handa strax næsta morgunn. Tobba er nú byrjuð að undirbúa sýningu sem verður á Ljósanótt. Þar ætlar hún að sýna skúlptúra. „Þessir skúlptúrar fjalla um það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Þeir tákna ýmist sorg, kvíða, einmanaleika eða ofbeldi. Svo er einn þeirra sem táknar geðrof,“ útskýrir Tobba. Vinkona hennar fékk geðrof og fannst Tobbu á lýsingunum frá henni að það væri eins og að vera með fíl í höfðinu því fólk skynjar hluti sem aðrir gera ekki, eins og bleika fíla. Sá skúlptúr er því manneskja með bleikan fíl inni í hausnum.
 
Skúlptúrar Tobbu hafa verið vinsælir hjá erlendum ferðamönnum. Hún er nú byrjuð að undirbúa sýningu á skúlptúrum á Ljósanótt.
 
 
Vildi gera sinn eiginn krans
Skúlptúrar Tobbu hafa verið til sölu í versluninni Smíði og skart við Skólavörðustíg í Reykjavík og hafa notið mikilla vinsælda. Hún hefur einnig málað myndir af norðurljósunum sem ferðamenn hafa verið hrifnir af. Tobba rak áður Gallerý 8 með nokkrum öðrum listakonum við Hafnargötuna en starfsemin fjaraði svo út. Þær hafa nú opnað jólamarkað í húsnæðinu og eru aðventukransarnir fáanlegir þar. Um tilurð kransanna segir Tobba að hana hafi langað til að gera sinn eiginn krans. „Það kom tískubóla fyrir ári síðan og allir gerðu kransa úr trékúlum. Ég vildi gera eitthvað öðruvísi og gerði því mína eigin. Svo hefur fólk verið hrifið af þeim, enda ekki mikið úrval af krönsum til sölu.“ Engir tveir kransar eru eins hjá Tobbu.
 
Er mikið jólabarn
Tobba er mikið jólabarn og hlakkar alltaf til jólanna. Hún ætlar að skreyta heimilið í vikunni með syni sínum en þau ætla svo að verja jólunum í Glasgow hjá mömmu Tobbu. Á aðfangadagskvöld verður kalkúnn á veisluborðinu og svo íslenskur lambahryggur á jóladag. „Ég tek rauðkálið og annað íslenskt og ómissandi með mér út. Við ætlum líka að hafa kjötsúpu einhvern tíma um jólin og ég fer með hráefni í hana með mér út. Það verður gaman um jólin núna eins og alltaf.“
 
Aðventukrans úr smiðju Tobbu.
 
 
Einn skúlptúra Tobbu heitir Geðhvörf. Sá er af manneskju með bleikan fíl inni í hausnum því þannig túlkaði Tobba lýsingar konu sem hafði fengið geðhvörf.
 
Tobba býr til krumma, lunda og önnur dýr. Mótin gerir hún sjálf.
 
  
 
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024