Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Er hoppandi og dansandi inni í mér
Laugardagur 27. september 2014 kl. 09:10

Er hoppandi og dansandi inni í mér

Var í afneitun og hélt að hægt væri að feika sig í gegnum lífið

Það er óhætt að segja að líf Keflvíkingsins Rúnars Þórs Sigurbjörnssonar hafi umturnast á dögunum. Hann kom þá opinberlega út úr skápnum sem samkynhneigður maður, orðinn 26 ára gamall. Hann segir að sér sé virkilega létt. Hann hafi verið lokaður inni í skel um árabil og hreinlega logið að sjálfum sér og öllum í kringum sig. Nú loks geti hann byrjað að lifa lífinu en Rúnari finnst nánast sem hann sé endurfæddur.

„Ég held að ég hafi haft ýmsar hugmyndir um þetta síðan ég var átta ára gamall. Þá fór ég fyrst að pæla í þessu. Síðan var þetta upp og ofan. Vinirnir fóru að spá í stelpur og því gerði ég það líka. Það var samt aldrei eðlilegt fyrir mér. Ég gerði það bara því ég vildi vera eins og allir aðrir, en það var aldrei neitt sem ég sóttist í sjálfur af fyrra bragði,“ segir Rúnar þegar blaðamaður spyr hann hvort hann hafi lengi vitað af samkynhneigð sinni. „Mér líður eins og ég hafi fæðst fyrir viku síðan, ég er svo ánægður,“ segir Rúnar og brosir sínu breiðasta. „Ég er kannski ekki alveg hoppandi og dansandi úti á götu, en inni í mér er ég hoppandi og dansandi.“ Hann segir að sjálfstraust sitt hafi aukist til muna enda hafi það beðið hnekki við það að bæla stóra leyndarmálið niðri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Erfitt að ljúga og þykjast vera einhver annar

Unglingsárin voru Rúnari mjög erfið. Hann vildi ekki skera sig út úr hópnum og vera talinn öðruvísi „Það var erfitt að vera inn í þessari skel. Það var erfitt að ljúga og þykjast vera eitthvað sem maður var ekki. Maður var bara svo hræddur um að vera eitthvað öðruvísi, vera skrítni gaurinn í skólanum,“ segir hann. „Ég var alltaf að berjast við hina ýmsu persónuleika. Að sýna réttan persónuleika við réttar aðstæður. Maður var alltaf að velja sér einhvern annan til þess að vera því maður gat ekki varið maður sjálfur opinberlega. Fyrir vikið var sjálfstraustið ekki mikið og ég var feiminn. Ég barðist við ákveðið þunglyndi út af þessu þegar ég var yngri. Ég þjáðist af miklum kvíða. Mér fannst ég vera svo skrýtinn og furðulegur. Mér fannst eins og ég ætti ekki neinn stað sem ég passaði á. Nú er ég bara ég sjálfur og engin ástæða fyrir að vera með leikaraskap lengur.“
Var í afneitun og hélt að hægt væri að feika sig í gegnum lífið

Rúnar segir það hafa verið erfitt að burðast með þetta leyndarmál lengi og sér hann mikið eftir því í dag. „Mín mesta eftirsjá er að hafa ekki gert þetta fyrr. Það að hafa þurft að bíða til 26 ára aldurs með að byrja að lifa lífinu af alvöru. Ég vildi óska þess að ég hefði gefið skít í allt og bara látið vaða miklu fyrr. Í dag, rétt rúmri viku frá því að Rúnar kom opinberlega út úr skápnum, líður honum talsvert betur en áður. „Ég er ennþá að venjast því að allir viti af þessu, eins að tala um þetta opinberlega. Þetta er eins og ég hafi kastað af mér 50 kílóum.

Hvað stöðvaði þig á sínum tíma? „Afneitun. Ég hélt í þá trú að ég gæti lifað með þessu og feikað mig í gegnum lífið. Það bara var ekki svo einfalt. Mér líður pínulítið eins og ég sé búinn að missa af helmingnum af lífinu. Næsti helmingur verður þá bara tvöfalt betri. Ég hélt að ég gæti bara lifað með þessu og einfaldlega kæft þetta niður. Ég gæti bara lifað eðlilegu lífi með konu og börn, fjölskyldubíl og hund.“

Kom út á facebook

Af hverju beiðstu svona lengi? „Þetta er ekki ósvipað eldgosinu sem er í gangi núna. Það hefur verið að krauma þarna undir og hristast í langan tíma. Alltaf að nálgast yfirborðið. Síðan gerðist þetta bara.“ Rúnar hefur í gegnum árin sagt nokkrum nánum vinum sínum frá því að hann sé samkynhneigður. „Ég slysaðist svo til þess að segja mömmu þetta um daginn. Þá var ég að koma heim af fögnuði með vinnunni og var aðeins við skál þegar ég kom heim og sá mömmu horfa á sjónvarpið. Ég ákvað skyndilega að segja henni frá þessu. Hún spurði mig einfaldlega af því hvort ég hefði vitað þetta lengi, eins og þetta væri eðlilegasti hlutur í heimi“ segir Rúnar og hlær. Þau mæðgin töldu svo best að fara með þetta alla leið og sögðu allri fjölskyldunni frá næsta dag. „Ég vildi svo bara rífa plásturinn af og fór beint á Facebook og skrifaði það sem mér lá á hjarta. Ég skrifaði textann og birti um leið án þess að hika. Ég vissi að ef ég hikaði þá myndi ég jafnvel sleppa þessu.“ Hann segist hafa fengið gríðarleg viðbrögð við þessari stöðuuppfærslu á Facebook. „Fólk er að koma upp að mér í ræktinni og heilsa upp á mig, nokkrir hafa meira að segja faðmað mig. Ég var ekki að búast við þessu og þetta kom mér virkilega á óvart.“

Fjölskylduna grunaði ýmislegt þar sem Rúnar hafði aldrei átt kærustu. „Ég var alveg 100% viss um að allir í fjölskyldunni myndu taka þessu vel. Eina sem ég hafði áhyggjur af var að einhverjir myndu hugsanlega vera vandræðalegir í kringum mig og hegða sér öðruvísi. Það hefur þó alls ekki verið þannig,“ en Rúnar segir að allir hafi tekið þessum fregnum fagnandi.

Burtu með fordóma

„Þó svo að ég hafi verið að fela það að ég væri samkynhneigður þá fór ég aldrei í þann pakka að vera með einhverja fordóma til þess að reyna að kasta grun af mér þannig séð. Ég man eftir atviki þar sem ég var mjög ungur úti að borða með pabba mínum og þar var transgender manneskja sem var að vinna á veitingastaðnum. Ég sagði eitthvað fordómafullt en pabbi tók mig strax á teppið fyrir það. Ég skildi ekki vera með fordóma gangvart öðru fólki. Það sem hann sagði sat svo fast í mér og eftir það hef ég bara ekki sýnt nokkurri manneskju fordóma.“

Hrökklaðist hræddur aftur inn í skápinn

Rúnar hefur oft verið nærri því að koma út úr skápnum. Fyrir sex árum fékk hann skyndilega þá tilfinningu að hann yrði að segja einhverjum frá þessu og sagði náinni vinkonu sinnu frá. „Ég man að ég sat örugglega í 40 mínútur í bílnum með henni áður en ég gat komið þessu út úr mér. Mér fannst þetta svo hræðilegur hlutur. Stór og mikill hlutur sem ég var hræddur við.“ Fjórum árum síðar sagði Rúnar annari stelpu frá þessu, en þá var hann kominn í aðeins meiri sátt við sjálfan sig. „Það var stelpa sem vildi endilega bjóða mér í bíó og svona. Ég hafði bara ekki áhuga. Ég tók mig því bara til og sagði henni allt af létta, ég vildi ekki særa hana,“ segir Rúnar og hlær. „Ég sagði einhverju fólki frá þessu um svipað leyti og var ægilega ánægður með það. Datt svo í það og sagði einhverjum fleirum frá þessu. Það sem gerðist þá var að orðrómur fór í gang, eins og eldur í sinu. Fólk fór að spyrja mig út í þetta. Þá varð ég dálítið hræddur og ég hrökklaðist eiginlega aftur inn í skápinn.“

Ekki minni karlmaður þrátt fyrir að vera hommi

Rúnar segist aðeins hafa kynnst samfélagi samkynhneigðra áður en hann kom út úr skápnum. Þegar hann fór að skemmta sér með vinum sínum í Reykjavík þá endaði hann iðulega á bar samkynhneigðra. „Ég skemmti mér einfaldlega best þar, í kringum mitt fólk ef svo má segja.“ Rúnar hefur sterkar skoðanir á samfélagi samkynhneigðra og staðalímynd þeirra. „Margir tala um gleðigönguna á Gay pride og að hún sé svo ýkt. Þeir átta sig líklega ekki á því að margt af fólkinu í göngunni hefur lifað í felum meirihluta lífs síns. Þarna kemur svo einn dagur á ári þar sem dæminu er snúið við. Fólk einfaldlega mætir með sinn ýktasta persónuleika til þess í rauninni að sýna sitt stolt.“ Varðandi staðalímyndir af samkynhneigðu fólki þá segir Rúnar að hópurinn sé breiður og fjölbreyttur. „Staðalímynd af samkynhneigðum körlum er kannski sú að þú sért minni karlmaður bara fyrir það eitt að vera samkynhneigður. Það er bara ekkert rétt. Þó svo að ég sé hraustur strákur þá er ég mjúkur að innan. Ég er góður í körfubolta og tek sennilega flesta í sjómanni. Við erum alveg jafn fjölbreyttur hópur og hver annar.“

„Ég hugsaði að ef ég myndi sofa nógu oft hjá stelpum þá myndi mér byrja að líka það“

Rúnar segist aldrei hafa tollað í sambandi með kvenmanni og hafi í raun ekki látið mikið á það reyna. Eins og unglingum sæmir þá kviknar áhuginn á kynlífi á kynþroskaaldri. Rúnar fann fyrir pressu um að sofa hjá stelpu þrátt fyrir að hafa ekki áhuga á því. „Maður var skíthræddur við að verða síðastur af vinunum til þess að missa sveindóminn. Ég naut þess ekkert og í raun var það tilraun til þess að bæla þessar tilfinningar. Ég hugsaði að ef ég myndi sofa nógu oft hjá stelpum þá myndi mér byrja að líka það,“ segir Rúnar.
„Þegar ég var yngri þá var tilhugsunin um að fara með stelpu á „deit“ svo heillandi. Þá virkaði maður eitthvað svo eðlilegur. Ef ég myndi svo fara á stefnumót með strák og við myndum vera innilegir, þá myndum við fá augngotur. Þó svo að við séum langt komin þá er ennþá langt í land. Ég er þó vongóður með framtíðina. Ég vona að það verði þannig að ef þú segir einhverjum að sért samkynhneigður, þá verði það eins eðlilegt og að segja einhverjum að þú borðir ekki gulrætur.“

Rúnar segist viss um að margir ungir stákar þarna úti séu í sömu sporum og hann var. „Þar sem ég hef verið að berjast við þetta svo lengi þá væri ég alltaf tilbúinn að ræða þetta við einhvern sem er að kljást við það sama. Ef maður getur veitt einhverjum innblástur til þess að vera samkvæmur sjálfum sér, sem er öfugt við það sem ég gerði, þá er það hið besta mál,“ segir Rúnar að lokum.