Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Er fyrst og fremst talsmaður nemenda
Guðrún Inga Bragadóttir.
Laugardagur 25. janúar 2014 kl. 08:00

Er fyrst og fremst talsmaður nemenda

Könnun um líðan ber meiri árangur með nafngreiningu.

Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta og tekin verður fyrir næstu vikur.

Námsráðgjöf í Grunnskóla Grindavíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðrún Inga Bragadóttir hefur verið náms- og starfsráðgjafi við Grunnskólann í Grindavík frá árinu 2005. Hún segir starfið afar fjölbreytt og það hafi breyst töluvert á þessum árum. „Það komu 515 nemendur til mín í viðtöl í fyrra og það er fyrir utan þá sem koma í náms- og starfsfræðslu í 10. bekk. Þessi tala fer hækkandi ár frá ári. Ég tel að kennarar, nemendur og foreldrar séu orðnir meðvitaðri um starfið og leiti oftar til námsráðgjafa.“

Flestir koma vegna líðan
Guðrún Inga viðurkennir að flestir leiti til hennar vegna líðan en leiti einnig til hennar vegna námstækni. „Við erum með sálfræðing sem sér aðallega um að greina nemendur. Svo tekur námsráðgjafi við varðandi það sem þarf að vinna í með nemendum. Námsráðgjafar vilja fæstir hafa þetta svona. Þetta er hluti af mínu starfi og ég nýt leiðsagnar sálfræðings og félagsráðgjafa í þessari vinnu. Ég hef aukið menntun mína á þessu sviði til að komast til móts við þarfir nemenda,“ segir Guðrún Inga og leggur sérstaka áherslu á að undirstaða náms sé líðan nemanda og því þurfi að passa vel upp á hana.

Marktæk könnun með nafngreiningu
Gerð er könnun árlega á líðan nemenda í 3. - 10. bekk þar sem þeir svara spurningum undir nafni. Einnig geta nemendur nafngreint þá sem mögulega valda þeim vanlíðan og þolendur eineltis eru einnig nafngreindir. Guðrún Inga vinnur úr könnuninni og kemur upplýsingum til kennara sem fer yfir mál umsjónarnemenda sinna. Í framhaldinu er nemendum boðið að koma til Guðrúnar Ingu í viðtal.

„Við fengum gagnrýni um nafngreiningu frá örfáum, en svo fékkst samþykki frá foreldrum um að hafa könnunina eins og áður. Nú síðast voru 93% nemenda sem tóku þátt í könnuninni. Hún er því vel marktæk,“ segir Guðrún Inga og bætir við að helst séu það eldri nemendur sem nenni ekki að taka þátt. Þeir sem hafi eitthvað að segja svari allir könnuninni. „Könnunin gefur góða mynd af líðan barna en ég held að aðrir grunnskólar á landinu hafi sína könnun nafnlausa.“

Ofbeldismál mjög falin
Erfiðustu mál sem koma á borð Guðrúnar Ingu eru barnaverndarmál. „Það koma upp ofbeldismál en þau eru ofboðslega falin. Samstarf lögreglunnar, félagsþjónustunnar og hinna á Suðurnesjum í þessum málum er mjög gott. „Við höfum fengið til okkar nemendur sem segja frá og jafnvel í fyrsta sinn,“ segir Guðrún Inga og bætir við að nemendur geti komið við hjá henni hvenær sem er. Hún sé oftast með opið í frímínútum og þeir viti hvar hana er að finna. Þeir þurfi ekki beiðni frá foreldrum eins og áður var. Það nægi bara tölvupóstur frá foreldrum eða símtal til að panta viðtal og þeir séu ánægðir með það.

„Ég er fyrst og fremst talsmaður nemenda og starfa með nemendafulltrúaráði skólans sem við köllum Stuðboltana. Hver bekkur hefur sinn fulltrúa í ráðinu sem er ætlað að auka lýðræði nemenda og koma með hugmyndir að bættum skólabrag. Ég funda með Stuðboltum fimm sinnum á ári og kem þeirra hugmyndum áfram til starfsfólks og stjórnenda. Það er gefandi og gaman að vinna með Stuðboltum í þessari vinnu,“ segir Guðrún Inga.


Fleiri strákar en stelpur leita til hennar
Þá segir Guðrún Inga fleiri drengi leita til hennar en áður. Hundrað fleiri strákar en stelpur komu til hennar á síðasta skólaári en árið áður. „Kannski eru þeir opnari og tilbúnari að leita lausna. Mér finnst það jákvætt. Ég er einnig með reiðinámskeið, prófkvíðanámskeið, kvíðahópa og sjálfstyrkingarnámskeið.“ Hún segir að börn þurfi að geta tjáð sig og að foreldrar leiti til hennar til að tala við barnið sitt ef eitthvað amar að. Allir séu að verða opnari.

„Svo þurfa börn stundum bara slökun og við höfum slökunarrými til þess. Ég fór á námskeið þar sem ég lærði að tileinka mér sjálfstyrkingaraðferð sem kallast Baujan. Allir fundir enda með slökun sem mér finnst virka mjög vel á nemendur. Börnin koma stundum fjögur í einu og láta ekkert trufla sig. Segjast bara hafa andað niður í maga og þá lagaðist allt,“ segir Guðrún Inga brosandi.
 

VF/Olga Björt