Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Er ekkert minna jólabarn í dag
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 21. desember 2022 kl. 09:15

Er ekkert minna jólabarn í dag

Adam Sigurðsson man sérstaklega eftir jólunum 2002 en þá fékk hann pakka sem var stærri en hann á þeim tíma og honum fannst það mjög spennandi. Í ár ætlar hann að hafa það notalegt með fjölskyldunni og fara í fjölskylduboð yfir jólahátíðina.

Hvernig var árið 2022 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið hjá mér var bara virkilega skemmtilegt. Ég eignaðist son seint á árinu 2021 og fór árið mestmegnis í það að kynnast honum og verja tíma mínum með honum árinu. Allt sumarið fór í fæðingarorlof sem var æðislegt og svo byrjaði ég í nýrri vinnu í september ásamt því að þjálfa fótbolta hjá Njarðvík.

Ert þú mikið jólabarn?

Já, ég er það eiginlega að öllu leyti bara. Fannst fátt jafn skemmtilegt og jólin þegar ég var yngri og er ekkert minna jólabarn í dag.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Það er svolítið mismunandi en fer yfirleitt upp á öðrum eða þriðja sunnudegi í aðventu.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Fyrstu jólin sem ég man eftir voru að mig minnir jólin 2002. Fékk þá pakka sem ég man reyndar ekkert hvað var en hann var stærri en ég á þeim tíma sem mér fannst alveg hrikalega spennandi.

En skemmtilegar jólahefðir?

Möndlugrautur á aðfangadagsmorgun er hefð sem hefur verið í minni fjölskyldu frá því ég man eftir mér. Höfum gert það að hefð að hafa eitthvað skemmtilegt borðspil í verðlaun fyrir þann sem fær möndluna.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Vanalega hef ég beðið fram að síðustu stundu en í ár kláraði ég þetta áður en desember gekk í garð, sem betur fer kannski.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Hamborgarhryggur, piknik franskar og daim ís, jólin væru ekki þau sömu án þessara þriggja hluta.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Fékk snjósleða með stýri þegar ég var tólf ára minnir mig. Stendur enn upp úr.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Aldrei þessu vant er listinn tómur hjá mér. Ég yrði þakklátur fyrir bara hvað sem er.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Það verður hamborgarhryggur auðvitað, svo er spurning hvað verður annað með honum. Við höfum haft tvíréttað undanfarin ár og þá hefur það verið folaldakjöt, Wellington-lund eða lamb með hryggnum.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Ég ætla að hafa það eins kósý og ég get með litla stráknum mínum. Við kíkjum í einhver fjölskylduboð ásamt því að hafa það notalegt með nánustu fjölskyldu.