Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Er ég Reykjanesbæingur?
  • Er ég Reykjanesbæingur?
    Eyþór Sæmundsson blaðamaður skrifar
Laugardagur 14. júní 2014 kl. 14:15

Er ég Reykjanesbæingur?

Ritstjórnarpistill Víkurfrétta

Reykjanesbær er 20 ára í þessari viku. Keflavík, Njarðvík og Hafnir sameinuðust árið 1994 þrátt fyrir skiptar skoðanir íbúa sveitarfélaganna á þeim tíma.

Þegar ég er spurður að því hvaðan ég kem þá er svarið jafnan Njarðvík, já eða Reykjanesbæ. Ekki vil ég kalla sjálfan mig Keflvíking en hef þó staðið mig af því að mótmæla því ekki. Alltaf hef ég haldið með Keflavík í fótbolta þrátt fyrir að hafa spilað með Njarðvíkingum alla mína íþróttagöngu. Það var einfaldlega vegna þess að Keflvíkingar léku í úrvalsdeild í fótbolta þegar ég var strákur en Njarðvíkingar voru í 4. deild. Ég skammast mín ekkert fyrir að halda með Keflavík þrátt fyrir að vera Njarðvíkingur að upplagi. Ég hins vegar styð þá grænu í körfuboltanum og óska yfirleitt Keflvíkingum alls hins versta á þeim vettvangi, þannig er ég bara víraður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég var 14 ára þegar sameiningin átti sér stað. Þetta var hið heitasta mál og fullorðna fólkinu var mikið niðri fyrir. Ég spáði þá helst í það hvort ég þyrfti að æfa körfubolta með strákunum í Keflavík. Það hélt ég nú ekki.

Ætli krakkar núna í dag kalli sig Reykjanesbæinga? Ég er hreint ekki viss. Hverfin verða alltaf skipt og íþróttafélögin munu lifa góðu lífi í Reykjanesbæ, sitt í hvoru horninu þrátt fyrir að samstarf sé sífellt að aukast milli þeirra. Rétt eins og Reykvíkingar eru allir settir undir sama hatt, þá eru þeir samt sem áður t.d. Þróttarar, Víkingar og KR-ingar. Þegar fram líða stundir munu íbúar Reykjanesbæjar væntanlega skipta sér í fylkingar eftir íþróttaliðunum eða skólunum. Sveitafélögin sálugu mun vonandi alltaf lifa í minningunni enda eiga þau öll ríka og langa sögu. Hvort að nafnið Reykjanesbær verði í hávegum haft er ekki gott að segja til um og mun tíminn einn leiða í ljós. Hér í bæ er margt gott sem ber að hampa, einnig er margt sem mætti betur fara. Ég hef náð að horfa á bæinn vaxa og dafna utan frá þar sem ég hef búið fjarri heimaslóðunum nokkrum sinnum. Alltaf kem ég þó til baka. Þar eru ræturnar og það fólk og umhverfi sem ég þekki.

Eldra fólkið sagði manni sögur af því að Njarðvíkingar og Keflvíkingar hafi iðulega mæst á „landamærunum“ og slegist með kjafti og klóm. Einfaldlega vegna þess að rígur ríkti á milli bæjanna. Nú er öldin önnur. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta fyrst og hið huglæga og tilfinningar. Mér finnst persónulega sem þessi gamli rígur hafi minnkað umtalsvert og þetta samfélag, sem orðið er 40% stærra en það var árið 1994, er mun samrýmdara og þéttara en áður. Nú 20 árum síðar fyllist ég stolti þegar Reykjanesbær stendur sig vel. Krakkarnir sem hafa náð ótrúlegum árangri í Skólahreysti eru í mínum huga ekki frá Keflavík þrátt fyrir að viðkomandi skóli sé staðsettur þar. Þau búa út um allan bæ og í mismunandi hverfum og eiga foreldra frá báðum hverfum, jafnvel er fólkið þeirra ættað úr Höfnum, þeim mæta stað.