Er Bjartasta vonin frá Suðurnesjum?
Hlustendur og starfsmenn Rásar 1 og Rásar 2 velja Björtustu vonina á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár sem fara fram þann 29. febrúar næstkomandi í Hörpunni. Gjaldgengir eru allir íslenskir „nýliðar“ eða „nýliðar“ sem búa og starfa á Íslandi og vöktu athygli á nýliðnu tónlistarári, óháð útgáfu. Tónlistarmenn frá Suðurnesjunum eru áberandi á hátíðinni þegar að kemur að tilnefningum og í flokknum Bjartasta vonin eru það bæði Valdimar Guðmundsson og hljómsveitin Of Monsters and Men sem koma til greina enda verið áberandi í tónlistarlífinu undanfarið ár eða svo.
Tilnefningar Bjartasta vonin - popp, rokk og blús:
1860
Of Monsters and Men Of Monsters and Men
Jón Jónsson
Valdimar Guðmundsson
The Vintage Caravan
Umsagnir um flytjendur:
Of Monsters and Men bar sigur úr býtum í Músíktilraunum árið 2010 og í kjölfarið var sveitin dugleg að spila á tónleikum víðs vegar um landið og hróður hennar barst út fyrir landsteinana. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu í fyrra og lagið Little Talks varð eitt af allra vinsælustu lögum ársins. Of Monsters and Men hefur nú samið við Universal Music um útgáfu á tónlist sinni erlendis.
Valdimar Guðmundsson vakti athygli með hljómsveit sinni, Valdimar, árið 2010 þegar fyrsta plata sveitarinnar kom út. Árið 2011 var Valdimar afar áberandi á ýmsum vettvangi. Hann hélt áfram að syngja með hljómsveitinni sinni, stofnaði dúettinn Eldar með Björgvini Ívari Baldurssyni og söng auk þess með Memfismafíunni, svo að nokkur dæmi séu tekin.
Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2011 má sjá hér.
Myndir/EJS: Af tónleikum á Paddy´s í haust