Er bæði nálægt lífi og dauða
- Sneri við blaðinu og ný fékk fjölda nýrra tækifæra.
Njarðvíkingurinn Þórarinn Ingi Ingason, Tóti, er flugstjóri á þyrlum Landhelgisgæslunnar. Hann fór 27 ára í áfengismeðferð og ári síðar fór hann í flugnám. Þá hafði hann verið meira og minna á sjó síðan hann var sextán ára. Víkurfréttir heimsóttu Tóta á heimili hans á Ásbrú og hann ræddi hvaða kúvendingu líf hans tók eftir meðferðina og störf sín sem þyrluflugmaður og kennari hjá Keili.
Gistir í einu af skipum Gæslunnar
„Vaktirnar hjá gæslunni eru fjóra sólarhringa í röð. Það er gerð krafa um að búa ekki í meiri fjarlægð en 15 kílómetra frá höfuðstöðvunum, sem er nokkurn veginn allt höfuðborgarsvæðið. Þegar ég er á vöktum gisti ég í einu af skipum gæslunnar í Reykjavíkurhöfn,“ segir Tóti og finnst það bara ágætt, enda vanur sjógangi eftir að hafa starfað lengst af sem sjómaður frá sextán ára aldri þar til hann fór í meðferð 27 ára. „Það varð gjörbreyting á lífi mínu og lífsmynstri. Hafði áður ýmsar hugmyndir en varð aldrei neitt úr verki. Ég fór að sjá nýja hluti frá nýjum sjónarhornum og í rauninni lærði ég loksins á sjálfan mig því myndin sem ég hafði af mér áður var kolröng.“
Alkóhólisti er bæði þolandi og gerandi
Tóti segir alkóhólisma vera alvarlegan sjúkdóm sem hafi mikið með hugarástand að gera og andlegu hliðina. Hann sé í raun óáþreifanlegur sjúkdómur sem hafi mikinn eyðileggingarmátt. „Sá sem er haldinn þessum sjúkdómi er bæði gerandi og þolandi. Sem þolandi sækir maður í þetta breytta og brenglaða hugarástand sem fylgir þessu og það er erfitt fyrir þann sem þekkir ekki sjúkdóminn að skilja hvers vegna alkóhólistinn hættir ekki bara að drekka.“ Tóti tekur til viðmiðunar að ef einhver veiktist af áþreifanlegum sjúkdómi eins og sykursýki og krabbameini, þar sem viðkomandi er fórnarlamb en ekki gerandi, sýni því allir skilning.
Stjórnleysið löngu orðið augljóst
„Svo er bara erfitt fyrir þann sem er sýktur af alkóhólisma að átta sig á því að hann er sýktur. Það er önnur rödd við stjórnvölinn. Tökum t.d. anorexíusjúkling. Ég hef ekki hitt einstakling sem er í vafa um hvort það sé sjúkdómur eða ekki. Samt er það sama í eðli sínu á þann hátt að viðkomandi er bæði gerandi og þolandi og allir sýna því skilning að eitthvað sé að. Það er ekki hægt að segja: Haltu áfram að borða.“ Tóti bætir við að margir átti sig ekki á því að þeir séu veikir en aðstandendur eru löngu búnir að átta sig á stjórnleysinu. „Í stjórnleysi kennir maður utanaðkomandi þáttum um óhamingju sína og vanlíðan, eins og slæmum félagsskap og óhamingjusömu sambandi. Það þarf að horfa oftar í eigin barm. Orsakavaldurinn er oftast innra með manni,“ segir Tóti.
Tóti og unnusta hans, Jóhanna Ósk Jóhannsdóttir, í Grænlandsferð.
Einfalt líf vanmetið
Að mati Tóta lagast samband við aðra ekkert endilega við að fara í meðferð. „Maður hefur val um hverja maður vill umgangast. Markmiðið var ekki að breyta öðrum heldur breyta mér. Maður sest ekkert upp í sófa og bara nýtur lífsins. Það koma enn upp erfiðleikar, gleðistundir og allt þess á milli. Þetta er bara öðruvísi líf sem snýst ekki um veraldleg gæði.“ Hann tekur sérstaklega fram að ekki megi vanmeta einfaldleikann. Margir sem lifi flóknu lífi þrái einfalt líf. Svo þegar þeir öðlast einfalt líf kunni þeir ekki að lifa því.
Ekki nóg að fara í meðferð
Tóti segist hafa séð fullt af fólki snúa við blaðinu og öðlast ný tækifæri og gera hluti sem virtust ógerlegir áður. „Svo þarf maður ekki að vera allt í öllu. Það er hægt að sleppa takinu og láta hlutina bara gerast. Þetta er stanslaus sjálfsvinna og sú vinna er mikilvægust. Það er eitt að fara í meðferð og annað að lifa í gildunum sem snúa að sjálfsræktinni. Það er ekki nóg að fara í meðferð og afeitrast en lagast svo ekki sem manneskja. Maður lærir að takast á við aðstæður á nýjan hátt og þá ganga ótrúlegustu hlutir upp.“
Enginn á að þurfa að deyja úr þessu
Hann segist einnig hafa horft á fólk sem fékk tækifæri til að snúa við blaðinu sem var í raun að nálgast dauðann. „Þess vegna er það svo mikið kraftaverk þegar fólk nær sér upp. Það á enginn að þurfa að deyja úr alkóhólisma.“ Tóti tekur fram að skilningur fyrir sjúkdómnum sé þó töluvert meiri í dag en áður fyrr. Hluti af því að snúa við blaðinu á þennan hátt er að gera upp sjálfan sig. „Það þýðir ekki að velta sér upp úr því sem liðið er en maður verður að axla ábyrgð á því sem maður hefur gert og gerir. Til dæmis að hafa ekki byrjað fyrr í námi eða brotið á öðrum. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið annað tækifæri. Ég hef gert fjölda mistaka og get bara breytt betur,“ segir Tóti.
Námið kostaði ígildi einbýlishúss
Eins og áður hefur komið fram fór Tóti í flugnám 28 ára. Hann segist hafa einhvern tímann velt því fyrir sér og farið í prufutíma. Hann hafi nánast ekki þekkt neinn í þessum bransa nema Ragnar bróður sinn sem var þá í flugnámi. „Þegar ég sný við blaðinu opnast raunhæfir möguleikar um að þetta standi mér til boða eins og öllum öðrum. Þá vindur þetta upp á sig. Ég átti pening fyrir einkaflugmannsnáminu eftir að ég seldi íbúð sem ég átti. Svo fékk ég fyrirgreiðslu fyrir atvinnuflugmannsnáminu í bankanum mínum. Það kostaði ígildi einbýlishúss í Keflavík,“ segir Tóti og glottir.
Enginn á nokkurt starf víst
Hann einbeitti sér svo algjörlega að því að klára flugnámið. Þegar því lauk hafi hann svo farið á fullt í að leita sér að vinnu. „Ég setti mig í samband við flugrekendur í Evrópu og langaði að komast þangað að vinna við að fljúga á olíuborpalla, einnig setti ég mig í samband við ýmiss fyrirtæki, þar má t.d. nefna túnfiskveiðiskip þar sem þyrlur eru notaðar við leit að túnfiski. Ég hefði verið galinn ef ég hefði farið að læra bara til að komast að hjá gæslunni. Það hefði verið mjög hæpið. Maður á ekkert starf víst. Þannig að ég lærði með olíuborpalla í huga og stefndi þangað.“
Tóti við eina af þyrlum Landhelgisgæslunnar. Mynd: Hilmar Bragi.
Lagði spilin á borðið
Landhelgisgæslan auglýsti eftir þyrluflugmanni og Tóti sló til og fór í gegnum allt ráðningarferlið. „Ég svaraði öllu heiðarlega á umsóknareyðublaðinu og það kom hvergi spurningin: hefurðu farið í meðferð? Samfélagið er ekki stórt á Íslandi og þau voru eflaust búin að komast að því áður, ég veit ekki.“ Þegar hann komst svo í atvinnuviðtalið var hann spurður að því hvort það væri eitthvað annað sem hann teldi að þau þyrftu að vita. „Þá sagði ég: já, ég er búinn að fara í meðferð og er óvirkur alkóhólisti. Þau spurðu út í það og hann útskýrði það fyrir þeim. Mér fannst það mér meira til tekna en taps að hafa axlað ábyrgð á lífi mínu. Lagði þau spil á borðið. Þau höfðu greinilega einhverja trú á kallinum,“ segir Tóti og hlær. Þá var hann búinn að vera edrú í sex ár og óttaðist ekkert að segja frá þessu. „Án þess að þetta væri eitthvað tiltökumál þá vildi ég bara vera heiðarlegur,“ bætir Tóti við.
Dýrari líftrygging vegna meðferðar
Hann segist þó gera sér grein fyrir því að eðlilegt sé að atvinnurekandi þurfi að meta hvort svona nokkuð sé áhættuþáttur, eins og með alla aðra áhættuþætti. „Þú þarft að geta lagt traust þitt á einstaklinga, sama hvaða starfi þeir sinna. Ef þú treystir ekki einstaklingi þá er erfitt að réttlæta ráðningu.“ Aftur á móti þegar Tóti ætlaði að fara að líftryggja sig þurfti hann að fylla út eyðublað um að hann hefði farið í meðferð. Niðurstaðan varð sú að það var tvöfalt dýrara fyrir hann að líftryggja sig. „Bara af því að ég lifði heilbrigðari lífsstíl en t.d. einhver sem hafði ekki leitað sér hjálpar. Þetta var sorglegt og ósanngjarnt og ég spurði líka þau hjá tryggingafélaginu hvort þeim fyndist þetta eðlilegt. Það er ekki spurt hvort einhver sé í óreglu, bara hvort viðkomandi hafi leitað sér aðstoðar,“ segir Tóti.
Varð flugstjóri þegar herinn fór
Tóti fékk starfið hjá Gæslunni 2004 og við tók hálft ár í þjálfun. Hann segir að það hafi verið góð tilfinning að námskostnaðurinn var að taka enda. Hjá Gæslunni störfuðu að jafnaði þrír flugstjórar og þrír flugmenn á þyrlunum. „Á þeim tíma var herinn ennþá. Miðað við óbreytt ástand hefði ég verið flugmaður út starfsferilinn minn og ég var bara ánægður með það. En þegar herinn fór vantaði allt í einu flugstjóra. Ég var ekki með reynsluna sem þurfti en mér var aftur treyst árið 2007 þegar ég varð flugstjóri. Ótrúlegt hvernig hlutirnir hafa gengið upp.“
Tóti í flugstjórnarklefa einnar af þyrlunum. Mynd: Hilmar Bragi.
Aðgerðir á Langjökli höfðu mikil áhrif
Starf sitt hjá Gæslunni segir Tóti að innihaldi alla þá vinkla sem snúi að þyrluflugi. Allt frá því að fljúga með forseta og þjóðhöfðingja annarra landa yfir í að slökkva elda. Þar á milli má nefna hífingar, flytja vinnuvélar upp á fjöll og taka eldsneyti á flugi úr skipum og endalaust má telja áfram. Mest gefandi segir hann þó þegar vel gengur. „Það poppar alltaf ein mynd upp í hugann. T.d. þegar við erum búnir að leita að einstaklingi og finnum hann og hann fellur á hné þegar hann sér okkur.“ Tóti segist auðvitað samgleðjast öðrum þegar hann sér að þeir eru hólpnir. Á móti komi þó blákaldur raunveruleikinn. „Ég hef til dæmis ekki farið í jöklaferð síðan ég varði heilum degi við björgunaraðgerðir þegar mæðginin féllu niður í sprunguna á Langjökli. Ég var þarna viku áður í jeppaferð á sama stað með strákinn minn. Þetta vekur mann til umhugsunar. Maður er bæði nálægt lífi og dauða.“
Drögum lærdóm af öllum verkefnum
Hjá Gæslunni starfa fimm saman í áhöfn: flugstjóri, flugmaður, flugvirki, stýrimaður og læknir. Tóti segir að stundum líði langt á milli verkefna þegar svona stóráföll verði og læknarnir um borð í áhöfn þyrlunnar þekki þessi áfallamál vel. „Eftir útköll förum við alltaf yfir málin og drögum lærdóm af þeim. Tölum út. Ég hef farið með áhöfn þegar við lentum á tveimur vikum í stórum útköllum og aðstæður voru þannig að við fórum í viðtal á eftir til að tala út. Hópurinn er þéttur sem starfi saman og hlúi vel að hver öðrum. Annars eru þetta soddan naglar,“ segir Tóti hlæjandi. Starfið sé þannig að menn læra þetta. Sjálfur sé hann frammi í þyrlunni og minna í sjúklingunum nema ef hann væri fyrstur á vettvang. „Mitt starf snýst aðallega um að koma okkur heilum á milli staða.“
Tóti í bænum Tasiilaq, sem heitir einnig Ammassalik, á Grænlandi. Mynd í einkaeigu.
Í Pakistan eftir jarðskjálftana 2006
Tóti segir að þótt starfið hjá Gæslunni sé mjög fjölbreytt sé gott að fara til annarra atvinnurekenda. Upplifa aðrar aðstæður, þankagang og vinnuumhverfi. „Nýir staðir víkka út sjóndeildarhringinn. Árið 2006 fór ég til Pakistan í tvær vikur yfir jólin fyrir Rauða krossinn eftir jarðskjálftana í Himalayafjöllum. Einnig hef ég farið til Svalbarða í einn mánuð fyrir norskt fyrirtæki og til Grænlands síðastliðið sumar að vinna fyrir íslenskt fyrirtæki. „Maður verður að fá að krydda þetta. Ég gerði það í frítímanum mínum og í sumarfríinu.“
Endar kannski sem gröfueigandi
Tóti segir í raun algjöra bilun að fjárfesta í svona dýru og miklu námi án þess að hafa tekið einn dag í slíku starfi. „En þetta er svo gefandi, sérstaklega í ljósi þess að þetta var svo fjarlægt mér á sínum tíma. Ég sá mig ekki fyrir mér eldast á sjó þó að það hafi verið skemmtilegur tími.“ Hann veiktist fyrir tveimur árum síðan vegna álags á hálsi. „Starfið tekur á hálsinn á manni, mikil þyngsli sem skaða hann. Þegar ég lá á sjúkrahúsinu tók ég þá ákvörðun að ef ég sneri ekki aftur til vinnu myndi ég kaupa mér gröfu. Ég gæti vel hugsað mér að enda sem gröfueigandi,“ segir Tóti og leggur áherslu á að starfsgleði snúist ekki um að fljúga þyrlu. Það megi ekki tala niður önnur störf. „Ef maður vaknar á morgnana og hefur gaman af starfinu sínu, hvert sem það er, þá er takmarkinu náð. Maður eyðir það miklum tíma af ævinni í vinnunni. Það er sorglegt að vita til þess að fólk starfi mjög lengi við eitthvað sem því líkar ekki. Það er eins og að sofa í óþægilegu rúmi.“
Tóti ásamt unnustu sinni og börnum sínum af fyrra sambandi. Mynd: Oddgeir Karlsson.
Kennsla, ferðalög og fjölskyldan
Auk þess að fljúga hefur Tóti starfað við flugkennslu frá 2004 og líkar það vel. „Ég færði mig til Flugakademíu Keilis fljótlega eftir að hún var stofnuð 2007 og kenni aðallega siglingafræði fyrir atvinnuflugmenn, einkaflugmenn og flugumferðarstjóra. Ég er annar tveggja sem eru yfir bóklega náminu og því einnig á skrifstofunni að skipuleggja námið.“ Þá hefur hann mikinn áhuga á að ganga um landið og gerir mikið af því ásamt unnustunni. „Ég fattaði þegar ég var búinn að sjá Ísland úr lofti í vinnunni hvað við eigum ofsalega fallegt land. Það kveikti upp löngun til að skoða það betur. Erlendir ferðamenn á Íslandi vita stundum meira um landið en sumir Íslendingar sem keyra eftir skiltum og fara varla út fyrir þjóðveginn, segir Tóti. Hann er þriggja barna faðir og segir mikilvægast í lífi hans í dag sé að eiga gott samband við unnustuna og börnin. „Þau skipta mig mestu máli - og allir sigrarnir sem hafa náðst.“
VF/Olga Björt