Er aðallega ljósabarn
Aron Arnbjörnsson starfar sem 50% trukkabílstjóri og er hobbýbóndi á Stafnesi. Hann hefur ekki verið duglegur við bakstur síðustu ár en ætlar að gera lakkrístoppa í ár og jafnvel tilraunir með aðra toppa.
– Ertu mikið jólabarn?
„Tja, aðallega ljósabarn.“
– Fóru jólaljósin fyrr upp í ár en í fyrra?
„Já, að sjálfsögðu. Meira að segja trukkurinn er orðinn ljósvæddur.“
– Skreytir þú heimilið mikið?
„Bara svona temmilega mikið held ég.“
– Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?
„Hittingurinn hjá pabba er alltaf minnisstæður en venjan var að hittast alltaf hjá pabba og gæða sér á eðal jólamat með pabbasósu eins og við köllum hana.“
– Hvað er ómissandi á jólum?
„Annað hvort hamborgarhryggur eða Bayonne-skinka, helst bæði.“
– Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
„Vera með fjölskyldunni og borða mikið.“
– Bakar þú fyrir jólin og hvað þá helst?
„Hef ekki verið duglegur við það undanfarin tíu ár eða svo en er að pæla í að gera lakkrístoppa eða einhverjar tilraunir með margvíslegum toppum.“
– Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
„Ætli ég klári það ekki þegar ég er búinn að kaupa síðustu gjöfina.“
– Hvenær setjið þið upp jólatré?
„Það er ekki ákveðið ennþá.“
– Eftirminnilegasta jólagjöfin?
„Sem krakki þá var það Stiga sleði en í gamla daga var hægt að nota slíkt, þá snjóaði allan veturinn.“
– Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
„Á aðfangadag kl. 18.“
– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?
„Nei.“