Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sunnudagur 19. september 1999 kl. 21:49

ENSKUKENNSLA Í FIMMTA TIL TÍUNDA BEKK

Ný Aðalnámskrá grunnskóla tók gildi 1. júní nú í sumar og skal hún vera komin til framkvæmda eigi síðar en að þremur árum liðnum frá gildistöku. Námskráin var gefin út í ellefu heftum og kom heftið Erlend tungumál út í lok maí síðastliðins u.þ.b. er skólarnir voru að ljúka starfsemi sinni fyrir sumarið. Í lok síðasta skólaárs, þegar drög voru lögð að því næsta, hafði því lítill tími gefist til að kynna sér efni námskrárinnar til hlítar og mörgum spurningum var enn ósvarað um framkvæmd og fyrirkomulag byrjendakennslunnar. Sem dæmi má nefna að engar upplýsingar lágu fyrir fyrr en mjög seint um það kennsluefni sem yrði til úthlutunar til skólanna frá Námsgagnastofnun. Á vordögum sótti undirrituð fund sem Félag enskukennara stóð fyrir. Þar var flutt skýrsla starfshóps um byrjendakennslu í ensku í grunnskólum Seltjarnarness. Sá hópur starfaði í 4 mánuði við að kynna sér slíka kennslu frá ýmsum hliðum. Að þeirri vinnu lokinni var ákveðið að enskukennsla skyldi hafin að hausti í 4. bekk Mýrarhúsaskóla. Hafði hópurinn þá starfað, auk þessara fjögurra mánaða, allt sumarið á undan við að taka saman námsefni. Í skýrslunni er einnig lögð áhersla á að nauðsynlegt sé að vanda vel til alls undirbúnings slíkrar kennslu og sé þessa ekki gætt, sé betur heima setið en af stað farið. Kennslan tókst mjög vel enda gífurlega vel undirbúin og ljóst er að slík vinna er ekki hrist fram úr erminni á nokkrum dögum. Á fundinum var samankomið skólafólk úr ýmsum áttum og m.a. frá Kennaraháskóla Íslands og var tónninn í fundarmönnum sá að á meðan ekki væri í boði samræmt námsefni frá Námsgagnastofnun væri rétt að hinkra örlítið til að samræmis í kennsluefni yrði gætt þegar farið yrði af stað og óþarfi væri að kennarar í hverjum skóla fyrir sig væru að finna upp hjólið ef svo má að orði komast með allri þeirri vinnu sem því fylgir. Einnig sá ég glögglega á þeim námskeiðum sem ég sótti í sumar að mjög breytilegt er hvenær hinir ýmsu skólar á landinu ætla að færa enskukennsluna niður og í Reykjavík er t.d. ekkert samræmi í því. Sumir eru þegar búnir að færa hana niður, aðrir ætluðu að byrja nú í haust, enn aðrir ætluðu að byrja á því að fara niður í 6. bekk og loks voru sumir sem alls ekki ætluðu að hreyfa við kennslunni í haust heldur undirbúa þá breytingu betur. Í ljósi þess að skólunum eru gefin 3 ár til að hrinda námskránni í framkvæmd og þeirrar gríðarlegu röskunar sem fyrir dyrum stóð bæði á skólahúsnæði okkar sem og innra starfi skólanna í Reykjanesbæ fannst okkur í Holtaskóla viturlegast að færa enskukennsluna niður í tveimur þrepum þ.e. niður í 6. bekk þetta skólaárið og niður í 5. bekk það næsta og fá þannig lengri undirbúningstíma. Vera má að sumum finnist þessi rök ekki upp á marga fiska en þannig er það nú einu sinni að sitt sýnist hverjum. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því þótt ekki sé kennd enska í 5. bekk í vetur í Holtaskóla eru þar samt kenndir fleiri enskutímar á viku heldur en kveðið er á um í viðmiðunarstundaskrá Aðalnámskrár jafnvel þótt þar sé gert ráð fyrir enskukennslu í 5. bekk, en viðmiðunarstundaskráin segir til um þá lágmarkskennslu sem hver nemandi á rétt á í einstökum námsgreinum. Í Holtaskóla eru nefnilega kenndir 5 tímar í ensku á viku í tíunda bekk, 4 tímar í sjöunda, áttunda og níunda bekk og 3 tímar í sjötta bekk. Samtals eru þetta 20 tímar á viku. Í viðmiðunarstundaskrá Aðalnámskrár er gert ráð fyrir 4 enskutímum á viku í tíunda bekk, 3 tímum í áttunda og níunda bekk og 2 tímum í fimmta, sjötta og sjöunda bekk. Samtals gerir viðmiðunarstundaskráin því ráð fyrir 16 enskutímum á viku. Í Holtaskóla eru því kenndir 4 enskutímar á viku umfram það sem ný Aðalnámskrá kveður á um þrátt fyrir að engin kennsla sé í 5. bekk í vetur. Ég skil þó vel áhyggjur fólks yfir því að skólarnir reynist ekki allir sambærilegir og ég efast um að þeir verði nokkurn tíma alveg eins enda starfsfólk margvíslegt og ólíkt. Hins vegar er alveg ljóst að skólastarf stjórnast ekki alfarið af geðþóttaákvörðunum einstakra skólastjórnenda heldur þurfa skólarnir að framfylgja ákveðnu vinnuplaggi, Aðalnámskrá grunnskóla, sem leggur línurnar fyrir allt skólastarf í landinu en veitir einnig ákveðið frelsi þ.e. tíma sem skólunum sjálfum er falið að ráðstafa. Þar liggur kannski misræmið á milli skólanna og ekkert nema gott um það að segja að skólarnir hafi örlítið svigrúm svo sem til að kenna fleiri tíma í einstökum greinum umfram það sem Aðalnámskrá kveður á um. Það veit ég hins vegar að starfsfólk í öllum skólum bæjarins er samtaka í því að reyna að koma sem best til móts við þarfir nemenda og gaman er að segja frá því að aldrei hef ég séð jafn marga kennara úr skólum bæjarins saman komna í mínum skóla, hlaupandi út og inn af fundum, miðlandi upplýsingum og efni svo að samræming milli skólanna megi verða sem mest og best. Allar breytingar taka tíma og mikilvægt er að allir bæjarbúar reyni að vera jákvæðir og samtaka um þetta verkefni svo það megi takast sem best. Guðlaug María Lewis, kennari og fagstjóri í ensku í Holtaskóla Gylfi Guðmundsson, skólastjóri Njarðvíkurskóla, ritaði einnig grein um enskukennslu en hana er að finna á heimasíðu skólans og slóðin er: www.njardvik.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024