ENSKUKENNSLA Í FIMMTA BEKK
Samkvæmt nýrri námsskrá grunnskólanna skal hefja enskukennslu í fimmta bekk. Mikil varð því undrun mín þegar ég sá að engin enskukennsla var inná stundatöflu dóttur minnar sem er að hefja nám í fimmta bekk í Holtaskóla. Þegar ég leitaði skýringa tjáði aðstoðarskólastjóri mér að þar semgrunnskólarnir hafi tveggja ára aðlögunartíma til að hrinda í framkvæmd enskukennslu í fimmta bekk hefði verið ákveðið að nýta sér það ákvæði þar sem kennsluefni væri ekki tilbúið og erfitt hefði reynst að manna skólann réttindakennurum. Því skyldi enskukennslunni frestað um eitt ár. Ég leyfi mér að gera athugasemdir við þessi rök. Ég held því fram að það þurfi ekki ákveðið, fyrirfram tilbúið námsefni til að geta hafið enskukennslu hjá tíu ára börnum. Þau þurfa engar kennslubækur. Auðvitað þyrfti kennarinn að undirbúa og útbúa kennsluefni við hæfi og af nógu er að taka. Einnig má spyrja; hvernig fara þá hinir skólarnir að sem hefja enskukennsluna nú í haust? Mætti ekki leita í smiðju til þeirra? Ég get því alls ekki tekið skýringuna um að námsefni vanti fullgilda. Með tilliti til slakrar frammistöðu nemenda úr Reykjanesbæ á samræmdum prófum undanfarin ár tel ég algert ábyrgðarleysi af hálfu skólayfirvalda í Holtaskóla að nýta sérákvæðið um tveggja ára aðlögunartíma og fresta þannig enskukennslunni um eitt ár og hver veit, kannski um tvö. Aðlögunartíminn er jú tvö ár og hver er kominn til með að segja að aðstæður hafi breyst til batnaðar haustið 2000? - Það er alkunna að erfitt hefur reynst að manna skólanaréttindakennurum. Í Holtaskóla eru tveir fimmtubekkir og eru kennarar beggja án réttinda. Það stoðar ef til vill lítið að ergja sig yfir því eins og ástandið er enda ekkert náttúrulögmál að leiðbeinendur séu verri kennarar en þeir sem réttindin hafa. En ef leiðbeinendum er treyst til aðkenna börnunum íslensku, náttúrufræði, stærðfræði, dönsku og önnur skyldufög þá hlýtur þeim einnig að vera treystandi fyrir byrjunarkennslu í ensku. Rök skólans falla því um sjálf sig. Grunnskólarnir heyra undir sveitafélagið og ég hafði því haldið í einfeldni minni að unnið væri samkvæmt samræmdri skólastefnu. Ég hafði haldið að allir sambærilegir skólar sveitafélagsins ættu að veita nemendum sínum sömu þjónustu, sama námsframboð, sömu möguleika. Þar skjátlaðist mér hrapalega. Skólastjórarnir sjálfir virðast geta ráðið því hvort þeirra skóli hrindiákvæðum nýrrar námsskrár í framkvæmd eða nýti sér rammann um tveggja ára aðlögunartíma t.d. hvað varðar enskukennsluna í fimmta bekk. Skólamálastjóri Reykjanesbæjar virðist ekki hafa nokkra lögsögu í málinu. Enda kemur í ljós að bæði Myllubakkaskóli og Heiðarskóli ætla að veitafimmtubekkingum enskukennslu strax í haust á meðan Holtaskóli og Njarðvíkurskóli fresta málinu a.m.k. um eitt ár. Hvers eiga nemendur þessarra tveggja skóla að gjalda? Þetta er með öllu óviðunandi þar sem nemendur eru skikkaðir í skólana miðað við búsetu. Þeir hafa ekkert val. Efskólastefna sveitafélagsins byggir á því að skólarnir séu mismunandi og bjóði upp á mismunandi námsúrval og kennslu þá hefði átt að kynna það í upphafi og veita foreldrum þann sjálfsagða rétt að fá að velja þann skóla fyrir börnin sín sem þeir treysta best fyrir menntun þeirra. Þar sem slíkt val var ekki fyrir hendi hlýtur það að vera krafa foreldra að allir grunnskólanemendur í sveitafélaginu sitji við sama borð hvað varðar námsframboð. Sveitafélagið rekur grunnskólana og hlýtur að bera skylda til að sjá til þess að algert samræmi ríki í starfsemi þeirra. Misvitrirskólastjórnendur eiga ekki að ráða því hvað kennt er og hvað ekki. Þeir eiga í raun eingöngu að framfylgja skólastefnu sveitafélagsins sem byggir á námsskrá og lögum um grunnskóla. Ég get ekki sætt mig við þetta misræmi og tel okkur hafa verið hlunnfarin. Ég krefst þess að bæjarmálayfirvöld taki málið í sínar hendur og gæti jafnræðis þegna sinna sem stunda grunnskólanám, að þeir njóti allir sama námsframboðs og sömu möguleika til náms Vonandi láta fleiri foreldrar sig málið varða.Jórunn Tómasdóttir foreldri og formaður félags íslenskra tungumálakennara.