Englar og menn - tónlistarhátíð Strandarkirkju
Söngtónleikar á sunnudag
Næstsíðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni Englar og menn í Strandarkirkju verða nk. sunnudag 24. júlí og hefjast að venju kl 14. Þar koma fram hjónin og söngvararnir Þóra Einarsdóttir sópran og Björn Jónsson tenór og með þeim leikur Svanur Vilbergsson á gítar. Yfirskrift tónleikanna er „Í ljúfum blæ“ en þau munu flytja úrval íslenskra sönglaga og trúarljóða ásamt þekktum klassískum verkum.
Tónlistarhátíðin hefur verið mjög vel sótt og vel tekið þar sem hefur verið fjölbreytt dagskrá og söngröddin og íslenska sönglagið í fyrirrúmi.
Heimamenn hafa stutt vel við hátíðina með veitingasölu, sem mörgum þykir indælt að nýta sér eftir stundina í kirkjunni. Aðrir taka með sér teppi og nesti og finna sér laut í fallegri náttúrunni og njóta fegurðar strandarinnar og Selvogsins, þar sem helgi og dulmögnun staðarins svífur yfir.
Þema hátíðarinnar er englar og menn, land, náttúra, trú og saga þar sem íslensk þjóðlög og sönglög, ásamt innlendum og erlendum trúarljóðum og klassískum verkum, hljóma á um klukkustundarlöngum tónleikum.
Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi hátíðarinnar, sem er styrkt af Nýsköpunarsjóði Suðurlands, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd. Aðgangseyrir að tónleikunum er kr. 2.000. Ekki er tekið við greiðslukortum.