Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Enginn getur gert allt, allir geta gert eitthvað
Föstudagur 2. september 2005 kl. 16:37

Enginn getur gert allt, allir geta gert eitthvað

Í byrjun september fer af stað annar vistverndarhópurinn í Vogunum. Síðastliðinn vetur tóku 30 einstaklingar frá sjö heimilum þátt í verkefninu Vistvernd í verki og veittu viðtöku viðurkenningu. Búist er við að svipaður fjöldi taki þátt í næsta hópi.

Vistvernd í verki er alþjóðlegt umhverfisverkefni fyrir heimili. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Verkefnið er hið eina sinnar tegundar í heiminum svo vitað sé og hafa kannanir sýnt að það skilar miklum og varanlegum árangri í bættri umhverfismeðvitund og hegðun. Um 470 heimili á Íslandi hafa nú þegar tekið þátt í verkefninu.

Allir geta tekið þátt, ungir sem aldnir. Hvort sem fjölskyldan er stór eða lítil. Það eina sem þarf er áhugi á að taka upp vistvænni lífsstíl eða bæta enn betur það sem nú þegar er gert.

Hver hópur hittist sex sinnum í einn og hálfan til tvo klukkutíma í senn og fer í gegnum jafn marga kafla í bók sem fjallar um mismunandi efni tengd vistvernd.  Hver fjölskylda ákveður fyrir sig hvort hún framkvæmir mælingar á tímabilinu og á hvað hún leggur aðallega áherslu.  Að leiðarljósi höfum við setninguna „enginn getur gert allt, allir geta gert eitthvað.“

Foreldrar barna í 1. til 4. bekk Stóru-Vogaskóla eru sérstaklega boðnir velkomnir. Í vetur mun verða tekin fyrir þemavinna um endurvinnslu þar sem kynna á fyrir börnunum ólíka flokka efna sem falla til við daglega neyslu og þau þannig vakin til umhugsunar um hvernig nýta má þau efni og ræktuð með þeim ábyrgð um að ganga vel um umhverfið. Þetta er því tilvalið tækifæri fyrir samvinnu heimilis og skóla þar sem fjölskyldan stendur saman að verkefninu.

Fyrir þá sem hafa tekið þátt í visthópi þarf ekki að tíunda þörfina á því að þessi mál séu rædd. Að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að taka upp vistvænna heimilishald er fyrsta skrefið, það sem fylgir á eftir á eftir að koma á óvart. Þetta er líka kjörið tækifæri til að hitta aðra íbúa sveitarfélagsins, kynnast skemmtilegum einstaklingum og láta gott af sér leiða.

Skráning er hjá Helgu í síma 424-6724 eða á netfanginu [email protected] og hjá Þorvaldi Erni í síma 424-6841 eða á netfanginu [email protected] 
 
Af www.vogar.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024