Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Enginn ætti að elda nema að hafa hvítvín við hönd
Laugardagur 27. september 2014 kl. 09:37

Enginn ætti að elda nema að hafa hvítvín við hönd

Í Eldhúsinu

Fríða Stefánsdóttir er tæplega þrítugur Sandgerðingur. Hún er fædd og uppalin í Vesturbænum, hefur verið búsett á Akranesi, en lengst verið í Sandgerði og telur sig því vera Sandgerðing í húð og hár. Fríða er kennari í Grunnskólanum í Sandgerði, ásamt því að vera bæjarfulltrúi.

Fríða segir það vera mikinn heiður að fá að deila uppskrift vikunnar með lesendum Víkurfrétta. „Svona sérstaklega í ljósi þess að ég er hræðilegur kokkur. Húsmóðurgenið hefur ekki ennþá fundist. Mér er t.d. algjörlega ómögulegt að baka, og hef tekist að klúðra auðveldustu uppskriftum. Ég fylltist miklu stolti er ég náði fyrir stuttu að sjóða egg án þess að skurnin brotnaði af egginu í pottinum,“ segir Fríða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þar sem ég bý ein, finnst mér oft varla taka því að elda, t.d. finnst mér ekkert sérstaklega mikilvægt að eiga eitthvað eitt eldhúsáhald frekar en annað, en finnst þó mjög mikilvægt að eiga alltaf servéttur, litaskrúðugar og munstraðar. Þegar ég fæ mig til að elda er ég frekar einhæf, skelli kjúklingabringu eða fiski á pönnu og hendi í salat með. Ég á það hinsvegar til að bjóða vinkonum í mat og er það þá oftast heimatilbúið sushi á boðstólnum, sem ég er snillingur í að búa til, kannski útaf það tengist því engin eldavél eða ofn. Ég hendi líka oft í þetta salat sem ég ætla að deila með ykkur, enda mjög vinsælt í vinkonuhópnum. Þetta er algjört föstudagssalat og því „möst“ að hafa hvítvín með, enda ætti enginn að elda nema að hafa hvítvín við hönd.

Kjúklingasalat ala Fríða, fyrir 3- 4

4 kjúklingabringur
1 bolli sesamfræ
1- 2 msk sojasósa
1 msk hunang.

½ piparostur
½ mexicoostur (eða hvaða ostur sem fólki finnst vera bestur)
1 bolli kasjúhnetur
box af ferskum jarðaberum
½ gúrka
1 rauð papríka
¼ blaðlaukur
1 poki af klettasalati
1 poki blandað salat

Dressing
1 msk hunang
1 msk dijon sinnep
1 msk ss sinnep
½ dolla 10% sýrður rjómi
½ dolla lítil mæjónes.
dass af svörtum pipar og salti eftir smekk.


Aðferð:
Hellið ykkur hvítvíni í glas og byrjið á því að rista sesamfræin á þurri pönnu. Fjarlægið þau af pönnunni og steikið niðurskorin kjúklingin. Bætið hunanginu og sesamfræjunum við kjúklingin og hellið sojasósunni útá. Steikið þangað til kjúklingurinn er orðinn gylltur.
Skerið ostana í teninga (sumum finnst betra að rífa ostinn niður í salatið) og skerið restina af salatinu niður í skál.
Setjið kjúklinginn yfir salatið.
Blandið í dressinguna og berið fram til hliðar.