Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Engar kvartanir merki um gott sumar
Hreggviður Hermannsson og Viktor Emil Sigtryggsson. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 25. ágúst 2024 kl. 08:20

Engar kvartanir merki um gott sumar

Hátt í 700 ungmenni í Reykjanesbæ störfuðu hjá Vinnuskóla Reykjanesbæjar í sumar. Vinnuskólinn er fyrir ungmenni í áttunda til tíunda bekk grunnskóla. Yngsta starfsfólkið skilar 60 vinnustundum en þau eldri 120 stundum. Þeir Viktor Emil Sigtryggsson, forstöðumaður Vinnuskólans í Reykjanesbæ og Hreggviður Hermannsson, umsjónarmaður samstarfsverkefna, tóku á móti blaðamanni Víkurfrétta og ræddu vinnuskólalífið.

Hvernig var sumarið hjá Vinnuskólanum í Reykjanesbæ. Hvað voru mörg í vinnu í sumar?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það voru 665 krakkar að vinna í vinnuskólanum. Þau voru í almennri beðahreinsun og svo í allskonar samstarfsverkefnum. Þetta er í raun sama prógramm og verið hefur undanfarin ár og þar af voru 42% hópsins í samstarfsverkefnum.“

Sem eru þá hvernig verkefni?

„Við erum í samstarfi við leikskóla og íþróttafélög. Taekwondo-deildin er í samstarfi við okkur, báðar knattsyrnudeildirnar í Keflavík og Njarðvík ásamt körfuknattleiksdeildunum frá sömu félögum. Þá erum við í samstarfi við Golfklúbb Suðurnesja, bókasafnið í Reykjanesbæ og aðrar stofnanir.“

Þannig að einstaklingar frá ykkur fara í verkefni á þessum stöðum?

„Þau sækja sérstaklega um að fá að vinna með börnum og við sendum lista út á þessi samstarfsverkefni og þau vinna út frá listanum. Þau sem fara í svona samstarfsverkefni eru á sama tímakaupi og í beðahreinsuninni og skila sama vinnutíma.“

Rigning dag eftir dag

Verkefni Vinnuskólans í Reykjanesbæ felst í beða- og gatnahreinsun. Starfsfólkið er að hreinsa gras á milli gangstéttarhellna víðsvegar um bæinn. Þeir Vikor og Hreggviður viðurkenna að verkefnin séu einhæf og þegar sumarið var eins og í sumar veðurfarslega, þá var vinnan oft blaut og leiðinleg. „Þegar þú mætir alla morgna í að hreinsa upp gras og það rignir dag eftir dag, þá getur þetta verið erfitt. Að sama skapi er þetta bara góð stemmning í góðu veðri.“

Í vinnuskólanum er reynt að brjóta upp starfið og gera eitthvað skemmtilegt samhliða. Vinnuskólinn var færður frá umhverfissviði og undir menntasvið fyrir síðasta sumar og þá var sett inn meiri áhersla á menntun og fræðslu inn í starfsemina til að byggja upp einstaklingana. Það eru ýmsir hvatar í kerfinu. Eitt verkefni er klárað í tíma og þá vinnst tími til að taka fram körfuboltann í hálftíma.

Sýna frumkvæði og vera virk

„Fyrst og fremst erum við að kenna ungmennunum þau gildi að sýna frumkvæði og vera virk í vinnunni.“

Það er gömul mýta að starfsfólk vinnuskólans sé annað hvort sofandi í blómabeði eða fram á kústskaft. Þeir félagar segja að auðvitað gerist það að lífinu sé tekið rólega þegar sólin lætur sjá sig, en rigningardagar eins og í sumar séu ekki ákjósanlegir til að leggjast í næsta beð.

Íbúar í Reykjanesbæ muna örugglega eftir því þegar Vinnuskólinn birti fyrir og eftir myndir af svæðum sem verið var að snyrta og mátti sá mikinn og góðan árangur. Þessi vinna er enn í gangi og keppnisskap í unga fólkinu sem var að fegra bæinn. Stjórnendur ákváðu hins vegar að leggja minni áherslu á að birta þessar myndir nú. Samfélagsmiðlarnir voru frekar notaðir til að sýna stemmninguna í hópnum sem var að störfum í sumar.

Skila 60 til 120 vinnustundum

Í Vinnuskóla Reykjanesbæjar eru ungmenni úr 8. til 10. bekk í grunnskólum bæjarins. Áður fyrr var skipt upp í A- og B-tímabil. Núna var þetta bara eitt tímabil og starfsmenn úr 9. og 10. bekk kláruðu sína 120 tíma á meðan 8. bekkur var með 60 tíma. Starfsmenn úr 8. bekk unnu þrjá tíma á dag á meðan þau eldri voru í sex tíma á dag. Fyrir vinnuna fær svo starfsfólkið greitt tvívegis yfir sumarið. Launin eru svo 1.300 til 1.500 krónur á tímann með orlofi. Ungmennin í 8. bekk í Reykjanesbæ geta státað af því að vera með mun hærri laun en jafnaldrar þeirra í sveitarfélögum sem Reykjanesbær ber sig saman við. „Við erum að borga best,“ segja þeir félagar.

78% ungmenna í vinnuskóla

„Þátttakan í Vinnuskólanum í Reykjanesbæ var mjög góð í sumar, 78% allra ungmenna í 8. til 10. bekk voru í vinnu hjá skólanum í sumar. Það er heldur ekki úr miklu öðru að moða fyrir fólk á þessum aldri, eiginlega ekkert annað að hafa. Það er af sem áður var þegar ungmenni gátu fengið alla þá vinnu sem þau vildu í fiskvinnslu.“

Í dag er sláttur á grænum svæðum boðinn út í Reykjanesbæ en sláttuvinnan er eitthvað sem þeir Viktor og Hreggviður horfa til í framtíðinni sem verkefni fyrir ungmennin í vinnuskólanum. Þau geti auðveldlega tekið að sér einhver tún og jafnvel þjónustað garða fyrir eldri borgara. Staðan sé hins vegar þannig að Vinnuskólinn í Reykjanesbæ eigi ekki eina einustu sláttuvél. Kannski verði það í framtíðinni.

Viktor kemur frá Akureyri og er með þá sýn þaðan að þar slær umhverismiðstöðin græn svæði en vinnuskólinn sér svo um að raka og hirða upp grasið. Það sé verkefni inn í veturinn að skoða enn frekar hvaða verkefnum Vinnuskólinn í Reykjanesbæ eigi að sinna fyrir bæjarfélagið og hvernig hægt sé að skapa vinnuskólanum fjölbreyttari verkefni.

Geta vel við unað

Þegar sumarið hjá Vinnuskóla Reykjanesbæjar er gert upp, þá geta öll vel við unað. Skömmu áður en útsendari Víkurfrétta tók hús á stjórnendum vinnuskólans höfðu borist þær upplýsingar að engar kvartanir höfðu borist til Reykjanesbæjar í sumar vegna vinnu skólans. Það gerist stundum að eldri og vitrari hringi inn kvartanir þegar þau sjá ungmenni vera að slæpast við vinnuna. „Ekkert slíkt símtal barst í sumar. Það er merki um mjög gott sumar,“ sögðu þeir Viktor og Hreggviður hjá Vinnuskóla Reykjanesbæjar.